17.07.1915
Neðri deild: 9. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

19. mál, þegnskyldumálið

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Það eru nú liðin 12 ár síðan, að tillaga í þessa átt var borin fram á Alþingi. Mjer hefir aldrei blandast hugur um, síðan jeg fyrst heyrði þessa málsgetið, að fegurri hugmynd hefir aldrei verið varpað fram í þessum sal, nje líklegri til þess að verða landi og lýð til blessunar.

En hugmyndinni var tekið með kæruleysi, og sumstaðar mætti henni allmikil mótspyrna, en aðallega drap hana áhugaleysi almennings. Það er þó ekki rjett að orði komist, að hún hafi verið drepin. Hugmyndin dó ekki, en hún hefir sofið. Góðar hugsjónir deyja ekki, og er gott til þess að vita. Öllum góðum hugsjónum safnast áhangendur, fyrr eða síðar, og svo hefir farið um þessa fögru hugsjón.

Síðari árin hafa þegnskyldumálinu unnist fleiri og fleiri áhangendur. Mentaskólinn og, að jeg held, flest ungmennafjelög landsins, hafa tekið það á sína stefnuskrá. Á búnaðarþinginu hefir það verið til umræðu, og fengið góðar undirtektir. Kveður nú alstaðar við annað hljóð en fyrst, er þessu máli var hreyft. Menn eru farnir að sjá, að hugmyndin er bæði hyggileg og þjóðræknisleg, og að mikið gott muni leiða af henni fyrir landið, ef hún kemst í framkvæmd.

Það er sjerstaklega fyrir tilmæli Mentaskólanemenda, að jeg hefi borið fram þessa tillögu. Mjer er það ljúft verk, ef það gæti orðið til þess, að málið kæmist í framkvæmd, áður en langt um líður. Hins vegar tel jeg ekki heppilegt, að hrapað verði að því. Slíkt mál sem þetta á að vera vel undir búið og ætti að berast undir þjóðina, áður en til framkvæmda kæmi. Jeg get ekki sagt svo mörg lofsorð um málið, sem jeg kysi. Verði tillagan samþykt, sem jeg vona að hún verði, vildi jeg óska, að í nefndina veldust þeir menn, sem af alúð vilja vinna að því, að hrinda málinu áleiðis.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið að þessu sinni, mjer gefst ef til vill tækifæri til þess síðar. Jeg vil að eins mæla hið besta með nefndarsetningunni.