30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

121. mál, þegnskylduvinna

Framsm. minni hl. (Matthías Ólafsson):

Þetta mál er borið fram af flutningsmönnum þess af einlægri sannfæringu um, að það kæmi þessari þjóð að ómetanlegu gagni, ef þegnskylduvinna kæmist hjer á.

Það er svo margt ógjört hjer á landi, er landssjóður hefir ekki kraft til að láta framkvæma, en landið eða þjóðin hefir það afl, er til þess þarf, ef viljinn væri góður. Og því fljótara miðaði þessari þjóð á framfarabrautinni, því fyr, sem þetta kæmist í kring.

Eins og kunnugt er, var skipuð nefnd til þess að íhuga þetta mál, en það hefir farið með þessa nefnd eins og svo margar aðrar hjer á þingi, að hún hefir ekki getað unnið saman, því að 3 af 5 mönnum í nefndinni hafa ekkert viljað skifta sjer af málinu. Þeir telja það ekkert annað en fallega hugsjón, en annars óframkvæmanlega.

Það hefir því sína sögu hver að segja.

Nefndarálit minni hlutans á þgskj. 517 hefi jeg orðað, en samnefndarmaður minn og samherji hefir skrifað undir nefndarálitið, og er samþykkur niðurstöðunni. Hann hefir því ekki viljað ábyrgjast orðalagið, enda hefir háttv. framsögumaður meiri hlutans (B. J.) beinst sjerstaklega að höfundi nefndarálitsins.

Í nefndaráliti meiri hlutans er því haldið fram, að með þegnskylduvinnunni væri lagður skattur á þjóðina, og hann svo þungur, að hann vægi meira en allir núverandi tollar samtals.

Jeg hefi í nefndaráliti mínu haldið því fram, að með því að hver maður á árunum frá 17–25 ára aldurs inni 12 vikna tíma, þá yrði árangurinn sá, að það kæmi vinnubrögðunum í landinu í miklu betra horf, og ungir menn myndu afkasta miklu á þeim tíma til þarfa fyrir land og lýð.

Í öðru lagi hefi jeg haldið því fram, að sjerstaklega væri þörf á því, að kenna Íslendingum hlýðni. Því að það er þjóðinni ógreiði, að skjalla hana og segja, að hún sje hlýðin. Því vinur er sá, er til vamms segir. Það væri gott, ef við gætum sagt með sanni, að þjóðin væri hlýðin og stundvís, en reyndin er ólygnust, og hún færir manni heim sanninn um það, að oss Íslendingum sje í fáu eins áfátt.

En í stað óhlýðninnar og hirðuleysisins, óverklægninnar og fjelagsleysisins, mynda hlýðni og hirðusemi, verklægni og fjelagslyndi dafna með þessari þjóð, og verða henni holt fararnesti á þeirri framfarabraut, er við vonum og vitum, að hún getur átt fyrir höndum.

Þá er eitt, sem þegnskylduvinnunni hefir verið fundið til foráttu, en það er það, að hún sje svo áþekk herskyldunni, er þjóðunum stafi svo mikið böl af. Það er víst, að af hernaði leiðir mikið böl, og hann færir mönnum bæði sorgir og tjón. En þó viðurkenna menn, að af herskyldunni leiði mikla menning; þetta veiti menningaratraumum inn í þau lönd, þar sem herskylda er.

En við þurfum ekki að verja landið okkar fyrir öðrum þjóðum, en við höfum að berjast við erfiða náttúru og margra alda vanrækt á þessu landi. Þetta má bæta, og til þess viljum við innleiða nokkurs konar hervarnarskyldu.

Með leyfi háttv. forseta, skal jeg lesa upp kafla úr ræðu, er Ágúst Bjarnason, núverandi prófessor, hjelt í Kaupmannahöfn, er fyrst heyrðist um þegnskylduhugmyndina. Honum fórust svo orð:

