18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Ráðherra:

Þótt einhver sparnaður kynni að verða af tillögum háttv. landsreikninganefndar, þá býst jeg við, að umræðurnar hjer á þingi um hann myndu eta hann upp.

Mjer skildist svo á háttv. framsm. (M. K.) sem hann væri ekki mjög harður út af aukafjárveitingum, og væri á því, að ekki bæri að ætla of lágt til æðstu stjórnar landsins, og er jeg þar á sama máli. Það hefir sýnt sig á landsreikningnum fyrir 1912–1913, að útgjöld hafa farið 10 þús. kr. fram úr áætlun. Nú er áætlunin 112 þús. á fjárhagstímabilinu, eða 56 þús. kr. á ári í frumv. stjórnarinnar, og sýnir það, að hæstv. fyrv. stjórn hefir einnig verið á því, að hækka þyrfti áætlunina. Enginn efast um það, að starfskraftar stjórnarráðsins eru ónógir, síst of miklir. T. d. þurfti að bæta við fullkomnum manni vegna vörutollsins. Símareikningar krefja og mjög mikils starfs. Hvernig stendur annars á því, að ekki skuli hafa komið fram aðfinnslur við einn lið, sem sje alþingiskostnaðinn, því að það er þó líka líður í landsreikningnum?

Um búnaðarskólamálið skal jeg taka það fram, að það er rjett hjá háttv. reikningslaganefnd, að það er ekkert á móti því frá sjónarmiði laga frá 10. nóv. 1905, þótt þessi nefnd væri sett, og ekkert á móti því, að málið sje athugað rækilega.

Því, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, er jeg að mestu samþykkur. Það er þýðingarlaust, að takmarka nokkuð frekar fjárveitingar til starfa í stjórnarráðinu, því að þau verður að vinna, hvort sem þingið hefir ætlað til þeirra of lágt eða of hátt, svo að þá liggur ekki annað fyrir en að greiða það, sem fram yfir kann að vera.

Hann mintist í því sambandi á styrk til vina og frænda, og kemur það ekki mjer við, því að jeg hefi ekki enn þá fengið tækifæri til þess, að veita neinum neitt í stjórnarráðinu. (Bjarni Jónsson: Jeg nefndi ekki heldur slíkt, hvorki um hæstv. núverandi ráðherra, nje hæstv. fyrirrennara hans). Það mun og vera óhætt, því að þótt jeg sje hjer ekki til þess að taka hans málstað, þá veit jeg ekki til, að neitt slíkt verði um hann sagt; hann veitti þarna eina stöðu, svo jeg vissi til, og hefi jeg ekkert við þá veitingu að athuga.

Mjer dettur eitt í hug út af bændaskólunum, sem ef til vill þyrfti að athuga, og það eru dagpeningar starfsmanna búnaðarfjel. á ferðalögum. Jeg held, að reikningslaganefndin hafi ekki gjört það, en einhvers staðar hefir þó komið fram athugasemd um það, að rjett væri að fara með þá eins og póst- og símamenn, og jeg er á því. Jeg held, að háttv. nefnd hafi verið full hörð, þegar hún skamtaði þeim þessar 5 kr. Það er hæpið, að þær dugi, ef menn eiga ekki að þurfa að ferðast alveg eins og hreppakerlingar. Maturinn kostar nú 4 kr. á 1. fari á skipum, eða 4,50, og þá er ekki eftir af dagkaupinu nema 1 kr., eða þá 50 aurar. Ef þeir láta sjer nægja með einn aukakaffibolla, þá játa jeg, að það hrekkur, en þá er líka upp talið það, sem þeir mega drekka. (Rödd: Þeir geta drukkið vatn). Já, en þrátt fyrir það eru það óskrifuð lög, að allir, sem sæmilegir farþegar vilja heita, verða að gefa einhverja drykkjupeninga, hvort sem þeir drekka nokkuð eða ekki neitt, sumir 10%, aðrir meira, fæstir minna. Jeg vildi fyrir mitt leyti ekki eiga að ferðast á 1. farrými fyrir 5 kr. á dag, og er jeg þó ekkert gefnari fyrir að sólunda fje en alment gjörist. Ef þetta er t. d. borið saman við ferðalög alþingismanna og miðað við þá daga, sem þeir eru á ferðinni, þá held jeg að þeir verði ekki verr úti.

Einhver nefndi ráðunauta Búnaðarfjelags Íslands í sambandi við þetta. Jeg hefi auðvitað ekkert á móti því, að Búnaðarfjelagið borgi þeim fæðispeninga og ferðakostnað, en það kemur ekki stjórninni við. Ef t. d. háttv. samþingismaður minn (S. S.) teldi sig vanhaldinn í þeirri grein, þá ætti hann að snúa sjer þangað, en ekki til mín.