05.08.1915
Neðri deild: 25. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

78. mál, slysaábyrgðasjóður

Matthías Ólafsson:

Það voru að eins tvær spurningar, sem jeg vildi koma fram með, en nú hefir háttv. flutningsm. (B. S.) svarað annari þeirra.

Fyrri spurningin, sem þegar hefir verið svarað, var sú, hvort málið væri komið á nokkurn rekspöl, hvort sjóðstofnunin væri komin nokkuð á leið. Svo er ekki. Hefði jeg þó kunnað betur við, að sjóðurinn væri stofnaður, áður en farið væri að veita fje til hans. Raunar má segja, að hjer sje ekkert í hættu lagt, því að vitanlega verður fjeð ekki borgað út, nema sjóðurinn komist á fót. Þó er hægt að hugsa sjer, að hóa megi saman 500 mönnum til þess að taka á móti fjenu, og svo sje fjelagsskapurinn úti, Jeg segi ekki þetta fyrir það, að jeg telji mikla hættu á, að þannig fari; jeg tel að eins þessa aðferð, að veita fje til sjóðsins áður en hann er stofnaður, dálítið óviðkunnanlega.

Annað, sem jeg vildi spyrja um, var það, hvort þetta ætti eingöngu að vera slysaábyrgðarsjóður, eða hvort hann ætti líka að tryggja menn fyrir dauða. Það er að vísu alment talið slys, ef maður deyr af slysförum, en þó hygg jeg, að þetta geti orkað tvímælis, og væri því vel, ef nánar væri kveðið á um þetta.