»Jeg man kvöld eitt í Zürick, einmitt þegar fyrstu frjettirnar voru að koma að heiman um þegnskylduvinnuna. Jeg var gestur hjá þýskum háskólakennara, er hafði orðið að flýja föðurland sitt, af því hann hafði orðið nokkuð djarfmæltur í garð Þýskalandskeisara, en hefir reynst ágætur ungmennaleiðtogi og er nú einn af forkólfum í alþjóðahreyfing þeirri, sem er að ryðja sjer til rúms um öll lönd og nefnist »hin siðferðilega uppeldishreyfing«. Hann fór að spyrja mig spjörunum úr, um hvernig uppeldinu væri varið hjá oss, og hafði jeg fátt og lítið af því að segja. En jeg man, að jeg gat um þegnskylduvinnuna og varð að lýsa hugmyndinni ítarlega fyrir honum. Loks sagði hann: Já, er það ekki eins og jeg hefi ávalt sagt, að það ætli að verða markmið smáþjóðanna að kenna oss stórþjóðunum og sýna oss verðmæti þess, er oss hefir aldrei til hugar komið. Nú erum vjer að baksa með þessa hervarnarskyldu og hervæðumst eins og vjer getum, til þess að myrða hvorir aðra og leggja löndin í auðn. Og svo kemur einhver minsta þjóðin og kennir oss hvernig vjer eigum að bæta og yrkja upp löndin og kenna mönnum að vinna, en jafnframt að stjórna og hlýða, og annað það, er lærist með hervarnarskyldunni. Er það eigi stórmerkilegt? En jeg þagði og skammaðist mín með sjálfum mjer, því að jeg vissi, hve langt í land hugmyndin myndi eiga hjá oss«.

Það er miklu lengri kafli um þetta, þar sem þessi maður dáir þetta, og það er hægt að finna fleiri dæmi. Sjálfur hefi jeg talað við merka menn erlenda um þetta mál, og þeir hafa talið þetta ágætt.

Eitt það tormerki, sem talið er á þessari hugmynd, er það, að ekki fengjust nógu góðir verkstjórar. En jeg er hissa á því, að þeir menn, er miklast af þessarri þjóð, skulu halda þessu fram.

Jeg er í engum efa um það, að hjer á landi má koma upp vel æfðum her, ekki til baráttu og blóðsúthellinga, heldur til friðsamlegra starfa, til að græða upp þetta vanrækta land og koma því ótalmarga í verk, sem löngu hefði átt að vera unnið.

Þeir sem hafa trú á því, að þjóð vor sje fyrirmyndar þjóð, ættu síst að efast um, að vjer gætum eignast sæmilega forgöngumenn eða verkstjóra, ef vjer kostuðum nokkru til að afla þeim þekkingar.

Það væri greiði fyrir þessa þjóð, að hver maður væri skyldaður til þess, að vinna ókeypis fyrir heill og þroska þjóðarinnar. En þó hefir meiri hlutinn ekki viljað fara þá leið, heldur að það væri bygt á frjálsum vilja. Þess vegna viljum við að málinu sje skotið til þjóðarinnar, svo að liðið yrði sjálfboðalið, eða sem næst því, að vera sjálfboðalið. Okkur datt fyrst í hug, að þetta væri borið undir þá menn eina, er væru á þeim aldri, er vinnuna eiga að leysa af hendi. En við hurfum frá því, og álitum rjettara, að bera þetta undir kosningarbæra menn, bæði vegna þess, að margir þeirra manna, er í nánustu framtíð myndu leysa þegnskylduvinnuna af hendi, eru nú of ungir til að skera úr þessu, og svo af hinu, að í raun og veru eru það kjósendur, er sjá verða af vinnunni.

Þá er það eitt, sem háttv. meiri hl. hefir gjört mikið úr, sem sje hve mikill skattur væri lagður á heimilin með þessari þegnskyldukvöð. Ekki þekki jeg dæmi til þess, jafnvel í þeim löndum, þar sem er þriggja ára hervarnarskylda, að nokkur fjölskylda hafi farið á höfuðið eða komist á vonarvöl vegna þeirrar kvaðar. Og er hjer þó ólíku saman að jafna. Vjer erum lausir við alt það böl, sem hernaðinum fylgir. Og þessi stutti tími, sem mönnum er ætlað að vinna í þjónustu fósturjarðarinnar margborgar sig fyrir þá, með því að starfið mun gjöra þá að nýtari mönnum en áður. En ef tíminn skyldi ekki vera nógu langur, þá er ekki annað en lengja hann. Það geta komið þeir tímar, að ekki verður unt að fá fólk til opinberrar vinnu hjer á landi, þótt peningar sjeu í boði, enda hefir það komið fyrir. Hjer á landi er mikið að starfa, og nýir atvinnuvegir að rísa upp og í blómgun, svo að hætt er við fólksskorti. Það eru þá ekki önnur ráð fyrir hendi en þetta, eða þá að safna hingað útlendum tartaralýð, sem háttv. framsm. meiri hl. (B. J.) heldur ef til vill að reynast muni betur en ungir menn hjerlendir.

