18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Þetta mál, fjáraukal. 1912–13 og landsreikningar sama ár, standa í svo nánu sambandi hvort við annað, að það, sem sagt hefir verið um tvö seinni málin, getur að mestu leyti gilt um þetta. Jeg gjöri ráð fyrir, að háttv. deildarmenn hafi kynt sjer þessar tillögur, sem nefndin áleit ekki ófyrirsynju fram bornar.

Fyrsta tillagan er fram komin vegna þess, að það hefir átt sjer stað undanfarið, að vaxtagreiðsla af veðlánum landssjóðs hefir dregist um skör fram. Það er óhæfilegt ástand, þegar slíkt dregst ár frá ári, og þess vegna er því beint til stjórnarinnar, að gjöra ráðstafanir til, að vextirnir verði framvegis innheimtir á rjettum tíma.

Önnur tillagan er viðvíkjandi skuld hlutufjelagsins Iðunnar. Eins og kunnugt er, var fjárhagur eldra fjelagsins tekinn að hallast, en landssjóður átti hjá því allstóra fjárhæð. Þess vegna er full þörf á, að stjórnin hafi glöggar gætur á meðferð þessa bús, ef svo má að orði komast, og gjöri ráðstafanir til, að landið geti fengið sem allra mest upp í þessa skuld, og helst skuldina alla.

Þriðja tillagan er um það, að stjórnin gjöri framvegis sitt ítrasta til þess, að hindra það, að skrifstofukostnaður við æðstu stjórn landsins fari svo mjög fram úr áætlun, eins og verið hefir. Það er ekki nema eðlilegt, að þessi kostnaður fari eitthvað fram úr áætlun, því að það er nokkuð mikið gjört að því hjer á þinginu, að vísa málum til stjórnarinnar til undirbúnings. Þetta hefir oft töluverðan kostnað í för með sjer. Jeg verð að telja það rjett af þinginu, þegar það vísar málum til stjórnarinnar, sem sjáanlega hafa aukakostnað í för með sjer, að það jafnframt sjái fyrir því fje, sem með kann að þurfa, svo að fjárveitingin þurfi ekki að koma eftir á. Það getur oft valdið ágreiningi, en ef sjeð er fyrir hæfilegri fjárveitingu fyrir fram, þá er loku skotið fyrir það.

Fimta tillagan er komin fram út af því, að nefndin hefir orðið vör við, og fengið upplýsingar um það frá kunnugum mönnum, að eftirlitið með bændaskólunum er varla jafn fullkomið, eins og það var, meðan þeir hjetu búnaðarskólar og stóðu undir eftirliti amtsráðanna. Enda er ekki við því að búast, að stjórnarráðið geti eins vel litið eftir þessum skólum eins og nefnd manna, sem býr í nánd við skólana og á jafnan hægt með að kynna sjer ástand þeirra og skólabúanna yfirleitt. En það hefir mikla þýðingu, að þetta sje alt í sem bestu lagi.

Þá er 6. tillagan, um að dagpeningar starfsmanna landsins verði færðir niður til muna. Þeim hafa undanfarið verið greiddar 6–8 kr. á dag, þegar þeir hafa verið á ferðalagi í landsins þarfir. Þetta sýnast vera nokkuð háir dagpeningar, þegar landið borgar annan ferðakostnað þeirra og þeir hafa þar að auki föst og sæmileg laun. Nefndin leggur til, að þessir dagpeningar fari ekki fram úr 5 kr. framvegis.

Þá hefir nefndin fundið ástæðu til að geta þess, að reikningar efnarannsóknarstofunnar hafa undanfarið ekki komið fyrr en seint og síðar meir. Það sýnist ekki vera ástæða til, að slíkt eigi sjer stað. Eðlilegast væri, að reikningurinn kæmi fram svo snemma, að tekjurnar, ef nokkrar væru, kæmu á þann reikning, sem þær, að rjettu lagi, eiga að tilheyra.

Þá kem jeg að 8. og síðustu tillögunni. Henni víkur svo við, að stjórnarráðið hefir beint því til þingsins, að því bæri að taka ákvörðun um, hvernig það ætti að haga sjer gagnvart láni, sem á sínum tíma var lánað út á niðursuðuverksmiðjuna á Ísafirði. Jeg get nú ekki sjeð, að þetta heyri fremur undir þingið heldur en undir stjórnarráðið. En úr því að stjórnarráðið hefir beint þessu til þingsins, verður naumast hjá því komist, að þingið láti uppi álit sitt um það. Sá dráttur, sem orðinn er á þessu máli, er auðvitað alveg ótækur, en jeg býst við, að þinginu verði ekki gefin sök á honum. Það virðist vera sjálfsagt, að þingið skori á stjórnina að selja þessa eign, og að öðru leyti rannsaka, að hve miklu leyti fyrrverandi eigandi sje fær um að greiða það, sem þá kynni að vanta á fulla greiðslu skuldarinnar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til, að fjölyrða meira um þetta. Jeg hygg, að tillögurnar sjeu allar á góðum rökum bygðar, og nefndin væntir þess, að þær verði teknar til greina.