19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

13. mál, harðindatrygging búfjár

Einar Jónsson:

Jeg skal ekki vera langorður um þetta frumvarp við þessa umræðu. Aðalástæða mótstöðu manna frumv. um afnám forðagæslulaganna er sú, að ekki sje rjett að afnema lögin, þar sem enn sje engin reynsla fengin fyrir því, hvort þau komi að tilætluðum notum, eða sjeu blátt áfram óheppileg. Það er ekki nýtt að heyra þessa mótbáru, þegar verið er að tala um breyting eða afnám ungra laga. En kaupstaðarbúar geta síður um þetta frv. talað af reynslu en sveitabændur. Og háttv. samþingm. minn (E. P.) hefir fært svo ljós rök að því, að full reynsla sje fengin fyrir því, að lögin sjeu algjörlega ónóg og óþörf, að því verður ekki á móti mælt. Jeg skal játa það, að semjandi frumv., Torfi í Ólafsdal, og frumv. sjálft er þess fullkomlega vert, að það komi fyrir þingið, þótt mjer á hinn bóginn geti ekki dulist, að talsverðir agnúar eru á frumv., og sumir þeirra talsvert stórir. Jeg ætla samt ekki að fara mikið út í það í þetta sinn, en vil þó benda háttv. deild á stærsta agnúann, sem á frumv. er, að mínu áliti. Það er hinn mikli kostnaðarauki og fyrirhöfn, sem af samþykt frumv. mundi leiða, bæði fyrir landið alt og einstök hjeruð. Jeg álít það algjörlega óþarft, þegar launaðir eru tveir menn með dagpeningum, að hafa þá að auki einn mann til á föstum launum. Heppilegast álít jeg, og svo álíta þeir menn, er reynslu hafa, að engin lög sjeu um þetta efni. En vilji menn hafa nokkur lög, þá er jeg hlyntari heimildarlögum, þó ekki sams konar og Torfi í Ólafsdal ætlast til. Jeg hygg, að tillögur Sigurðar bónda á Selalæk í þessu efni, sem lesa má í dagblöðum og tímaritum, sjeu mikið skynsamlegri, og vil jeg ráða háttv. nefnd til þess, að afla sjer þeirra og taka þær til íhugunar. Jeg álít þær bæði kostnaðarminni og jafnframt tryggilegri, svo að tilganginum verði betur náð á þann hátt. Að því er nefndina snertir, þá virðist mjer þetta frumv. svo skylt frumv. um afnám forðagæslulaganna, að jeg tel sjálfsagt, að þau fari bæði í sömu nefnd.