09.08.1915
Neðri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

94. mál, vegalög

Sveinn Björnsson:

Þetta er án efa mikils vert mál, og skal jeg ekki að svo stöddu fara mikið út í ástæður háttv. flutningsmanns fyrir tillögunni, en að eins taka það fram, að úr því að fram er komin tillaga um endurskoðun á vegalögunum og breytingar á ákvæðum þeirra, um viðhald flutningabrauta o. s. frv., þá hefði um leið verið rjett að athuga, hvort ekki væri ástæða til að breyta til um vegagjörðaraðferðina, sem hingað til hefir tíðkast, um suma vegina að minsta kosti. Það hefir sýnt sig, að viðhald veganna hefir orðið afardýrt, þar sem flutningamagn er nokkuð að mun. Svo dýrt, að það hefir kostað sama sem nýjan veg á fáum árum. Og þetta mál, sem hefir svo mikla fjárhagslega þýðingu, að ekki má dragast, að það verði athugað, og jeg hygg að þetta, hve þungbært viðhaldið verður, eigi rót sína í því, hve vegirnir eru í fyrstu — ja, illa gjörðir þykir nú líklega of mikið sagt, en ófullkomnir skulum við segja.

Ef jeg hefði athugað þetta nógu snemma, þá hefði jeg komið fram með brtt. við þessa þingsál.till. (Sigurður Sigurðsson: Það má taka hana út af dagskrá í þetta sinn). Já, það var einmitt það, sem jeg vildi spyrja um, hvort mönnum þætti það ekki rjett. Og enn fremur vildi jeg skjóta því að þeim, hvort ekki væri ástæða til þess, þegar um svo mikið mál er að ræða, að till. komi fram frá öllu þinginu, en ekki bara annari deildinni.