17.07.1915
Neðri deild: 9. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

15. mál, forðagæsla

Þorleifur Jónsson:

Þetta litla frumv. hefir mætt hjer töluverðri mótspyrnu, enda er við því að búast, því að sú skoðun hefir nú lengi ráðið á þingi, að í þessum efnum sje lagaaðhald hin mesta nauðsyn, án þess þó að nokkur vissa sje fengin fyrir því, hver vilji þjóðarinnar er um það, og án alls undirbúnings frá hennar hálfu.

Það er orðið ofarlega á baugi, að ekki þurfi annað en að gefa út lög, og þau eiga að lækna allar meinsemdir, bæði í atvinnumálum og öðru. En það mun sjaldan heppilegt, að grípa þannig fram fyrir hendur manna, einkum þar sem ekki er hægt að benda á, að öll þessi lög, horfellislögin, lög um skoðanir og forðagæslulögin, hafi komið að nokkru verulegu gagni. Árið 1914 varð fellir, og þá hafði þó slík löggjöf staðið um nokkra tugi ára, og hvaða þýðingu hefir hún þá, ef það er sýnt, að engin trygging er að henni gegn slíku?

Það mun ef til vill þykja nokkur dirfska, að koma fram með svo gagngjörða breytingu, sem frumv. fer fram á, en vjer flutningsmenn höfum þar við að styðjast bæði ýmsar þingmálafundagjörðir og svo ítarlegar greinar í blöðum, t. d. í »Suðurlandi«, þar sem ljóslega er sýnt fram á það, að þessi lög eru alveg ófullnægjandi og eiga ekki við, svo að jeg veit að skoðanir vorar eiga sjer allmikinn stuðning meðal landsmanna. Einkum hafa mönnum þótt vandkvæði á því, að eiga að fylla út þessi eyðublöð, eða skýrsluform. Þau eru æði margbrotin, og jeg hefi heyrt að sumum þyki þau erfið viðfangs, og svo fylgir þessu einnig nokkur kostnaður, en trú manna lítil á það, að gagnið sje nokkurt.

Alment myndu menn kunna betur við heimildarlög, til að gjöra samþyktir, og best þó við það, að málið væri betur rætt og borið undir sveitarstjórnir, en þingið setti ekki lög um það upp á sitt eindæmi.

Jeg hygg, að ekki sje mikið eftir af mótbárum háttv. þingm., sem talað hafa, sem háttv. flutningsm. (E. P.) hefir eigi þegar svarað. En þar sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) talaði um ásetningsfjelag í sinni sveit, þá sannar það einmitt, að það er ekki brýn þörf á svona lögum. Það fer best á því, ef menn gjöra slíkar ráðstafanir sjálfir; þá er málið komið á rjettan rekspöl.

Jeg vona að þetta frumv. verði ekki felt, heldur sett í nefnd, og jeg fyrir mitt leyti er með því, að sjerstök nefnd verði skipuð.