17.07.1915
Neðri deild: 9. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

16. mál, fræðsla barna

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Ástæðan til þess, að jeg hefi leyft mjer að bera fram þetta litla frumvarp, er sú, að fræðslulögin leyfa, að í stórum hreppum sje bæði skólahjerað og fræðsluhjerað í sama hreppi. En þar sem svo stendur á, að skólahjeraðið eða fræðsluhjeraðið nær að eins yfir part af hreppi, er svo fyrir mælt, að kostnaðinum við fræðsluna sje jafnað niður á gjaldendur í rjettri tiltölu við sveitarútsvar þeirra. Nú er það víðast svo, að þar sem kauptún er partur af hreppi, þá er það skólahjerað út af fyrir sig, en hinn hlutinn fræðsluhjerað. Af þessu leiðir misrjetti, vegna þess, að í kauptúnunum eru ríkari gjaldendur, og verða því ljettar úti en fátæklingarnir í fræðsluhjeraðinu. Þetta hefir vakið óánægju manna, sem vonlegt er, og hafa raddir heyrst um það, að fá þessu breytt.

Það er ekki langt síðan að jeg átti tal við fræðslumálastjórann um þetta efni. Hann taldi þessa breytingu heppilega. Raunar sagði hann, að í ráði væri, að fræðslulögunum yrði breytt talsvert mikið, en samt sem áður áleit hann ekkert athugavert, þó að þessi breyting væri gjörð strax.

Úr því að jeg fór fram á breytingar á fræðslulögunum á annað borð, þá vildi jeg láta aðra litla breytingu fljóta með þeirri, sem jeg hefi nú talið. Hún er sú, að fræðslu- og skólanefndum verði gjört að skyldu, að gjöra reikningsskil fyrir gjaldendunum. Jeg veit til þess, að víða hafa þær ekki talið sjer það skylt. Og á einum stað veit jeg til þess, að nefndin hefir ekki fengist til þess.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, að eins óska, að málinu verði vísað til 2. umr., og að í það verði sett 5 manna nefnd.