28.07.1915
Efri deild: 17. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

47. mál, atvinna við siglingar

Framsögumaður (Karl Einarsson) :

Nefndin hefir athugað þetta stjórnarfrumv. og getur að flestu leyti mælt fram með því að efninu til. En hins vegar verður hún að leggja til, að orðfæri þess sje breytt mikilla muna.

Efnisbreytingarnar, sem nefndin leggur til að gjörðar verði, eru aðallega þær, að ákvæði frumv. verði eigi látin ná til minni báta en 6 lesta, og að eigi verði gjörðar jafn strangar kröfur um sjón þeirra manna, sem stjórna skipum frá 6–12 lesta, og um sjón annara skipstjóra.

Þá vil jeg minnast á hinar einstöku brtt. 1. brtt. er við 2. gr., og fer í þá átt, að greinin orðist öll upp, og vona jeg að háttv. deild fallist á, að orðalag nefndarinnar sje betra en orðalag frumv. Í b- og c-lið þeirrar brtt., eru þær efnisbreytingar, sem jeg þegar hefi getið um. — 2., 3., 4., 5. og 6. brtt. eru við 3., 4.. 5., 6. og 7. gr., og fara allar í þá átt, að breyta orðalagi þeirra greina, sem þær eiga við. — 7. brtt. er við 9. gr., og fer aðallega fram á orðabreytingar, en þar að auki er þar lagt til, að aftan við greinina sje hnýtt einni málsgrein um að sá, sem staðist hefir próf, geti fengið skipstjórsskírteini á smáskipum hjá yfirvaldi. — Aðrar brtt. þykist jeg ekki þurfa að tala sjerstaklega um, og vona jeg að háttv. deild taki þær allar til greina.