27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

94. mál, vegalög

Framsögum (Bjarni Jónsson):

Jeg býst við, að þessu máli verði vel tekið og ekki þurfi að lengja umræður um það.

Jeg skal benda á, að í nefndarálitinu á þgskj. 335 hefir nefndin í örstuttum dráttum sýnt fram á, hvaða leiðir væru helst farandi um viðhald á vegum. En hún var sammála um það, að svo mikil breyting hefði á orðið, síðan lögin um vegi voru gefin út, að nauðsyn bæri til að endurskoða þau. Síðan hafa komið þrjár athuganir til greina, er standa á þgskj. 335 og jeg þarf ekki að fara út í þær, því að jeg býst við, að menn hafi lesið þær.

Annar liður tillögunnar þótti nefndinni sjálfsagt að kæmi fram, því að sýslur verða að gjalda eitthvað til vegagjörða og vegaviðhalds, og þarf því að leita þeim að tekjustofni, og því er vert að athuga, hvort ekki sje hægt að koma því í betra horf. Þetta teljum við, að stjórnin geti gjört, þar sem hún hefir starfskröftum á að skipa, er telja má hæfa til þessa.

Seinna bætti nefndin við þriðja atriðinu, er 1. þm. Rvk. (S. B.) hafði áhuga á, — honum og öðrum manni til var bætt í nefndina —, að taka til íhugunar, hvort ekki beri að athuga vegagjörðirnar í heild sinni og bera þær saman við vegagjörðir, er nú tíðkast og best eru gjörðar, og athuga haldgæði þeirra.

Mönnum er kunnugt, að flutningabrautir og vegir út um land eru oft svo lasburða á vorin, að vagnar sökkva í á þeim og sitja jafnvel alveg fastir. Til viðhalds slíkra vega þykir nefndinni margur skildingurinn fara. Sýnist henni því tryggara, að gjörður sje styttri vegkafli á ári, en betur vandað til þess, sem gjört er, svo að þeir reynist haldbetri. Það er heldur ekki annað sjáanlegt, en farið verði að nota bifreiðar á þessum flutningabrautum, en þær eru þyngri í spori, svo að gjöra þarf vegina enn traustari, ef þær fara að ryðja sjer til rúms. En það hyggjum við helst verði með því, að fylt verði með grjóti niður fyrir alt klakahlaup; þá myndu vegirnir verða traustari og haldbetri.

Nefndinni þykir þetta mikið nauðsynjamál, og leggur til að 3. liður verði samþyktur. Stjórnin gæti látið athuga hversu mikið þetta kostaði, borið saman dýrleika þeirra vega, sem nú eru, og vega með þessu fyrirkomulagi, og að því loknu gæti þingið fengið heildaryfirlit yfir alt þetta og þá ákvarðað, hvað gjöra skuli.

Jeg skal ekki spá neinu um það, hvað ofan á verður, en jeg er fyrir mitt leyti sannfærður um, að það, sem dýrara er, borgi sig betur. Hjer er að eins um það að ræða, að verkfræðingur landsins gjöri mismunandi áætlanir með tilliti bæði til haldgæða vegarins og dýrleika.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en bið háttv. deild að samþykkja till. á þgskj. 228 með brtt. á þgskj. 332, sem jeg hefi nú mælt með.