Þá sný jeg mjer að áliti háttv. meiri hl. Maður skyldi halda, af því að þetta skjal er nefnt álit, að þar væri einhverjar röksemdir að finna, en jeg verð að játa ófundvísi mína í þessu efni, og vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp þetta nefndarálit, með því líka, að mönnum mun ekki vera orðið það kunnugt enn, af því að því var útbýtt rjett áðan. Og leyfi jeg mjer að hnýta athugasemdum mínum við. Þar segir þá svo:

»Vjer munum, ekki deila um menn við höfund þgskj. 517, hvorki um víðsýni þeirra nje aðrar eigindir.

Þótt vafalaust mætti segja sögu þessa máls betur en hann gjörir, látum vjer oss hana litlu skifta. Þó verður að leiðrjetta þenna misskilning, að þegnskylda sje ný hugsjón. Hitt er á að líta, hvort þegnskylduvinnan muni hafa þá kosti, er hann segir. Til gleggra yfirlits skulu hjer talin og tind þau atriði, sem höf. telur þessu máli til gildis, og jafnframt sýnt, að barnsleg oftrú villir honum sýn og vekur honum staðlausar vonir.

1. Hlýðni og stundvísi. Væri það satt, að Íslendingar væri óhlýðnir, þá yrði það sannarlega illur skóli, að hrúga saman fjölda ungra manna úr öllum stjettum og stöðum. Þeir yrðu að vera meira en nafnið tómt, þessir verkstjórar, ef þeir ættu að megna að kenna þeim hóp hlýðni og stundvísi, enda mundi afleiðingin að öllum jafnaði verða öfug við von höfundarins.

2. Háttprýði og þrifnaður. Hugsum oss, að nokkur hundruð ungir menn og konur sjeu saman komin til þess að gjöra járnbraut. Þessi lýður verður auðvitað að liggja við í tjöldum, enda var það í fyrstu talið þegnskylduvinnunni til gildis, að embættismanna- og bændasynir yrðu kasaðir saman í tjöldum. Og nú ætlar minni hlutinn að kenna þarna háttprýði og þrifnað.

Vjer munum eigi þrátta um þetta, því að flestum mun ljóst, að hjer, er um öfugmæli að ræða. Með þessum hætti yrði mönnum eigi kent þetta, nema þar væri að verki þaulmentaðir afburðamenn. Mundu þeir menn vandfundnir, og ef þeir fyndist, mundi mentun þeirra kosta margfalt meira en Alþingi er vant að láta af hendi rakna til þeirra hluta.

3. Verklagni telur minni hlutinn erfiðast að kenna, og fer það að vonum, því að hún er hið eina, sem mætti kenna að einhverju leyti.

4. Þá er sú ein von minni hlutans, að hann geti sparað landssjóði mikið fje með þessari þegnskylduvinnu, og sjeð um, að eigi þurfi að leggja skatta á þjóðina, til þess að gjöra hafnir, brýr, vegi og járnbrautir. Þótt svo vel væri, að þegnskyldulýður yrði notaður til þessara starfa, þá væri þó með því lagður tvöfaldur skattur á þjóðina:

a. Vinnumissir á heimilum og kaupmissir einstaklinga. Yrði sá skattur einn miklu þyngri en allir núverandi tollar samtals.

b. Óbeinn skattur yrði það, að viðvaningar ætti að framkvæma þessi verk, og eyddist því hálfu meiri vinnukraftur en nauðsyn ber til.

5. Fyrirætlanir minni hlutans, að sá löstum og uppskera dygðir, eru fallegar. En hver trúir á barnaskapinn?

Þrátt fyrir góðan vilja flutningsmannanna, teljum vjer þetta mál alt svo vanhugsað og óframkvæmandi, að vjer ráðum deildinni til að fella tillöguna«.

Af þessu skjali meiri hl., sem nefnist »álit«, má nú sjá, að háttv. meiri hl. hefir ekki treyst sjer að færa nein rök gegn þegnskyldunni. »Álitið« er ekkert annað en fullyrðingar, fjarstæður og útúrsnúningur, mestmegnis óviðkomandi málinu.

Minni hlutinn hefir eigi haldið því fram, að þegnskylda væri ný hugsjón, svo þar var engan misskilning að leiðrjetta. Vitanlega er þessi hugsjón því nær jafngömul þjóðfjelagsskipuninni, í ýmsum myndum. Hjá oss er hún þó tiltölulega ung.

