19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

14. mál, stjórnarskráin

Flutnm. (Sigurður Eggerz):

Áður en jeg vík að tillögu þeirri, sem hjer er til umræðu í háttv. deild, vildi jeg leyfa mjer að minnast örfáum orðum á nokkra þætti úr síðustu sögu stjórnarskrármálsins, en þetta mál og afskifti þingsins af því verður sá hluti hinnar nýju stjórnmálasögu vorrar, sem mun vekja mesta eftirtekt, og sá er grunur minn, að þátturinn, sem verið er nú að vefa í dag, muni á sínum tíma vekja meiri eftirtekt, en ýmsa kann nú að gruna.

Á þinginu 1913 var stjórnarskrárfrv. það samþykt, sem nú er orðið að lögum. Ríkisráðsákvæðinu var slept í frv., en í stað þess sett ákvæði um, að konungur ákvæði, hvar málin væru borin upp. Meiri hluti nefndarinnar í neðri deild, sem fjallaði um málið, talar ekki neitt um, hvar hann búist við að málin verði borin upp, en tekur að eins fram, að hann telji rjett, að það sje tekið beinum orðum fram í stjórnarskrárfrv., að konungur ákveði uppburðinn.

Minni hlutinn í neðri deild tekur aftur á móti fram, að það sje allra hluta sjálfsagðast, að úrskurður sá, sem konungur felli um uppburðinn, sje gjörður á ábyrgð Íslandsráðherrans.

Framsögumaður neðri deildar nefndarinnar mintist, að jeg hygg alls ekki á þetta atriði, en framsögum efri deildar nefndarinnar segir, að úrskurðurinn verði að sjálfsögðu gjörður á ábyrgð Íslandsráðherrans.

Yfirleitt mun óhætt að fullyrða, að Alþingi bjóst fastlega við því, að ákvæðin, sem gjörð yrðu í þessu máli, væri eingöngu gjörð á ábyrgð Íslandsráðherrans, en hins vegar munu margir hafa búist við því, að málin yrðu fyrst um sinn borin upp í ríkisráði. Hefði nú ákvörðun um uppburðinn eingöngu verið gjörð á ábyrgð Íslandsráðherrans, var fengin ótvíræð viðurkenning fyrir því, að uppburðurinn væri sjermál, og að fenginni viðurkenningu, hefði þingið unað við, að málin væru borin upp í ríkisráðinu. Því viðurkenningin var aðalatriðið; breytingin alt af möguleg að henni fenginni.

Þingið 1913 vildi því engan veginn hopa frá hinum sjálfsagða rjetti vorum, að uppburðurinn væri sjermál, sem breyta mætti eftir reglunum um sjermál, en vildi að eins vinna það til, til þess að fá þessa viðurkenningu, að una fyrst um sinn jafnvel við uppburðinn í ríkisráðinu.

En langt er frá því, að í þessari ákvörðun Alþingis felist viðurkenning á því, að uppburðurinn sje eingöngu »formelt teoretiskt« spursmál, því vitanlega vakti það fyrir þinginu 1913, að á sínum tíma yrðu málin tekin út úr ríkisráði, sbr. og vilja þingsins 1911, er feldi ríkisráðsákvæðið úr stjórnarskránni, án þess að gjöra neinar sjerstakar ákvarðanir um uppburðinn.

Næsti þáttur í málinu er ríkisráðsfundurinn 20. okt. 1913. Samkvæmt skilmálum þeim, sem settir voru í því ríkisráði fyrir staðfestingu stjórnarskrárfrumvarpsins, þá var það að vísu svo, að úrskurðurinn um uppburðinn átti að undirritast af Íslandsráðherra einum, en sá böggull fylgdi skammrifi, að sem skilyrði fyrir úrskurðinum var sett það ákvæði, að honum yrði ekki breytt, nema önnur skipun væri gjörð af Ríkisþingi og Alþingi, og um breytingarskilyrðin var gefið út opið brjef í sama ríkisráði. Enn átti að auglýsa þetta í Danmörku.

Um þessar ráðstafanir í ríkisráði 20. okt., hafa staðið harðar deilur, en sá, sem hóf þær einna fyrstur, var núverandi ráðherra. Leit hann svo á, að samningar hefðu verið gjörðir um málið milli forsætisráðherrans og Íslandsráðherra. Eru nú öllum kunnar deilur þessar, og er óþarfi að fara frekar inn á þær að svo stöddu, en eftir deilur þessar, eða mitt í þeim, kom þingið 1914 saman, og hefst þá 3. þátturinn í málinu.

