17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Eggert Pálsson:

Jeg kannast við það, að miklar umræður eru orðnar um þetta mál, en þó hefi jeg talið mjer rjett að athuga ýmislegt, er fram hefir komið í umræðunum.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) talaði mjög sljett og felt um málið, eins og hans er síður, en mjer virtist, að ummæli hans sönnuðu ekki annað en það, að hann hefði ekki nægilega opin augu fyrir því, hvernig atvinnuvegum landsins er í raun og veru háttað. Mjer skildist, að hann væri aðallega að hugsa um, að hafnir yrðu gjörðar að eins á fáum stöðum á landinu og þá vitanlega þar, sem fiskisælast væri. Þetta er mjög eðlileg hugsun, ef því væri þannig háttað hjer á landi, að sjávarútvegsstjettin og landbúnaðarstjettin væru verulega sundurgreindar. En því er ekki þann veg farið, og það mun svo verða um óákveðinn tíma, að mikill hluti þjóðarinnar stundar báða þessa atvinnuvegi nokkurn veginn jöfnum höndum. Væri hjer því að eins um sjerstaka sjávarútvegsstjett að ræða, þá væri nægilegt, að gjörðar yrðu sæmilega góðar hafnir á fáeinum stöðum á landinu, og þeim öllum, er sjávarútveg stunduðu, vísað þangað, til þess að lifa þar af atvinnugrein sinni.

En þar sem því er nú þannig háttað, að víðs vegar á landinu stunda menn báða þessa atvinnuvegi jöfnum höndum, þá verður að athuga og umbæta verstaði víðar en á fáeinum stöðum. Það verður að umbæta hafnir og lendingar á sem flestum stöðum, til þess að fiskisæld hafsins í kring um strendur landsins geti sem flestum landsbúum að notum komið, einnig þeim, sem meðfram stunda landbúnaðinn.

Fyrir austan fjall og víðar er því þannig háttað, þó að landið sje þar gott, að ekki er unt að lifa eingöngu á landbúnaðinum, og allra síst eins og samgöngum er enn þá háttað. Menn reyna því að auka tekjur sínar með því, að hlaupa að sjó, er minst er að gjöra, og þá vitanlega sem næst sjer. Og því fremur er ástæða fyrir menn að leita ekki langt í burtu til fiskveiða, þar sem beint fram undan hjeraðinu eru ágætis fiskimið. Því að eins og mörgum mun kunnugt, er Þorlákshöfn með allra bestu verstöðum á landinu, hvað fiskisæld snertir. Fyrir því mundu menn ekki, hvort sem nokkuð eða ekkert verður gjört, til þess að tryggja líf þeirra manna, er fiskveiðar stunda í Þorlákshöfn, leita þaðan, þótt gjörðar yrðu hafnir eða góðar lendingar annarstaðar á landinu.

Spurningin er því eingöngu þessi, hvort þingið vill gjöra nokkuð til að tryggja líf og eignir manna þarna eystra. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) benti á það, að sú upphæð, er lögð myndi verða til að koma upp höfn í Þorlákshöfn, yrði svipuð þeirri upphæð, er ætluð er til Flóaáveitunnar. Þetta er að vísu rjett. En hins vegar er að líta á það, að ef það er einlægni þingsins, að leggja í Flóaáveituna, þá liggur það í augum uppi, að fólki muni fjölga á þessu svæði að miklum mun. En getum við þá hugsað okkur það, að það fólk alt geti í framtíðinni lifað eingöngu á landbúnaði, fremur en nú? Það er og verður spurningin.

Það mætti ef til vill svara þessari spurningu játandi, en þó með því ákveðna skilyrði, að samgöngurnar bötnuðu að miklum mun frá því, sem nú er. En ef landbúnaðarafurðir hækka ekki að miklum mun í verði, sem ekki getur orðið, nema með bættum samgöngum, svo sem járnbrautarlagningu, er sýnist nú sem stendur ekki blása sem byrlegast fyrir, þá geng jeg út frá því sem alveg gefnu, að þar sem fólki mun áreiðanlega fjölga á áveitusvæðinu við framkvæmd vatnsveitunnar, að þá muni það samt sem áður ekki verða frekar en nú megnandi þess, að lifa eingöngu á landbúnaði, og hljóti því að leita sjer lífsviðurværis við sjávarsíðuna, og því helst í Þorlákshöfn, sem næst liggur og reynst hefir tiltölulega fiskisæl. Þegar því Flóaáveitan kemst í verk, verður vafalaust reyndin þessi. En ef svo yrði, mundi það þá reynast verra fyrir landssjóðinn, að hafa eignast Þorlákshöfn áður? Þessa verða menn að gæta, því að með aukinni sjósókn þaðan, vex jörðin í verði að miklum mun. Það hlýtur öllum að skiljast. Rjettast hefði vitanlega verið að kaupa Þorlákshöfn, þegar hún var til kaups hjer á árunum, því að síðan hefir hún vaxið mjög í verði, en við því verður nú ekki gjört. En þegar eftir að Flóaáveitan hefir komist á, mun hún hækka enn meira í verði. Og við því ber nú að sjá, með því að ná eignarrjetti á jörðinni áður.

Hjer er því um praktiska ráðstöfun að ræða. En auðvitað verður að gæta þess, að gefa ekki óviturlega hátt verð fyrir jörðina. Enda treysti jeg þingi og stjórn til þess, að haga sjer viturlega í þessu máli. Það er líka opinn vegur fyrir stjórnina til að ná fyrir landssjóðs hönd eignarrjetti á jörðinni, þótt eigendur vildu ekki gefa hana fala fyrir hæfilegt verð, eins og 2. málsgrein tillögunnar sýnir. Því að fengist jörðin ekki með sæmilegu verði, mætti grípa til eignarnáms í henni. En komi aftur á móti fram sanngjarnt tilboð um kaup á jörðinni, þarf að sjálfsögðu ekki að grípa til þess. Þá fellur alt í ljúfa löð.

Jeg vil því biðja menn vel að athuga, hvort ekki sje ástæða til að gefa þessa kaupheimild, sem hjer er farið fram á. Hitt liggur ekki fyrir, að gjöra þessi kaup nú. Hjer er um að ræða bestu verstöð á Suðurlandi, og eina staðinn, sem komið geti til tals sem höfn á því svæði. Og hvað hina fyrirhuguðu Flóaáveitu snertir, þá ætti hún ekki að draga úr, heldur miklu fremur að stuðla að því, að landið tryggi sjer eignarrjett á þessum þýðingarmikla stað.