27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

94. mál, vegalög

Guðmundur Hannesson:

Jeg álít tillögur nefndarinnar til bóta og mun hiklaust greiða þeim atkvæði mitt. En jafnframt freistast jeg til að minnast lítið eitt á eitt mál í þessu sambandi.

Allir þekkja hversu vegalögin skifta vegum vorum í flutningabrautir, þjóðvegi, sýsluvegi o. s. frv. Þess gjörist þörf að gjöra alla vegi vora að samhangandi og óslitinni heild yfir alt landið, koma þeim í eitthvert kerfi, enda hefir það nú verið reynt að nokkru leyti. En þessi skifting, í flutningabrautir, þjóðvegi o. s. frv., er á veikum grundvelli reist. Hvað gjörð og viðhald vega munar stórum í hverjum flokki vegurinn er talinn, en úr því verður allajafna mesta ranglæti. Það munar minstu, hvort þessi og þessi vegur er póstvegur eða aukapóstvegur, og getur verið örðugt að gjöra þar upp á milli, og verða þá oft þeir vegirnir framarlega, sem síður skyldi. Fyrsta sporið til þess að laga þetta, er að fá fasta áætlun um alt vegakerfi landsins. En landssjóðsstyrkur til vegalagninga ætti að miða við þjettbýli sveitanna, annars vegar, en hins vegar við, hve dýrt er að leggja veginn. Undanfarið hafa ríkustu og þjettbýlustu sveitirnar fengið vegi sína gefins (flutningabrautir) og jafnvel viðhald þeirra til skamms tíma, en strjálbygðar, fátækar sveitir hafa að eins fengið nokkurn styrk, eða jafnvel orðið að leggja vegi sína styrklaust. Að sjálfsögðu er hjer farið öfugt að, þvert á móti heilbrigðri skynsemi og allri sanngirni. Landssjóðsstyrkurinn ætti að vera minstur í þjettbýlustu hjeruðunum, en vaxa eftir því, sem strjálbygðara er, eða vegagjörðin er dýrari, ef þar er um nauðsynlegan veg að ræða, sem tekinn er upp í áætlunina um vegakerfi landsins. Yfir óbygðir og fjallvegi ætti landssjóður að kosta bæði lagningu vega og viðhald algjörlega, en hvergi annarsstaðar, svo langt sem sjálft vegakerfi landsins nær.

Þetta snertir nú að vísu ekki tillögu nefndarinnar eða þingsályktunartillöguna, en jeg minnist á það hjer, úr því að það er meiningin, að stjórnin taki málið til athugunar.