Þingið 1914 vildi slá 2 flugur í einu höggi: vernda sjermálarjett vorn og koma stjórnarskrárfrumvarpinu fram.

Til þess að vinna hvorttveggja, var fyrirvaraleiðin farin. Mun jeg síðar víkja nánar að fyrirvaranum, en læt mjer hjer að eins nægja að taka fram, að fyrirvaraþingið vildi koma málinu í sama horf, eins og þingið 1913.

4. þátturinn í málinu er ríkisráðsfundurinn 30. nóvember 1914. Um hann hafa staðið miklar deilur, og mun jeg ekki fara langt inn á hann að svo stöddu, en læt mjer að eins nægja, að víkja að því, að jeg bar málið þannig fram fyrir konung, að jeg lagði fram fyrirvara Alþingis, kvaðst honum samþykkur, og óskaði með tilvísun til hans, að stjórnarskráin yrði staðfest. Ef konungur hefði ummælalaust staðfest stjórnarskrána, og úrskurður hefði verið gefinn út um uppburðinn, þannig, að í honum hefði staðið að eins, að málin skyldu borin upp í ríkisráði, þá hefði jeg tekið slíkri staðfestingu, með því að jeg hefði litið svo á, að konungur hefði með þögninni gengið inn á fyrirvara Alþingis.

Slík þögn hefði verið samþykki á fyrirvaranum, sbr. og orð núverandi ráðherra á þingi 1914:

»Samþykki konungur stjórnarskrána andmælalaust, þá verður að líta svo á, að hann gangi að kröfum vorum og skoðun í þessu efni«.

En er konungur, í stað þess að staðfesta stjórnarskrána ummælalaust, tekur fram dönsku skilmálana fyrir staðfestingunni, þá mælti jeg svo meðal annars:

»Um leið og jeg verð að halda fast við þá íslensku skoðun, sem felst í þingsályktuninni, að uppburður íslenskra sjermála fyrir konungi sje sjermál, sem ráðið sje til lykta og breyta megi eftir þeim reglum, sem gilda um íslensk sjermál, þá get jeg, svo leitt sem mjer þykir það, ekki lagt stjórnarskrána fram fyrir yðar hátign til staðfestingar, nema það komi um leið greinilega og ljóslega fram, að Ísland haldi þessum sínum gamla rjetti«.

Með öðrum orðum, í ríkisráði 30. nóv. 1914 legg jeg þann skilning í fyrirvarann, að samkvæmt honum sje ætlast til, að konungur gangi inn á hann með þögninni, eða á yfirlýstan hátt. Og þessum skilningi er slegið föstum með yfirlýsingu alls þingsmeirihlutans, sem bar fyrirvarann fram.

Eftir ríkisráðsfundinn 30. nóv. hefjast allmiklar deilur um málið. Sambandsmönnum eða flokksstjórn þeirra þykir jeg hafa gengið lengra en Alþingi ætlaðist til í málinu, og krefst þess, að stjórnarskráin verði staðfest, að því er mjer skilst með þeim boðum, sem mjer voru gjörð í ríkisráði 30. nóv. 1914.

Í hörðum hnapp stendur þar á móti allur þingmeirihlutinn, stuðningsmenn mínir, og eftir þeim móttökum, sem jeg fjekk hjer á landi, liggur mjer við að ætla, að mikill meiri hluti þjóðar þessarar hafi fylgt mjer að málum, en jafn víst er hitt, að Danir voru mjer allir andstæðir.

En hvort sem jeg hefi litið rjett á þetta eða eigi, víst er um það, að málstaður, sem hafði 24 þingmenn að baki sjer, hafði ekki ástæðu til að örvænta, ef fast hefði verið fylgt.

Svo reka viðburðirnir hver annan; foringi minni hlutans er kallaður á konungsfund, 2. þm. Eyf. (H. H.), Þremenningarnir eru kallaðir á konungsfund. Tilboðin koma heim. Einar prófessor Arnórsson verður ráðherra, og síðasti atburðurinn er staðfesting stjórnarskrárinnar 19. f. m.

