28.07.1915
Efri deild: 17. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

47. mál, atvinna við siglingar

Guðmundur Björnson :

Jeg vil að eins vekja athygli á, að orðalagið á brtt. nefndarinnar við 1. gr., um að formenn á bátum skuli fá vottorð læknis um að „sjón þeirra sje ekki sjerstaklega áfátt“ er afar óhentug, og vil jeg því ráða háttv. nefnd til að athuga þetta nánar. Jeg vil ekki blanda mjer inn í deilurnar um það, hvort þessir formenn þurfi að hafa eins góða sjón og skipstjórar á stærri skipum. En þetta orðalag, sem jeg mintist á, getur valdið miklum erfiðleikum fyrir lækna, þannig að þeir geta orðið í vafa um, hvort sjón manns er „sjerstaklega“ áfátt eða ekki. Þetta er svo óákveðið, að þeir geta ekki vitað hvað með því er meint, og því hætt við, að einn myndi telja það sjerstaklega ábótavant, sem annar teldi ekki. Jeg vil skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki mundi hægt, að stjórnarráðið í samráði við augnlækni semdi reglur um, hvað minst ætti að heimta af manni, til þess að geta orðið formaður á þeim skipum, sem hjer er um að. ræða, til þess að læknar viti við hvað þeir eiga að halda sig. Jeg vil taka til dæmis litblindu. Það getur verið, að allir læknar mundu telja sjón þess manns, sem litblindur er, „sjerstaklega“ áfátt, en litblinda getur verið á mjög mismunandi stigi. Þá vil jeg nefna annan galla, sem er afar algengur, nærsýni. Jeg veit ekki hvað nærsýnir menn þurfa að vera, til þess, að sjón þeirra sje „sjerstaklega“ áfátt. Jeg vona að háttv. nefnd sjái af því, sem jeg nú hefi bent á, að læknar verða að hafa einhverjar fastar reglur til þess að halda sjer við í þessu efni.