18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Ráðherra:

Út af ræðu háttv. framsm. (M. K.) vildi jeg leyfa mjer að gjöra örfáar athugasemdir.

Eftir því, sem mjer hefir verið skýrt frá, munu varla vera mikil brögð að því, að vextir af veðlánum sjeu úti standandi. Ef það er borið saman við útistandandi vexti í öðrum stofnunum, t. d. í bönkunum, þá mun sá samanburður ekki verða landsstjórninni í óhag.

Viðvíkjandi h. f. Iðunn skal jeg geta þess, að það hefir greitt vexti til 3. des. 1914. Það lán, sem viðlagasjóður á þar, að upphæð 35,000 kr., er trygt með 1. veðrjetti í verksmiðjunni, og verð jeg að telja það nægilega tryggingu, enda hefir nýja fjelagið tekið lánið að sjer. Það er því engin ástæða til, að ganga að fjelaginu fyrir þessu láni,. sem jeg hygg, eins og jeg tók fram, að sje nægilega trygt með fasteign þeirri, sem fjelagið á.

Viðvíkjandi þriðju tillögunni, um skrifstofufje stjórnarráðsins, skal jeg geta þess, að til þess kostnaðar voru í seinustu fjárlögum, 1914–1915, veittar 18000 kr., en hann varð um 20,000 kr. Það lítur svo út, að reikningslaganefndin hafi furðað sig á þessum kostnaðarauka. En jeg skal leyfa mjer að benda á það, að meðal annars hefir orðið að bæta við einum starfsmanni á 3. skrifstofu, vegna vörutollsins. Líka má geta þess, að kol og annað eldsneyti hefir hækkað mjög mikið í verði, og kemur það líka niður á stjórnarráðinu, en það á nú að vísu ekki að öllu við þetta tímabil. Jeg hygg, að ef þessi hækkun er borin saman við hækkun á öðrum starfsmönnum landsins, t. d. póst- og símamönnum, þá mundi sá samanburður ekki verða stjórnarráðinu í óhag. Þess má enn fremur geta, að símskeytakostnaður fer stöðugt vaxandi. Ekki er því til að dreifa, að starfsmenn stjórnarráðsins sjeu svo vel launaðir, ekki þeir óæðri að minsta kosti. Það er einungis vegna »yfirproduktionar« á lögfræðingum, að hægt er að fá menn til að vinna fyrir svo lág laun. Ella mundi þess alls ekki kostur.

Um 4. liðinn, að skora á stjórnina, að leita jafnan aukafjárveitingar fyrir umframgreiðslum, er það að segja, að sú tillaga er rjettmæt, enda hefir jafnan verið venja að gjöra það.

Um 5. liðinn er mjer ekki vel kunnugt. Jeg veit ekki, hvort ástæða er til að skipa sjerstaka nefnd, til að hafa á hendi eftirlit með bændaskólunum. Mjer er ekki kunnugt um, að forstöðumönnum skólanna hafi farið starf þeirra illa úr hendi. Jeg veit ekki heldur, hvort nefndin hefir athugað það, hvort það sje samþýðanlegt lögunum um bændaskóla, að skipa slíka nefnd. Jeg hefi ekki haft tíma til að gjöra það, en það er hægt að athuga það, áður en málið kemur til seinni umræðu. Það mun vera svo, samkvæmt 6. gr. laganna, að landsstjórnin hafi á hendi yfirumsjón með þessum skólum, en hitt skal jeg ekki segja til fulls, hvort nefndarskoðun sje ósamrýmanleg lögunum. Jeg skal athuga það nánar síðar.

Um 6. liðinn, út af dagpeningum starfsmanna landsins, verð jeg að segja það, að það getur aldrei munað miklu, hvort þeir fá 5 eða 6 kr. Mjer er nær að halda, að þeir sjeu ekki ofhaldnir af að fá 6 kr., því þeir þurfa ár frá ári að takast á hendur dýrar ferðir. (Sigurður Sigurðsson: Þeir fá auk þess annan ferðakostnað greiddan). Jeg veit það, en við getum ekki búist við, að starfsmenn landsins ferðist eins og ómagar eða hreppakerlingar.

Í öðrum löndum fer þetta nokkuð eftir því, hvernig embættismaðurinn er settur. Það eru gjörðar hærri kröfur til æðri embættismanna, að þeir ferðist ríkmannlegar en aðrir lægri embættis- eða sýslunarmenn. Í Noregi fara þessar ferðakostnaðarupphæðir eftir sjerstökum »scala», og virðist það ekki óeðlilegt. Menn verða að gæta þess, að fólkið gjörir beinlínis kröfur til þess, að starfsmenn landsins ferðist nokkura veginn ríkmannlega, og það er á nokkru bygt. Auk þess er aðgætandi, að ávalt verður dýrara og dýrara að ferðast á landi hjer. Og það verða menn einnig að taka til greina, einnig um dag- eða fæðispeninga svo nefnda.

Viðvíkjandi 7. lið skal jeg kannast við það, að þar er rjettmæt aðfinsla að því, að reikningar efnarannsóknarstofunnar hafa ekki komið eins fljótt og skyldi.

Um 8. lið, niðursuðuverksmiðjuna á Ísafirði, er það að segja, að fjárnám hefir þegar verið gjört í henni. Hvort heppilegt sje að selja strax, læt jeg ósagt. En jeg býst ekki við, að mikið fáist af »debitor«, eins og sakir standa nú. Það er annars leitt, hvernig farið hefir verið með þetta lán, sem upphaflega var veitt samkvæmt fjárlögum 1912 og 1913. Hvort lánveitingin hafi verið heppileg, veit jeg ekki um, enda ber jeg enga ábyrgð á því.