18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

113. mál, skipun prestakalla

Flutningsm (Skúli Thoroddsen):

Frumv. þetta, sem jeg hefi leyft mjer að bera hjer fram, er samhljóða frumv., sem borið var fram hjer í deildinni á aukaþinginu í fyrra.

Frumv. fjekk þá þær undirtektir, að því var vísað til nefndar, ásamt fleiri samkynja málum, en nefndinni vanst ekki tími til að ljúka störfum sínum.

Jeg færði á aukaþinginu ítarleg rök að því, hvað knúð hefði kjósendur mína, sem hjer eiga hlut að máli, til að óska þeirrar breytingar á prestakallaskipuninni, sem hjer ræðir um, og læt mjer því nægja, að skírskota til þeirra ummæla minna, enda hefir það oft verið rakið fyrir háttv. deild, hversu mikla örðugleika Bolvíkingar eiga við að stríða, bæði að því er það snertir, að vitja prests sem og að leita til læknis.

Jeg leyfi mjer því að lokum að eins að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr., og að því verði vísað til nefndar, sem þegar hefir skipuð verið hjer í deildinni, og sams konar mál hefir til meðferðar.