04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Sigurður Sigurðsson:

Það þýðir ekki að deila um málið. En því mótmæli jeg hiklaust og algjörlega, að jeg sje kominn inn í þessa »spekulation«, sem háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) var að tala um, og enn fremur mótmæli jeg því, að jeg vilji, að jörðin sje keypt fyrir sem hæst verð. Jeg vil þvert á móti, að jörðin sje keypt fyrir sannvirði, og á þeim grundvelli vil jeg gefa stjórninni umboð til kaupanna.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) virðist hafa vantraust á öllum stjórnum, síðan hann sat sjálfur við stýrið. Jeg fyrir mitt leyti mundi hafa trúað hverri stjórn sem var fyrir þessu máli, og jafnvel honum, þótt ekki geti jeg sagt, að jeg bæri óskorað traust til hans í öðrum málum, meðan hann var við völd. Jeg held, að hverri stjórn mætti treysta til framkvæmda í þessu máli, og þá ekki síður núveranda ráðherra en öðrum.