30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

121. mál, þegnskylduvinna

Sigurður Eggerz:

Jeg minnist þess, að einu sinni, er jeg var staddur á fundi austan fjalls, þar sem þegnskylduvinnunni var hampað af nokkrum ungum mönnum, þá bauð jeg hlutaðeigendum að framkvæma þegar hugmyndina, með því að vinna ókeypis bæði að vegavinnu og ýmsum öðrum framkvæmdum, er á dagskrá voru. En enginn þeirra gaf sig fram í vinnuna. (Sveinn Björnson: Eru Skaftfellingar svona afleitir?). Jeg sagði austan fjalls, ,og þar eru fleiri en Skaftfellingar einir; þannig búa t. d. Árnesingar í Árnessýslu og Rangæingar í Rangárvallasýslu, en þetta veit sá vísi þingm. Reykvíkinga vitanlega ekkert um. Það, sem dregur menn og lokkar í þessu máli, er hugsjónin fagra, að rækta landið og kenna mönnum að starfa og hlýða. En reynslan sýnir oft og einatt, að þótt hugsjónirnar sjeu fallegar, þá hjaðna þær, er virkileikinn kemur til greina. Það getur vel verið, að ef þessu máli, þessari hugsjón, verður fylgt með ofurkappi með þjóðinni, að hún sigri í bili, en jeg býst við því, er til framkvæmdanna dregur, að það sjáist brátt, að sá sigur verður að eins Pyrrhusarsigur.

Því hefir verið hampað æði mikið í þessu máli, að á þennan hátt lærðu menn aga. En til þess, að sá gæti orðið árangurinn, þá þyrftu þó þeir, sem agann eiga að innræta, að kunna sjálfir að skipa. En til þess þyrftum vjer að eignast verkstjóra, sem helst yrðu að ganga á fyrirmyndarakóla, læra sjálfir aga og læra að kenna aftur, bæði það og annað. En aðalatriðið í málinu er, að þessi vinna er illa fallin til að kenna aga með henni.

Hvað snertir hervarnarskylduna og það, sem henni hefir verið talið til ágætis í þessu sambandi, þá er svo langt frá því, að þjóðirnar skoði herskylduna lán fyrir sig, þvert á móti stynja þær undir okinu og vildu svo óendanlega gjarna losna undan því. (Sveinn Björnsson: Það er annað 3 mánuðir eða mörg ár). Þetta minti mig á eitt atriði, er jeg ætlaði að koma að, en það er það, að til þess að mönnum lærist agi, þá þarf til þess meira en 3 mánuði, hvort heldur sem það er í sambandi við hervarnarakyldu eða annað. Mönnum lærðist varla mikill agi á þessum 3 mánuðum. Annara er leikfimi betur löguð til að kenna mönnum aga, heldur en þegnskylduvinnan. Þar læra menn að hlýða skýrum og ákveðnum skipunum. Á hana þyrftu því ungir menn og ungar konur að leggja meiri stund en átt hefir sjer stað hingað til.

Nei, tíminn er of stuttur, til þess að nokkuð verulegt verði lært. En þó tíminn sje stuttur, verður því ekki neitað, að þetta yrði alldrjúgur skattur, er legðist á þjóðina. Og það var rjett tekið fram áðan, að það kæmi mjög þungt niður á einyrkjaheimilinu, er sonur ekkjunnar er tekinn frá forystulausu heimilinu, og gamla konan, lúin og slitin verður að sjá á bak einu stoðinni sinni, þó ekki sje nema um 12 vikna tíma.

Menn gleyma sem sje einu, sem er þó svo ósköp auðsætt, að þó menn vinni ekki þegnskylduvinnu, þá er þó verið að rækta landið. Drengur ekkjunnar ræktar kotið þeirra, gjörir það byggilegra. Það er því hægt, að gjöra garðinn frægan á annan hátt en með þegnskylduvinnu. Það er ljóst, að þann tíma, sem þegnskyldumennirnir eru í sameiningu að rækta landið á ákveðnum stað, þá eru ýmsir smáblettir, sem ræktaðir hefðu verið af sömu höndum, ef þær hefðu unnið heima hjá sjer, óræktaðir. Með öllu er því óvíst, að ræktuðu blettirnir verði í raun og vera samanlagðir stærri, þó þegnskylduvinnan komist á.

Hugsjónin er að vísu falleg, en það er erfiðleikum bundið að framkvæma hana, og á því strandar. Jeg er viss um, að það er ekki meira gagn að þessu, praktiskt sjeð, en heimspekilegu tilraununum til að bæta vinnubrögðin í landinu. Ef á að kenna fólki að hlýða, þá er að leggja áherslu á leikfimi í skólunum, en vegavinnan er ekki vel fallin til þess.

Með þessari stuttu athugasemd vildi jeg hafa gjört grein fyrir atkvæði mínu. Jeg lít þannig á, að ekki gjörist þörf á atkvæðagreiðslu um þetta, því að á þingmálafundum má ræða um málið, og hvernig þar verður í það tekið af kjósendum er ný bending til þingsins, hvort það eigi að ráðast í nokkrar framkvæmdir í þessu máli.

Það er sýnilegt, að áður en kemur til sjálfra framkvæmdanna, verður að stofna skóla, til að kenna verkstjóraefnum, og verður þá að athuga, hvort með öllu þessu sje ekki lagður svo drjúgur skattur á þjóðina, að hann verði henni alltilfinnanlegur eins og stendur.