Jeg vil ekki að svo stöddu draga athyglina frá aðalmálinu, með því að tala um aðferðina í því, en jeg mun halda mjer fast við kjarna málsins, og mun jeg þá sjerstaklega víkja að staðfestingarskilyrðunum. En áður en jeg geng frekar inn á þau, verð jeg enn frekar að minnast á fyrirvara Alþingis.

Um hann hafa staðið harðar deilur. Hann hefir verið talinn loðinn, tvíræður o. m. fl., en þó aðallega af þeim mönnum, sem hafa hallast á sömu sveif og danska valdið í þessu máli. Jeg fæ þó ekki annað sjeð, en að kjarnaatriði fyrirvarans sjeu ljós og ótvíræð; þessi atriði:

»Enn fremur ályktar Alþingi að lýsa yfir því, að það áskilur að konungsúrskurður sá, er boðaður var í fyrrnefndu opnu brjefi, verði skoðaður sem hver annar íslenskur úrskurður, enda geti konungur breytt honum á ábyrgð Íslandsráðherra eins, og án nokkurrar íhlutunar af hálfu dansks löggjafarvalds eða danskra stjórnarvalda«.

Og enn heldur Alþingi því fast, að uppburðurinn framvegis sem hingað til sje sjermál.

Jeg sje ekki annað, en að orð fyrirvarans um þau atriði, sem mestu skifta máli sjeu svo ljós, að á þeim verði ekki vilst, og ekki gjörist þörf að leita í öðrum flokki að skýringum, svo sem í umræðum o. fl. — En þó litið sje í umræðurnar, þá sýna ummæli t. d. formanns stjórnarskrárnefndarinnar og þm. Dal. (B. J.), að viðurkenningar er óskað, en í sumum ræðunum er ekkert að græða á hvoruga hliðina.

En mestu skiftir í málinu, að allur þingmeirihlutinn, eins og jeg tók fram áðan, hefir, með því að fallast á meðferð mína á málinu í ríkisráði, einnig fallist á þann skilning minn á fyrirvaranum, að hann krefði, að konungur með þögninni eða á yfirlýstan hátt, gengi að honum.

Hjá þessu komast þeir ekki, mínir trúu stuðningsmenn, hæstv. ráðherra og hinir þrímenningarnir. Verbum semel emissum irrevocabile volat. Samkvæmt því, sem að ofan er sagt, virðist mjer mega ganga út frá því sem gefnu, að alþingismeirihlutinn, sem allur á nú sæti á þessu háa Alþingi, hafi litið svo á, að fyrirvarinn krefðist þegjandi eða yfirlýstrar viðurkenningar konungsvaldsins. Eftir að hafa gjört þessar fáu athugasemdir um fyrirvarann, vík jeg að því atriðinu, sem mestu skiftir í þessu máli, hvort hæstv. ráðherra hafi fullnægt fyrirvara Alþingis með staðfestingunni, eða með öðrum orðum, hvort þingskilyrðið hafi verið tekið til greina, eða hvort því hafi verið synjað með afskiftum konungsvaldsins af málinu.

Jeg hygg, að allir sje mjer sammála um, að konungur hafi ekki lagt þagnarsamþykki á skilmála Alþingis, því svör konungsvaldsins eru í löngum og miklum umbúðum. Með þögninni hefir konungur ekki gengið inn á fyrirvara Alþingis. Þá er að líta á hitt, hvort konungur hafi á yfirlýstan hátt gengið að þingviljanum. Þó vjer lesum skilmálana dag eftir dag, viku eftir viku, þá myndum vjer ekki finna einn staf í viðurkenningaráttina. Um þetta ættum vjer allir að geta verið sammála. Og jeg býst helst við, að hæstv. ráðherra sje mjer sammála um þetta. En ef svo er, þá er þingskilyrðunum ekki fullnægt sbr. yfirlýsingu alls meiri hlutans um framkomu mína í ríkisráði.

En þá er næst að athuga, hvort fyrirvara Alþingis sje þá ekki synjað með staðfestingarskilyrðum konungsvaldsins.

Sú synjun gæti verið tekin fram berum orðum, þannig, að konungsvaldið segðist ekki taka fyrirvara Alþingis til greina. Slík synjun liggur hjer ekki fyrir. En sú synjun getur líka falist í því, að það, sem sagt sje og aðhafst í málinu af konungsvaldsins hálfu, sje í stríði við fyrirvarann.