Meiri hlutinn vill neita því, að oss Íslendingum sje áfátt í ýmsu því, er við minni hluta menn teljum þurfa að ráða bót á, svo sem óstundvísi og agaleysi. Um þetta er þýðingarlaust að þrefa. Þetta er svo ljóst og á hvers manns vitorði, og þjóðinni er enginn greiði gjörður með því, að segja henni ekki til þess, sem henni er áttfátt í, því »vinur er sá, er til vamms segir«. En vera má, að það sje betur fallið til lýðfylgis, að skjalla fjöldann, en hitt, að segja honum beiskan sannleika. Meiri hlutinn hefir valið fyrri leiðina, en jeg ætla ekki að eiga samleið með honum á þeim vegi.

Í álitinu er verið að dylgja um það, hve hollur skóli það muni verða, að hrúga saman miklum fjölda karla og kvenna í tjöldum og kenna þeim þar, meðal annars, háttprýði og þrifnað.

Annaðhvort stafar þetta af venjulegri fljótfærni höfundar álitsins, sem allir vita að er háttv. þm. Dal. (B. J.), eða það stafar af öðru, sem naumast er hægt að nefna rjettu nafni, svo að þinglegt verði talið. Tillagan gjörir sem sje ekki ráð fyrir, að konur sjeu teknar til þegnskylduvinnu. En hvað ætti að vera því til fyrirstöðu, að menn, sem lægju í tjöldum, gætu lært háttprýði og þrifnað.

Í álitinu er sagt, að verkstjórarnir þyrftu að vera meira en nafnið tómt, ef þeir ættu að kenna þessum mikla hóp hlýðni og stundvísi.

Ef Íslendingum er svo mjög lítið áfátt í þessum efnum, þá ætti og að vera tiltölulega ljett, að leiðbeina þeim fáu, sem ábótavant væri. En jeg kannast við það, að þeir þurfa og eiga að verða mikið meira en nafnið tómt.

Vjer Íslendingar höfum að vísu verið svo óhepnir, að hjá oss hafa menn verið skipaðir í stöður, sem aldrei hafa orðið annað en nafnið tómt. En vonandi er, að vjer höfum af því lært, að slíkt er þjóðarböl, sem ekki má koma oftar fyrir.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) spyr, hvort jeg meini þetta til sín. Jeg nefndi engan í þessu sambandi; þess var ekki þörf. En ef hann fann mark sitt á því, sem jeg sagði um »nafnið tómt«, þá má hann taka það til sín mín vegna.

Þá er meiri hlutinn, eða þó heldur háttv. þingm. Dal. (B. J.) fyrir hans hönd, að halda því fram, að vinnan mundi verða dýrari, jafnvel þeirri vinnu, sem kaup væri greitt fyrir, af því óreyndir unglingar ættu að vinna hana, sem litla eða enga æfingu hefðu.

Jeg hygg, að auðveldara sje að laga verkshátt hjá ungum manni, sem eigi hefir tamið sjer röng handtök, en að venja mann af rangri aðferð, sem hann hefði lengi tíðkað. Þannig mundi auðveldara að innræta ungum manni hollar og heilbrigðar skoðanir en að lagfæra skoðanir háttv. þingm. Dal. (B. J.).

Annars er þýðingarlaust að andmæla þessu öfugmælaáliti háttv. meiri hluta. Það er að eins óhönduleg tilraun, til að leiða athygli deildarmanna frá málefninu, og sýna að eins getuleysi höfundar til að færa rök gegn tillögu minni hl.

Út af öllu þessu veigamikla áliti sínu, vill svo háttv. meiri hluti álykta það, að fella beri tillöguna. En hver er þá tillagan? Hún fer ekki fram á annað en að spyrja þjóðina, hvort hún sje hlynt þegnskylduvinnu eða ekki. Ef þjóðin er hlynt þessu, þá sýnir það, að hún er annarar skoðunar en háttv. meiri hl. nefndarinnar, og hún vill leggja hönd á plóginn. En ef hún vill ekki sinna málinu, þá er það tákn þess, að hún er ekki svo þroskuð enn, að hún skilji þýðingu þess. En málið verður jafnvakandi fyrir því, hvernig sem um tillöguna fer. Það má tefja fyrir málinu, en hugsjónina megnar enginn að drepa.