06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

85. mál, rannsókn á hafnarstöðum og lendingum

Framsögum. (Matth. Ólafsson):

Fyrir sjávarútvegsnefndina hafa verið lagðar gjörðir Fiskiþingsins, þar sem farið var fram á, að veitt væri fje til hafnargjörðar undir Jökli á næsta fjárhagstímabili, og fylgdu teikningar af fyrirhugaðri höfn. Þetta hefir nefndin ekki sjeð sjer fært að leggja til að svo stöddu; en hinu er hún eindregið með, að nú þegar verði gjörðar rannsóknir um hafnastæði, svo hægt sje með vissu að segja um, hvar tiltækilegast sje, að gjöra hafnir í framtíðinni og að fram kæmi kerfi um þetta, sem lægi fyrir þinginu, er fjárhagur yrði betri. Þetta hefir nefndinni verið ljóst, að þyrfti að gjöra, til þess að undirbúningur væri fyrir hendi, er til framkvæmda kæmi, alveg eins og með vegi og síma, því þá yrði kann ske auðveldara að gjöra fyrirtækin en annars.

Áætlanir hafa verið gjörðar um hafnir í Þorlákshöfn, Keflavík, á Sandi og í Súgandafirði. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að sinna þessu á þessu fjárhagstímabili, af því fjárhagurinn er örðugur, en hefir svo, sem áður er sagt, mælt með því, að rannsóknir yrðu hafnar, því að þær myndu ekki kosta mikið fje.

Í þingsályktunartillögunni er farið fram á, að stjórnin ráði vel færan mann til þessarra rannsókna. Með þessu er lögð áhersla á það, að maðurinn sje starfinu vaxinn og hafi sjerþekkingu í þessu efni, og geti því gefið ábyggilegar upplýsingar þar að lútandi. Verkfræðingar, sem fengist hafa við þetta, vanta alla sjerþekkingu á hafnargjörðum; en það liggur í augum uppi, að stór nauðsyn er á því, að sá maður, er við þetta fæst, sje starfinu vaxinn, svo að hægt sje að bera til hans fylsta traust. Þetta má þó ekki skilja sem vantraust til þeirra manna, er við þetta hafa fengist; en auðsætt er, ef að fengist maður, er unnið hefði áður að hafnargjörð og hefði sjerþekkingu í því efni, að þá yrðu allar áætlanir ábyggilegri, og þá yrði ekki ráðist í stórfyrirtæki, er færi að eins miklum mun og hingað til fram úr áætlunum.

Í tillögunni er sagt, að Nd. skori á landsstjórnina, að láta hafnaverkfróðan mann o. s. frv., en brtt. á þgskj. 205 fer fram á, að í stað orðanna: »Neðri deild Alþingið« komi: Alþingi.

Sjávarútvegsnefndin hefir ekki átt kost á að athuga breytingartillöguna á þgskj. 242, og er ekki á móti henni, því að í henni felst nákvæmlega það sama og í orðunum í enda þingsályktunartillögunnar. Þar kemur alt í sama stað niður.

Jeg vona að háttv. deildarmenn sjái, að sjávarútvegsnefndin hefir farið gætilega og ekki farið fram á harðar kröfur um fjárveitingar úr landssjóði. Því þetta er það minsta, sem hún hefir getað farið fram á.