17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Einar Jónsson:

Jeg lít svo á, að háttv. þingmenn eigi að trúa samvinnumönnum sínum í deildinni til að gefa rjettar skýringar um sjerstök atriði eftir kunnugleika, sem ætíð hlýtur að vera misjafn eftir atvikum, og jeg vona, að þeir hafi ekki reynt mig að ósannindum, enda veit jeg ekki til, að jeg hafi verið álitinn maður ósannsögull í alvarlegum málum. Jeg er nú búinn að vera sjómaður þar eystra í 15 ár, og jeg verð að segja það, að Þorlákshöfn er neyðarhöfn Stokkseyringa og Eyrbekkinga, einkum fyrir vjelbáta, sem nú eru óðum að ryðja sjer til rúms, en geta þó því að eins leitað hafnar í Þorlákshöfn, að þar komi mótorbátakví. Tillagan ber það með sjer, að hjer sje farið fram á mjög nauðsynlegt mál, og jeg þori að fullyrða, þegar um kaup á jörðinni er að ræða, að landið er ríkara en áður, ef það kaupir Þorlákshöfn, og líkindin fyrir því, að höfn og bátalægi kæmist þá fljótt í lag, miklu meiri, heldur en ef einstakir menn eiga jörðina.

Það vill nú svo vel til, að ráðherra er vel kunnugur á þessum slóðum, og hans umsögn og skýringar því í alla staði á rökum bygðar. Mjer fyrir mitt leyti finst mjög sanngjarnt að samþ. tillöguna. Það sýnir og ljóslega, hve afar nauðsynleg höfn í Þorlákshöfn er, að það er algengt, að bátar frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn róa að morgni í besta veðri en komast svo ekki til lands vegna brims, þegar á daginn liður, á neinum öðrum stað en Þorlákshöfn.

Sanngjarn og skynsamur maður, eins og hv. 1. þm. Húnv. (G. H.) er, hefir enga ástæðu til að tala um það, sem hann er gjörókunnugur og hvorki kann eða veit nein deili á. Hann segir það satt, að höfnin verður dýr, en fjeð brestur ekki, ef viljann vantar ekki til að bjarga mörgum mannslífum og hafa annan margfaldan arð af eigninni, væri henni sómi sýndur — en mannslífin gilda mest; þau verða ekki metin til peninga. Annars kann jeg illa við, að menn sjeu að blanda sjer í mál, sem þeir hafa engan kunnugleika á. Jeg fyrir mitt leyti álít langhyggilegast, að samþykkja tillöguna. Sannsöglir menn og kunnugir eiga að ráða. Jafnkunnugur maður og hæstv. ráðherra er full fær um að ráðstafa þessu á sem bestan hátt. Þorlákshöfn er kapitalsjörð, og ef hv. 1. þm. Húnv. (G. H.) hefði haft fyrir því, að setja sig inn í málið, mundi hann líta öðruvísi á það. (Guðmundur Hannesson: Í hverju liggur þetta kapital?) Jeg veit nú ekki, hvort jeg er við því búinn, að telja upp alla kosti jarðarinnar nú og þegar höfn er komin.

Í 1. lagi er þar þrautalending, bæði fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri, og við það hafa margar skipshafnir bjargast fyrr og síðar.

Í 2. lagi fiskisæl veiðistöð, svo fiskisæl, að engin verstöð sunnanlands kemst þar til jafns.

Í 3. lagi er hún mikil sauðjörð. Tún stór og vel ræktuð, trjáreki o. fl. o. fl.

1. þm. Húnv. (G. H.) væri vel haldinn af að búa þar, ekki síst ef höfn og bátalægi kæmist í verk. Því fylgdu svo margir kostir, sem öllum hljóta að vera augljósir, og jeg vil ekki þreyta háttv. þingmenn á, að koma hjer með í upptalningu.