06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

13. mál, harðindatrygging búfjár

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Mönnum gefur hjer á að líta tvö nál. frá þeirri vitru landbúnaðarnefnd. Jeg er ásamt háttv. þm. Borgf. (H. S.) í minni hluta, og þeir sem vilja, geta sjeð þar í ljóslega okkar skoðun. Nú er samþykt tillaga frá forðagæslunefndinni, þar sem skorað er á stjórnina, að semja og leggja fyrir næsta þing frv., þar sem farið sje eftir skýrustu óskum landsmanna, sem fram hafa komið. En þar sem hjá okkur og Torfa heitnum koma ljósast fram skoðanir manna og óskir í þessu, þá fer þetta í sömu átt, og jeg því vel felt mig við það. Við leggjum til, að þessu sje skotið undir Búnaðarfjelagið, sem svo semji álit um það og sendi stjórnin síðan frumv. með áliti Búnaðarfjelagains og nefndarálitum þingsins út um sveitir, til þess, að menn út um landið geti kynt sjer það. Síðan sje því komið til stjórnarinnar og frumvarpið svo síðan lagt fyrir næsta þing. Jeg tel 2. tölulið þingsályktunarinnar í fullu samræmi við álit Torfa í Ólafsdal og okkar. Jeg býst við því, að stjórnin sjái, að það, sem við höfum lagt til þessa máls, er hugsað af mesta viti og þekkingu. Jeg sá þess vegna ekki ástæðu til þess, að halda þessu máli lengra fram á þessu þingi, en fulltreysti stjórninni til þess, að fara eftir tillögu okkar og leggja það fyrir næsta þing.

Frumvarpið tekið aftur.