02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Þórarinn Benediktsson:

Eins og menn sjá, hefi jeg skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Það hefi jeg gjört aðallega af þeirri ástæðu, að mjer þótti málið ekki eins vel undirbúið eins og jeg hefði óskað. Fyrir nefndinni lá ekkert, sem benti í þá átt, fyrir hvað væri hægt að fá þá eign keypta, sem hjer um að ræða. Hins vegar býst jeg við, að það sje ekki gott að neita því, að þetta sje í sjálfu sjer nauðsynjamál, og varð það því að samkomulagi í nefndinni, að setja þetta takmark á verðið, sem sett er í brtt. á þgskj. 625. Jeg fyrir mitt leyti hefði felt mig best við, að ekkert hefði verið gjört í málinu á þessu þingi, annað en það, að fela stjórninni að útvega tilboð og gjöra annað það, sem nauðsynlegt má telja til undirbúnings.

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 704. Hún er við byrjun fyrri liðs tillögunnar á þgskj. 244, og fer fram á það, að í stað orðanna »neðri deild Alþingis« komi Alþingi. Jeg álít, að það sje sjálfsagt, að þingsályktunartillaga sem þessi, sem hefir mikil útgjöld í för með sjer, komi frá báðum deildum Alþingis. Jeg vil ekki, að sá rekspölur komist á, að fjárútgjöld sjeu heimiluð af neðri deild einni. Jeg get því að eins greitt þingsályktunatillögunni atkvæði, að báðar brtt. verði samþyktar. Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um þetta mál.