05.08.1915
Neðri deild: 25. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

78. mál, slysaábyrgðasjóður

Flutningsm. (Benedikt Sveinsson):

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) beindi tveimur spurningum til mín viðvíkjandi þessum sjóði. Viðvíkjandi fyrri spurningunni, á hvaða rekspöl málið væri komið, þá tók jeg það fram, að það væri alls ekki komið á neinn rekspöl, enda ber frumv. það með sjer, að svo er ekki. Hjer er að eins farið fram á, að landsstjórninni veitist heimild til að verja 10 þús. kr. til slysaábyrgðarsjóðs, ef hann yrði stofnaður. Eins og jeg tók fram, er þetta gjört til þess, að hrinda málinu af stað, með því að ekki er sýnilegt, að hafist verði handa í þessu efni, nema hið opinbera ýti undir það, með því að heita fjárframlagi til fyrirtækisins.

Háttv. þingm. V.-Ísf. (M. Ó.) virtist hneykslast á því, að farið væri að veita fje til stofnunar, sem ekki væri til og engin beiðni væri komin fram um að stofna. En þetta er ekkert hneykslanlegt. Svona var um fjelag, sem háttv. þm. (M. Ó.) þekkir vel. Það var Fiskifjelag Íslands. Jeg var í nefnd hjer á þingi, sem lagði til, að fjelagið yrði stofnað. Það var þingið, sem skoraði á sjómenn, að stofna slíkt fjelag, og því var heitið styrk, ef það kæmist á laggirnar. Virðast menn hafa gott traust á því fjelagi, þó að það sje þannig til komið.

Ekki get jeg skilið, að menn verði svo lítilsigldir, eins og hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) ljet sjer koma til hugar, að þeir fari að hóa saman 500 mönnum, til þess að ná í einar 10 kr. í hlut, og stökkva síðan í sundur aftur. Það yrði lítil atvinna og skammvinn. Enda er styrkveitingin bundin því skilyrði, að stjórnarráðið hafi samþykt lög fjelagsins.

Viðvíkjandi seinni spurningunni, hvort í frv. væri jafnframt átt við lífsábyrgð, þá skal jeg geta þess, að svo er ekki. Frumv. á að eins við slysfarir, sem ekki leiða til bana, svo sem meiðsli, limlesting og þess konar.