27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

94. mál, vegalög

Einar Jónsson:

Jeg ætlaði ekki að blanda mjer í þessar umræður, en gjöri það þó, vegna þess landshluta, sem jeg hefi orðið svo heppinn að búa í síðan jeg fæddist. Jeg held að þetta sje hyggileg tillaga, sem hjer liggur fyrir, því að eins og nú er varið viðhaldi veganna, þá eru flestir óánægðir með vegalögin. Væri jeg nú kaupstaðarbúi, myndi jeg líklega halda því fram, að hjeruðin ættu að halda vegum sínum við; en nú er jeg svo kunnugur í sveitunum, að jeg veit það, sem ýmsir háttv. þm. virðast ekki vita, og það er það, hve mismunandi ástandið er í ýmsum hjeruðum landsins, og að þess vegna er ekki rjettlátt, að brúka alstaðar sama mælikvarðann. Þau hjeruðin, sem ekki hafa svo sem neitt gagn af gufuskipaferðunum kring um landið, eiga svo ólíkt meira tilkall til vegagjörðastyrks en hin. En út í það skal jeg nú ekki fara mikið að þessu sinni, heldur halda mjer við hitt, að vert er að fara eftir þessari tillögu, og fá vegalögin endurskoðuð. Jeg býst nú við, að það væri sanngjarnast, að landið sjálft tæki sem mest að sjer viðhald allra vega, því að þótt erfitt yrði að gjöra svo öllum líki, myndi þó þá verða gjört sjer far um að láta alt koma sem rjettlátlegast niður, og hugsað um hvað best hagar í hverju einstöku tilfelli, og þá mundu vegamálin komast í betra horf en þau eru nú í.

Jeg veit nú ekki hvort jeg myndi bæta mikið fyrir málinu með því, að fara að halda langa ræðu, þótt jeg gæti það. Jeg sje ekki ástæðu til að vera að fara út í nál., en hins vegar sje jeg mikla ástæðu til þess, að athuga málið betur, því að um það vantar enn miklar upplýsingar.