Jeg hefi reynt, að athuga þetta mál með eins mikilli stillingu og hægð, eins og mjer er unt, og jeg fæ ekki betur sjeð, en að öll meðferð á konungsúrskurðinum, allar umbúðirnar um hann, sjeu aðrar en þingið ætlaðist til.

Jeg skal leyfa mjer að minnast fyrst á, að forsætisráðherra Dana tekur þátt í umræðunum um staðfestinguna með Íslandsráðherra. Um sumt eru ráðherrarnir sammála, um sumt eru þeir ósammála. Það, sem ráðherrarnir eru sammála um, er, að öll deilan um ríkisráðsspursmálið sje »formel teoretisk« deila. Konungur tekur því næst upp, að um þetta sje enginn ágreiningur. Mjer er ómögulegt að skilja, að Íslandsráðherrann hafi haft heimild til að segja, að spursmálið sje eingöngu »formelt teoretiskt«, því ef svo væri rjett á litið, væri engin praktisk hlið á spursmálinu. En nú sýnir okkar pólitíska barátta, að á þessu máli er ein óneitanlega praktisk hlið, sú hlið, að vjer höfum skoðað það sjálfsagt framtíðarspursmál að taka málin út úr ríkisráðinu, undan danska kontrollinu, en með því að viðurkenna, að spursmálið sje eingöngu »formelt teoretiskt«, þá viðurkennum vjer áframhaldandi rjett Dana, til að hafa kontrol með málum vorum, því strax og málið væri tekið undan kontrollinu, þá væri það orðið mikið meira en »formelt teoretiskt«, þá væri það orðið mjög svo praktiskt spursmál, þá feldi það einmitt fyrst í sjer aðalóskir vor Íslendinga, að vera lausir við alla formlega íhlutun frá danskri hlið. Og sannast mun nú, að dag frá degi munum vjer una verr og verr við þá dönsku íhlutun, nema fullkomin bragarbót verði gjörð. Jeg er sannfærður um, að hæstv. ráðh. hefir með þessari »formel teoretisku« kenningu gengið inn á meira en hann ætlaði sjer að ganga inn á, gengið inn á hluti, sem eru ósamrímanlegir fyrirvara Alþingis. Og undarlega væri þá komið skapi Alþingis, ef það vildi taka undir með ráðherranum og segja: Vjer viðurkennum, að öll ríkisráðsdeilan sje »formelt teoretiskt« spursmál. En þetta ætlast tillögumennirnir í efri deild til, að sú háttv. deild lýsi yfir, en hæstv. ráðh. verður að koma í veg fyrir, að því verði lýst yfir. Þingið 1911 sýnir best af öllu, að oss var fult alvörumál að taka málin alveg út úr ríkisráðinu. Og þó þingið 1913 færi þá millileið í málinu, að fela konungi að ráða uppburðinum, þá var með því meiningin, að fá viðurkenningu konungs á því, að vjer gætum sjálfir með honum ráðið uppburðinum, en á móti því, að málin væru fyrst um sinn borin upp í ríkisráði. Með öðrum orðum, af þingsins hálfu er það sett sem skilyrði fyrir uppburðinum í ríkisráði, að vjer á sínum tíma gætum tekið málin undan danska kontrollinu út úr ríkísráðinu. Og því lagði þingið svo mikla áherslu á það atriði, að úrskurðinum mætti breyta eins og hverjum öðrum konungsúrskurði? Einmitt af því, að það vildi eiga á sínu valdi, að draga málin undan danska eftirlitinu.

En því verr, eins og jeg hefi marg tekið fram, ráðherrarnir eru sammála um, að spursmálið sje eingöngu »tormelt teoretiskt« og konungur vor felst á þetta. En það, sem ráðherrarnir eru ekki sammála um, hvað er þá það? Forsætisráðherrann segir, að danska skoðunin á þessu máli sje sú, að uppburðinum megi ekki breyta, nema jafntrygg skipun komi í staðinn.

