15.07.1915
Neðri deild: 7. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

8. mál, þingsköp Alþingis

Ráðherra:

Í stjórnarskrárfrv. því, er hlaut konungsstaðfestingu 19. júní þ. á., eru ýmsar breytingar gjörðar á stjórnskipunarlögum vorum, sem leiða það af sjer, að óhjákvæmilegt er, að breyta þingsköpum Alþingis í samræmi við það. Í 8. gr. gömlu þingskapanna er t. d. ákvæði, sem byggist á því, að nokkurir þingmanna sjeu konungkjörnir, og margt fleira mætti nefna. Í fyrra kom af þingmanna hendi fram frumv. um breytingar á þingsköpunum. Það var afgreitt frá Nd., en Ed. samþykti rökstudda dagskrá um að skora á landsstjórnina, að undirbúa málið fyrir næsta þing. Það hefir ekki verið gjört, enda ekki vel hægt að gjöra það, fyrr en vitað var, hvort stjórnarakrárfrumvarpið fengi staðfestingu eða ekki.

Nú er staðfestingin fengin.

Í gildandi þingsköpum er, sem sagt, ýmislegt, sem óhjákvæmilegt er að breyta, en auk þess eru í þeim ýms atriði, sem margir góðir menn fella sig illa við. Ef þingið afgreiðir ekki nú þessar nauðsynlegustu breytingar sem jeg nefndi og af breytingu á stjórnskipunarlögunum leiðir, verður stjórnin nauðbeygð til, að setja bráðabyrgðalög um þær fyrir næsta þing, ef það á að vera hægt, að heyja það lögum samkvæmt. Jeg hefi talið rjett, að fara fram á, að nefnd verði skipuð hjer í deildinni, til þess að athuga málið og koma fram með tillögur um það.

Mjer er kunnugt, að í ráði er, að sams konar tillaga til þingsályktunar verði borin fram í Ed. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið, en vona að deildin taki því vel, og að nefndin verði skipuð í samræmi við þingsályktunartill. á þgskj. 29.