04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Háttv. sessunautur minn (S. S.) hefir tekið hart á nefndinni fyrir frammistöðu hennar, og sjerstaklega á mjer sem meðflutningsmanni að tillögunni. Jeg ætla nú að reyna að afsaka mig.

Afstaða mín er sú, að ef nefndin fengi samþykta rökstudda dagskrá í málinu, get jeg ekki sjeð, að nokkur minsti munur sje á því og að fá samþykta þingsályktunartillögu, því að í báðum tilfellunum mun ekkert verða úr kaupunum, meðan svo er ástatt, sem nú. Og ef ráðherra getur lagt fyrir næsta þing ákveðin tilboð, þá má landssjóður vera ánægður með að þurfa ekki að greiða verðið fyrr en þá, ef þingið vill þá sinna kaupunum.

Hin rökstudda dagskrá er að engu leyti vantraust til stjórnarinnar, að eins það felur hún í sjer, að vjer viljum ekki skipa ráðherra að kaupa eign, sem vjer sjálfir sjáum, að er of dýr. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) ætti að vera það ljóst, að nefndin gat ekki farið öðru vísi að.

Jeg skil ekki, hvernig þessi háttv. þm. (S. S.) fer að finna það út, að hin rökstudda dagskrá og þingsályktunartillagan sjeu ósköp fjarskyldar. Í þingsályktunartillögunni er ráðherra falið að kaupa eignina, en í dagskránni er honum falið að útvega þinginu upplýsingar um söluverð jarðarinnar. Jeg hefi orð hæstv. ráðherra fyrir því, að honum detti ekki í hug að kaupa jörðina fyrir það verð, sem hún nú er boðin fyrir. Þess vegna mundi alt vera í sama stappinu 1917, ef þessi þingsályktunartill. væri samþykt. En með dagskránni fengist það, að ráðherra mundi semja frv. um eignarnámsheimild, og allir vita, hver munur er á framgangi máls, sem stjórnin leggur fyrir, eða einstakir þingmenn.

Það er því engin ástæða til þess að álasa mjer, þótt jeg hafi sjeð, að allar leiðir, sem jeg vildi fara, voru ófærar. Upphaflega vildi jeg, að þingið legði fram fje til hafnargjörðar í Þorlákshöfn, þrátt fyrir það, þótt jörðin væri eign einstakra manna; var það vegna sjávarútvegarins, sem mjög mundi hafa blómgast við það. En þegar jeg sá, að það var komið í óefni, og þýðingarlaust var að skipa stjórninni að kaupa jörðina, þá sá jeg ekki aðra leið en þessa rökstuddu dagskrá.

Það er ekki nema gott, að vonir hv. 1. þm. Árn. (S. S.) rætist, sem sje, að jörðin lækki í verði. En ekki get jeg búist við því. En þótt svo verði ekki, getur þingið 1917 samið eignarnámsheimild á jörðinni.