13.08.1915
Neðri deild: 32. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

102. mál, Flóaáveitan

Framsögum. (Guðm. Hannesson):

Það hefði eflaust verið betra, að einhver annar en jeg hefði talað fyrir þessu máli, því að jeg er ekki kunnugur áveitusvæðinu, þótt lesið hafi jeg hið helsta af því, sem um áveitumálið hefir verið skrifað.

Tildrögin til þess, að það er nú hjer fram komið, eru þau, að landbúnaðarnefndinni þótti nauðsyn bera til þess, að áveitan yrði sem fyrst framkvæmd.

Án þess að jeg ætli að fara að rekja sögu þessa máls, þá er það stytst af að segja, að það hefir nú verið á dagskrá hjá þjóðinni um 30 ár. Hvað eftir annað hafa verið athugaðir möguleikarnir til þess, að koma því í framkvæmd, og síðast var fenginn útlendur verkfræðingur, til þess að gjöra á svæðinu rækilegar mælingar og áætlun um kostnað við verkið. Maður þessi var Thalbitzer verkfræðingur. Hann ferðaðist um áveitusvæðið 1906. — Síðastliðið sumar voru enn gjörðar rækilegar mælingar á svæðinu, til þess að ljúka mælingunum að fullu. Það er því ljóst, að frá verkfræðishliðinni er málið allvel undirbúið, og það sýnt, að fyrirtækið er vel kleift að því leyti til.

Það er að eins eitt atriði eftir, sem ekki er nægilega athugað, og það er vatnshæðin í ánni, sem á að taka vatnið úr, en mjer er svo skýrt frá, að þeim rannsóknum verði að fullu lokið eftir eitt ár, og að þær verði þá að öllu ábyggilegar.

Þegar nú er litið á það, hvað fyrirtækið muni kosta, þá velta þær áætlanir á 600–800 þús. kr., eftir því, hve mikið er tekið með í reikninginn af smærri görðum og skurðum. Þetta er mikið fje, og auðsætt að taka þarf lán, ef á að ráðast í fyrirtækið, og þess vegna ríður á, að hafa gjört sjer sem besta grein fyrir því áður, hvort fyrirtækið muni reynast arðsamt og borga sig eða ekki. Um það hefi jeg fyrir mitt leyti ekki á öðru að byggja en því, sem skrifað hefir verið um málið, og svo upplýsingum kunnugra manna, sem jeg hefi átt tal við. Allir hafa þeir verið á einu máli um það, að fyrirtækið myndi mjög arðvænt. Svæðið er stórt, litlu minna en öll tún landsins til samans, eða 3 ? mílur, og ef áveitan hepnaðist vel, þá ætti það ekki að gefa öllu minna af sjer en öll túnin. Þegar athugaður er kostnaðurinn, sem koma myndi á hverja dagsláttu, þá er hann áætlaður 20–26 kr. Það er auðsjeð af þessu, að ef treysta má því, að áveitan komi að tilætluðum notum, þá væri þetta hreinasta gjafverð, og margfalt ódýrara en að sljetta og rækta tún.

Við vitum allir, að það er ekki ofhátt reiknað, að sljettunin ein kosti 150 kr. á dagsláttuna, þótt ekki sje talinn með áburður. Ef það tækist, að gjöra þetta flæmi alt að vel frjósömu landi, þá væri hjer því tvímælalaust um að ræða hina langstærstu framför, sem nokkurn tíma hefir orðið í sveitabúskap landsins.

Mjer hefir nú virst svo, að þegar um svona stórfenglegt fyrirtæki er að ræða, og þar sem það er vitanlegt, að vatnsveitur mishepnast oft og einatt, þá gæti verið hyggilegra að byrja á nokkrum hluta áveitulandsins, og reyna það, áður en lagt væri út í þessa áveitu á öllu svæðinu. Þetta var og tilætlunin, þegar veitt var á Miklavatnsmýri, en því miður mishepnaðist sú tilraun. Vatnið varð oflítið og áveitan því sama sem einskis virði. En þótt nú svo færi í það sinn, þá virðist mjer samt ekki ástæða til að efa það, að fyrirtækið, muni hepnast. Náttúran hefir sjálf gjört fyrir okkur aðra merkilega tilraun, sem hefir hepnast vel um langan aldur, sem sje í Safamýri, og þótt enginn hafi verið til að stjórna vatninu þar, og það verið óhæfilega mikið, þá hefir það þó sýnt sig um langan aldur, að grassprettan í mýrinni hefir verið ágæt og heyið töðuígildi.

Jeg tel lítil líkindi til þess, að Flóaáveitan myndi reynast á alt annan veg. Að því er jeg get sjeð, eru þau lítil sem engin, ef verkfræðingarnir ganga svo frá þessu mannvirki, að hægt væri að hafa fulla stjórn á bæði á- og afveitum.

En þótt mikið sje nú búið að gjöra til undirbúnings þessu máli, þá getur þó ekki stjórn og þing undið að framkvæmdum á því, fyrr en lokið er þeim undirbúningi, sem nefndur er í till., er nú stendur hjer á dagskránni, og einkum tekur til nauðsynlegra samninga við eigendur landsins og annara ráðstafana um það, hvernig með landið sjálft skuli farið eftir á. Nefndin hefir talið það sjálfsagt, að hagnaðurinn við áveituna rynni ekki allur í vasa landeigendanna í Flóanum, heldur fengi landið sinn kostnað endurgoldinn á einhvern hátt í landi á áveitusvæðinu, sem láta mætti af hendi með sanngjörnu verði til manna, sem ekkert jarðnæði fá nú, en vilja gjörast bændur í sveit. Samkomulag um þessi atriði er sjálfsagt skilyrði fyrir því, að landið leggi svo mikið í sölurnar fyrir þetta mannvirki. Ef landeigendum væri veitt lán, til þess að gjöra áveituna fyrir sinn reikning, gætu þeir að vísu orðið auðugir á því, ef alt tækist vel, en öðrum myndu þeir ekki selja land, nema fyrir svo hátt verð, að lítt yrði bætt úr landþrengslum og jarðnæðisleysi á þann hátt.

Jeg vona svo, að þessi þingsályktunartillaga verði samþykt, ekki eingöngu vegna Flóaáveitunnar, heldur vegna þess, að málið skiftir alt landið, eða mörg hjeruð þess. Ef þessi áveita tekst vel, koma aðrar sveitir á eftir, sem vel eru til áveitu fallnar, og mætti þetta leiða til svo mikilla framfara í ræktun landsins, að engin sjeu dæmi til frá landnámstíð. Þó að túnræktin, sem vjer höfum mest sint að þessu, sje ágæt og sjálfsagt að halda áfram með hana, þá er hún ekki jafn fljóttekinn gróði og áveitur, þar sem þær hepnast vel. Ef fyrirtæki þetta kemst í framkvæmd og hepnin er með, þá rennur upp ný öld í sveitabúskap vorum, með stórstígari framförum en dæmi eru til.