02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Framsögum. (Matthías Ólafsson):

Háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) ávítar nefndina fyrir störf hennar. Honum er þó fullkunnugt um, hvernig þingið tók í þetta mál í fyrra; að það ákvað, að gjöra ekki neinar frekari ráðstafanir, fyrr en landið væri búið að eignast jörðina. Þáverandi ráðherra lagði mikla áherslu á að fá málið í sínar hendur, en eftir því sem hann segir sjálfur, hefir honum ekkert orðið ágengt. Nú vildi nefndin enn á ný fela þetta mál núverandi ráðherra. Hún vildi ekki fastákveða neina vissa upphæð, en ætlaði að trúa stjórninni fyrir því. Sje það rjett, sem háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) sagði, að jörðin væri veðsett fyrir 80,000 kr., þá er ekki hægt að búast við, að hún fáist undir því verði. En úr því að þessar upplýsingar eru fram komnar, álít jeg nauðsynlegt að leitað verði frekari upplýsinga, og óska því, að málið verði tekið út af dagskrá.