06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

55. mál, forðagæslumálið

Matthías Ólafsson:

Jeg hefi frá byrjun verið því mótfallinn, að afnema þessi forðagætslulög, því að jeg álít, að þau sjeu góð og misskilningur að menn sjeu eða þurfi að vera óánægðir með þau.

Jeg gæti sagt háttv. deild dæmisögu af því, hvernig því er varið með óánægjuna út af þessum lögum, sem alt af er verið að tala um, í einni sýslunefnd hjer á landi hafði síðastliðinn vetur verið samþykt að afnema lögin, eða sama sem afnema þau. En í vor á þingmálafundi bar sami maður, sem flutti þetta mál í sýslunefndinni, málið upp, en þá greiddi að eins einn maður, auk hans, atkvæði með því, að lögin yrði feld úr gildi. Sýnir þetta best á hve föstum fótum andmælin gegn lögunum standa. Mönnum sýndist bara fyrst vera vandkvæði á framkvæmd laganna, en því lengur sem þau eru reynd, því betur fella menn sig við þau.

Jeg er viss um, að því lengur sem lögin eru reynd, þess betri reynast þau. Og hvað kostnaðinn snertir, þá eru það sannarlega ekki svo margar skepnur í hverri sveit, sem lífinu þarf að halda, til þess að það borgi kostnaðinn. Jeg vil jafnvel segja, að kostnaðurinn sje of lítill, sem sje, að mennirnir fái oft of lítið kaup. Jeg býst við því, að ef þessu máli væri skotið undir þjóðina, þá myndi annar hver hreppur á landinu óska eftir heimildarlögum og sumir eftir afnámi laganna, svo að hver gæti hagað sjer eftir þessum óskapnaði, sem honum sýndist og farið með skepnur sínar eftir vild. Og hvernig í ósköpunum ætti sú stjórn að vera saman sett, sem gæti soðið saman allar þessar sundurleitu skoðanir. Til þess yrði hún að láta leita atkvæða út um alt land, til þess að sjá hve mörg atkvæði væru með nú gildandi lögum, hve mörg með heimildarlögum, og svo hve margir engin lög vildu hafa. Upp úr öllu þessu ætti hún svo að sjóða vinsæl lög. Hún mætti vera undarlegum hæfileikum gædd, sú stjórn, er þetta gæti færst í fang. Jeg hygg að það væri þá hreinlegra og betra að afnema alla forðagætslu en að hafa þennan óskapnað. Hvað mig sjálfan snertir, þá mun jeg greiða atkv. á móti því, að forðagætslan verði afnumin.