25.08.1915
Efri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

47. mál, atvinna við siglingar

Framsm. (Karl Einarsson) :

Háttv. Nd. hefir gjört dálitlar breytingar á frv., frá því sem það var hjer. Sumar þeirra eru til bóta, eins og tekið er fram í nefndarálitinu; þær gjöra lögin aðgengilegri, og eftir því er hægara að sjá, hvað útheimtist, til þess að fá þessa stöðu. Slæðst hafa inn í það nokkrar gáleysisvillur og prentvillur, sem nefndin hefir leyft sjer að leiðrjetta. Nokkrar efnisbreytingar hafa verið gjörðar, sem nefndin fellir sig við, t. d. að felt er úr ákvæðið um innborinna manna rjett, til þess að verða skipstjórar á þilskipum og öðrum stærri skipum. Þetta ákvæði komst inn í siglingalögin 1905, víst af vangá, og er óþarft.

Aðra efnisbreytingu hefir háttv. Nd. gjört við 19. gr., og það er, að ekki er krafist vottorðs um sjón þeirra manna, sem nú eru formenn á mótorbátum. Nefndin var ekki ánægð með þetta, en vill þó ekki gjöra þetta að kappsmáli og leggur því til, að það sje samþykt.

Aftur á móti vill nefndin ekki láta lögin ná til mótorbáta, sem eru minni en 6 smálestir. Jeg hygg ekki marga mótorbáta minni en 6 smálestir.

Svo er það eitt orð, þar sem borið hefir á milli. Nefndin er á einu máli um, að smálest sje ekki heppilegt orð ; tonn er betra, þegar ræða er um stærð. Hjer er meint rúmmál, ekki þyngd. Smálest táknar venjulega annað, nefnilega 2000 pund. Nefndin hafði gengið svo frá frumvarpinu að nota orðið lest; nú leggur hún til að það sje nefnt tonn, til þess að ekki skuli verða ágreiningur, því að háttv. Nd. þótt orðið „lest“ ekki nógu greinilegt. Nú hefir komið fram brtt, á þgskj. 519 frá minni hluta nefndarinnar, um að nota alstaðar orðið „lest“ en hafa „tonn“ í svigum þar sem það kemur fyrir í fyrsta sinni. Jeg ætla háttv. deild að skera úr þessu og vona að hún verði með meirihluta nefndarinnar.

Jeg held að ekki sje fleira um þetta að segja. Jeg vona að háttv. deild samþykki frumv. með þeim breytingum sem nefndin hefir gjört.