30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

121. mál, þegnskylduvinna

Jóhann Eyjólfsson:

Jeg vil gjöra örstutta grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, en ætla þó ekki að blanda mjer inn í deiluna milli framsögumannanna.

Framsögum. minni hlutans (M.Ó.) byrjaði á því, að benda því að okkur, að við hefðum fært fremur litlar ástæður fyrir málinu í nefndaráliti okkar. Það getur vel verið, að þetta sje rjett, enda var engum rökum að mótmæla. Mjer finst nefndarálit minni hlutans vera nokkuð draumkent, og jeg verð að segja fyrir mitt leyti, að jeg er ekki góður að ráða drauma. Hann talaði mikið um kosti þegnskylduvinnunnar. Enda þótt benda megi að líkindum á einhverja kosti, sem henni fylgja, þá hefir það til þessa alment verið talið, að þeirri skyldu fylgdu fleiri ókostir en kostir. Meðal annars er kostnaðurinn svo mikill, að mjer er óhætt að fullyrða, að enginn háttv. deildarmanna er fær um að reikna hann út. Þessi skattur getur víða komið mjög þungt niður á mönnum. Gæti viljað til á bæ í sveit, að eini vinnandi maðurinn á heimilinu yrði tekinn, og það kann ske þegar verst gegndi, til að inna af hendi þessa þegnskylduvinnu. Setjum svo, að einstæðingsekkja sje að reyna að búa með börnum sínum, og elsti drengurinn sje á þegnskylduvinnualdri. Það má nærri því geta, hvílíkt tjón það væri fyrir ekkjuna, ef hún misti hann frá heimilisstörfunum, kann ske um hábjargræðistímann. Slík dæmi mætti sjálfsagt mörg nefna.

Mjer heyrðist framsögum. minni hl. (M.Ó.) segja, að þegnskylduvinnutíminn væri ekki endilega bundinn við þrjá mánuði. Það mætti þá alveg eins lengja hann eins og stytta, og ef hann yrði lengdur, þá yrði þessi skattur enn þá tilfinnanlegri.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sagði fátt, sem jeg tel mig þurfa að svara. Þó vil jeg drepa á 1–2 atriði í ræðu hans. Hann sagði, að þetta mál svo mikilsvert, að það væri full ástæða til að bera það undir þjóðina. Jeg veit nú ekki, hvað mikið slíkt þjóðaratkvæði væri að marka. Þótt það væri borið undir alla menn í landinu, yngri jafnt sem eldri, þá get jeg ekki lagt mikið upp úr því. Hann gjörði mikið úr því, að þegnskylduvinnan myndi glæða föðurlandsástina, af því að menn lærðu að vinna fyrir landið fyrir ekki neitt. En þá er á það að líta, hvort menn gjöra það af fúsum vilja. Ef þeir gengju til þessarar vinnu, sem sjálfboðaliðar, þá væri trúlegt, að það glæddi göfugar tilfinningar, en ef menn gjöra það nauðugir, að eins af því, að það er lögskipað, þá veit jeg ekki, hvað góð áhrif það hefði á föðurlandsástina. Þá er jeg hræddur um, að vinnan yrði ekki til að glæða hana.

Háttv. framsögum. minni hlutans (M. Ó.) lagði mikla áherslu á það, að menn lærðu mikla og góða vinnu á þessu. Menn myndu verða látnir vinna eitthvað, sem þeir gætu ekki unnið heima hjá sjer. Ef menn læra enga þá vinnu, sem þeir gætu síðar haft not af heima, þá er þessum tíma illa varið; það er þó vanalega meiningin, þegar menn ganga í einhverja skóla, þá sjeu þeir, og eigi þeir, á einhvern hátt að búa sig undir lífsstarf sitt. Ef um slíkt er ekki að tala, þá er gagnið að eins þetta, að fá vinnu ókeypis fyrir hið opinbera. Jeg er viss um, að það væri hollara fyrir þjóðina, að þessi skattur yrði borgaður á einhvern annan hátt.

Einn kosturinn sagði hann að væri sá, að menn vendust á hlýðni. Jeg legg nú ekki mikinn trúnað á það. Hann sagði enn fremur, að það fylgdi herskyldunni takmarkalaus hlýðni. Það er alveg satt, en þar er líka að tefla um líf og dauða, svo það leiðir af sjálfu sjer, að þar verður að hlýða. Eina vinnan hjer á landi, þar sem um líf og dauða er að tefla, er sjómenskan. Jeg hefi róið ein-2–3 vertíðir, og veit það, að þar er mikið undir því komið, að menn hlýði umsvifalaust, enda hefi jeg þar sjeð þá mestu og fullkomnustu hlýðni, sem jeg þekki, en það er afstaðan og kringumstæðurnar, sem skapa þær reglur, eins og við hermenskuna.

Hvernig sem jeg lít á þetta mál, finst mjer hjer vera um draumóra eina að ræða, og það drauma, sem jeg get á engan hátt ráðið.