04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Hákon Kristófersson :

Jeg á nokkurar breytingartillögur við þenna kafla og vil fara um þær nokkrum orðum. Það er þá fyrst á þgskj. 748; það fer lítið fyrir henni, og hún gengur út á að fjárveitingin til að láta afskrifa og ljósmynda skjöl í Ríkisskjalasafni Dana, verði greidd eftir reikningi, og greiðsla fari ekki fram úr fjárveitingunni. Þessi breytingartillaga er ekki yfirgripsmikil og sje jeg ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um hana.

2. breytingartillaga mín er við 49. brtt. háttv. fjárlaganefndar á þgskj. 687. Hún er um aðgjörð á Þingvöllum. Eftir ýmsar upplýsingar, sem jeg hefi fengið, leyfi jeg mjer að taka hana aftur.

Þá er önnur breytingartillaga við sömu grein, sem er prentuð á þgskj. 749. Hún er um „Sögufjelagið“ og er bara stafbreyting.

Þá er breytingartillagan á þgskj. 746, viðkomandi Leikfjelagi Reykjavíkur. Eftir nokkurar upplýsingar, sem jeg hefi fengið um fjelag þetta, leyfi jeg mjer að taka hana aftur. Þó vil jeg taka það fram, að sá styrkur, 500 kr., sem Fjelagið fær úr bæjarsjóði Reykjavíkur, er alt of lágur. (Steingr. Jónsson : Er varatillagan líka tekin aftur). Já. líka.

Þá er breytingartillaga á þgskj. 747. Þrátt fyrir það, þó jeg verði að álíta, að maður sá, er hjer á hlut að máli, sje góðs maklegur, og mörgum góðum hæfileikum búinn, tel jeg fjárveitingu þessa hlægilegan bitling, er jeg tel þinginu ekki vansalaust að láta af hendi, eins og stendur. Jeg legg því til að 30. liðurinn við 15. gr. falli burt, en sökum þess, að jeg tel mjög leiðinlegt, að verða að skýra frá öllu því, er fram hefir farið þessu máli viðkomandi, bæði utan þings og innan, vil jeg ekki fjölyrða meira um þennan lið.

Breytingartillagan á þgskj. 716 fer fram á að hækka styrkinn til Sighvats gamla úr 300 kr. upp í 400 kr. hvort árið. Hann er, eins og mönnum er kunnugt, gamall fræðimaður, er hefir ánægju af því að geta verið hjer á söfnum landsins og grafið sig niður í gömul skjöl o. fl., en til þess að hann geti staðið straum af þeim kostnaði, er af því leiðir, duga honum ekki 300 kr. Jeg treysti svo sanngirni þessarar háttv. deildar, að hún láti þessa breytingartillögu ná fram að ganga.

Breytingartillagan á þgskj. 717 er að eins orðabreyting. Í stað „Til Heimilisiðnaðarfélags Íslands“ komi: Til heimilisiðnaðar. Hún er vel. ljós og þarf ekki fleiri orðum um hana að fara.

Þá er breytingartillagan á þgskj. 718, við sömu grein, sem fer fram á, að við liðinn bætist, að fjelagið gefi landsstjórninni skýrslu um hvernig fjenu er varið. Eins og jeg tel rjett og sjálfsagt af því opinbera að styrkja Ungmennafjelögin, eins tel jeg líka rjett, að óska að fá skýrslu um, hvernig styrknum er varið. Að styrkja af opinberu fje, og fá svo enga vitneskju um, hvernig fjenu er varið, álít jeg að sje ekki eins og það á að vera.

