19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

13. mál, harðindatrygging búfjár

Eggert Pálsson:

Frumv. þetta, sem hjer liggur fyrir, er allstór lagabálkur. Má segja svo, sem hjer sje um nýja stefnu að ræða í harðinda-, horfellis- eða forðagæslulöggjöf vorri. Og mjer dylst það ekki, að frumv. verður að athuga í nefnd. Bæði er það sjálfsögð skylda gagnvart semjanda frumv., Torfa sáluga í Ólafsdal, og það verður ekki gengið þegjandi og nefndarlaust fram hjá svona mörgum og margvíslegum uppástungum. Spursmálið er þá að eins það, hvaða nefnd eigi að fjalla um málið.

Fyrir skömmu lá hjer fyrir hv. deild annað frumv., sem fór fram á afnám forðagæslulaganna. Svo fór, að sjerstök nefnd var kosin, til þess að athuga það frumv. En milli þessara tveggja frumv. virðist mjer allnáið samband. Verði nú þessu frumv. vísað til landbúnaðarnefndar, eins og háttv. flutnm. (B. J.) stingur upp á, en ekki til forðagæslunefndarinnar, þá fæ jeg ekki annað sjeð en að afstaða nefndanna og þingdeildarinnar verði talsvert óviðfeldin, og getur það einnig orðið óheppilegt fyrir málin. Jeg vil því leggja það til, að þessu frumv. verði vísað til nefndarinnar, sem kosin var í frumv. um afnám forðagæslulaganna. Það er ekki svo að skilja, að mig fýsi til þess að fást við þetta frumv., heldur ber jeg þessa tillögu fram vegna hins nána sambands frumvarpanna, sem gjörir það óhjákvæmilegt, að sama nefndin athugi þetta ekki.