Þá er viðaukatillagan á þgskj. 719, sem fer fram á, að inn í 16. gr. komið nýr liður um að veita alt að 1500 kr. til bátabryggju í Flatey, gegn því að 2/3 komi annarsstaðar frá. Eins og má ske nokkurir vita, er þannig háttað í Flatey, að ilt er að gera þar bryggjur, og standa þær ekki, nema vel sje frá þeim gengið, og þær cementeraðar. Eins og sakir standa eru vandræði að koma þar að bátum og stærri skipum, svo að eyjarbúar hafa fundið mjög til þessa. Fyrir nokkrum árum gjörði Þorvaldur Krabbe áætlun um, hve mikið bryggja mundi kosta, en jeg get ekki sagt að hvaða niðurstöðu hann komst, því sem stendur er hann ekki í bænum, svo jeg hefi ekki átt kost á að leita álits hans. Jeg vil geta þess, að það er ungmennafjelag Flateyjarhrepps, er eiga mun mestan þátt í, að farið er nú fyrir alvöru að hugsa um að koma máli þessu í framkvæmd, og er mjer kunnugt um, að fjelagið ætlar að leggja á sig allmikil fjárútlát í þessu skyni. Þar sem jeg treysti því, að háttv. deild líti svo á, að áhugi sá, er ungmennafjel. sýnir í þessu, sje mjög lofsverður, og einshitt, hve litið er um gagnlegar bryggjur í Flatey, þá treysti jeg því, að þessi tillaga mín verði samþykt. Þess vil jeg einnig geta, að tilætlunin er sú, ef byrjað verður á bryggju þessari, þá sje hún þannig, að auka megi við hana, þangað til hún að lokum væri svo stór, að stórskip gætu legið við hana. Viðaukatillagan á þgskj. 750 er við þessa tillögu á þgskj. 719, og þarf jeg ekki að fara neinum orðum um hana.

Þá er viðaukatillagan á þgskj. 720, sem fer í þá átt, að landsstjórninni veitist heimild til að veita Guðmundi E. Guðmundssyni, bryggjusmið úr Reykjavík, alt að 25000 kr. lán, til þess að starfrækja kolanámuna á Sjöundá í Barðastrandasýslu. Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, þá hefir sú mikla viðleitni, sem þessi maður hefir sýnt, leitt það í ljós, að ef ekki má gera fulla von um kol í þessum stað, þá er þó þar sá eldiviður, sem íbúar þessa lands gætu notað, ef hægt væri að ná í hann, og það er trygt, að ekki þyrfti að verða eldiviðarskortur, þótt aðflutningur á kolum teptist. Þótt ekki sje annað en þetta, er sjálfsagt af Alþingi að styrkja mann þenna, sem sýnt hefir í þessu máli svo mikla elju og dugnað, og eytt í það bæði tíma og fje. En eins og kunnugt er, hefir hann ekki verið svo heppinn, að hafa neinn fjárhagslegan gróða upp úr því. (GuðmBjörnson: Verður það aldrei !). Ja, háttv. 5. kgk. (G, B.) segir að hann verði það aldrei.Þrátt fyrir það, þó jeg beri mikla virðingu fyrir háttv. 5. kgk., verð jeg þó að halda að hann sje alls ekki óskeikull. Jeg verð líka að halda því fram, að ef ekki eru kol í Stálfjalli, þá er þar þó að minsta kosti eldiviður. Það er margra ára reynsla. Maður þessi hefir ekki haft ráð á að starfrækja þessa náma; hefir vantað til þess bæði fje og tilfæringar. Þar sem nú svo er til ætlast, að lán þetta sje trygt mað þeim byggingum og verkfærum, sem hlutaðeigandi setur þar upp, virðist ekki mikil hætta á ferðum með þetta fje. Og þótt svo færi, að eitthvað af þessu fje tapaðist, þá hefir þjóðfjelagið oft áður lagt fram fje til ýmislegs, sem ekki hefir verið þarflegra nje farið betur, og vona jeg að háttv. 5. kgk. sje kunnug ýms dæmi, er sanna það.

Jeg sje, að háttv. nefnd hefir lagt til, að veittar væru kr. 25000 til námurannsókna. Það er að vísu þarft, en það hjálpar ekki til þess að koma því fyrirtæki áleiðis, sem jeg hefi verið að tala um. Það þarf að rannsaka, hvort hjer megi eigi fá brúkleg kol, en reynslan hefir þegar sýnt, að hjer má fá mikinn og góðan eldivið. Jeg vil því vona að hv. deild hugsi sig vel um, áður en hún synjar um þetta fje; menn kynnu kann ske að álíta, að það bæri vott um, að Alþingi vildi ekki styrkja fyrirtæki, sem einstakir menn hafa hrundið af stað með miklum tilkostnaði og áhættu fyrir sjálfa sig. Og illa væri það farið, ef þessi maður yrði að snúa sjer til útlendra fjelaga, og væntanlegur gróði af fyrirtækinu lenti svo allur í þeirra höndum. Jeg vil því treysta því, að hv. deild taki brtt. mína til greina.