Með öðrum orðum, þarna leggur forsætisráðherrann aftur áherslu á það, að eftirlitið, sem nú sje, þurfi að haldast áfram, því sú skipun, sem nú er, er undir eftirliti dönsku ráðherranna. Og enn segir forsætisráðherrann, til frekari áherslu, að eftirlitið þurfi að vera, vegna sambandsins milli Danmerkur og Íslands. Ráðherra Íslands vísar aftur til fyrirvara Alþingis og telur sig þarna hafa mótmælt forsætisráðherranum. Við skulum ganga inn á, að hjer sje um mótmæli að ræða, en hvað skeður svo á eftir? Eftir að hans hátign konungurinn hefir heyrt báða ráðherra sína tala, tekur hann upp orð forsætisráðherrans, þar sem hann lýsir dönsku skoðuninni, og segir, að Alþingi megi ekki búast við, að hann breyti uppburðinum, nema jafntrygg skipun þeirri núverandi sje gjörð. Með öðrum orðum, konungur tekur alls ekki til greina mótmæli Íslandsráðherrans, en tekur þvert á móti upp skoðun forsætisráðherrans. Allir skilmálar konungsvaldsins eru á þá leið, að slá því föstu, að eftirlitið á málunum sje nauðsynlegt. Einmitt á þetta eftirlit leggja Danir aðaláhersluna, og jeg þykist viss um, að Danir mundu ganga inn á, að málin væru tekin út úr ríkisráðinu, ef þessu »formella kontrolli« væri slegið föstu á einhvern hátt. Þeir menn eru til, sem halda því fram, að konungur segi orð sín í ríkisráðinu fyrir eigin reikning, eða með öðrum orðum, að enginn beri ábyrgð á þeim. Ef svo væri, þá gæti krítik á orðunum verið crimen læse majestatis, en konungurinn er vitanlega ábyrgðarlaus, og því hljóta orðin að vera töluð á ráðherra ábyrgð. En á ábyrgð hvaða ráðherra? Væntanlega á ábyrgð Íslandsráðherrans. En ef svo væri, þá neitar konungur með því, að taka fram dönsku skoðunina á ábyrgð Íslandsráðherra, fyrirvara Alþingis, og ef þingið lætur þar við sitja, þá felst það á það, eða afneitar einnig sínum fyrirvara. Aðrir hafa sagt, að Íslandsráðherrann gæti ekki tekið ábyrgð á þeirri skoðun, sem hann í ríkisráðinu hafi rjett áður mótmælt hjá forsætisráðherranum, en þar til er því að svara, að Íslandsráðherrann, eftir að konungur hefir heyrt þau mótmæli, án þess að taka tillit til þeirra, undirritar, og fellur með því frá mótmælunum og beygir sig undir konungsviljann.

En hugsum oss nú, að Íslandsráðherra beri ekki ábyrgð á öðrum orðum konungs en þeim, sem væri í samræmi við skoðun hans — hver ber þá ábyrgð á hinum orðunum? Auðvitað forsætisráðherrann. En ef svo er komið, að konungur tekur ákvörðun í þessu máli á ábyrgð Íslandsráðherrans og forsætisráðherrans, þá sjest best, hvað orðið er af sjermálarjettinum. Og segjum loks, að alt, sem konungur segði, væri á ábyrgð forsætisráðherrans, þá hefir Íslandsráðherrann með undirritun sinni gengið að þeim skilyrðum, sem konungur setur á ábyrgð forsætisráðherrans, og þá er kominn á gamli samningurinn, sem hæstv. ráðherra ámælti Hannesi Hafstein fyrir að hafa gjört í ríkisráði 20. okt. 1913.

Þá er eitt eftir mínum skilningi mjög athugavert í orðum konungsvaldsins, og það er tilvísunin til fyrri ríkisráða; þó hún líti mjög sakleysislega út, þá er jeg sannfærður um, að með henni er verið að byggja brú milli þess, sem nú gjörist og fyrri ríkisráða, og sýnir það, hvað konungsvaldið heldur öllu fast í þessu máli.

Því hefir verið haldið fram, að opið brjef frá 20. okt. 1913 úr sögunni. En hvernig þá? Annað hvort þyrfti að upphefja það, eða þá eitthvað verður að vera í þessum nýju skilmálum, sem útilokar það? En hvað er það í þeim, sem útilokar það? Ekki neitt, sem jeg sje. Hæstv. ráðh. kann nú að segja, að samkvæmt fyrirvaranum hefði ekki verið ætlast til, að afturkalla opna brjefið; það er rjett. En ef fyrirvarinn hefði verið tekinn til greina, þá var opna brjefið þar með óbeinlínis afturkallað; en nú er fyrirvarinn ekki viðurkendur, og því stendur opna brjefið í allri sinni dýrð í fullu gildi.

Hæstvirtur ráðherra er því verr og miður lentur á sama skeri og H. H. En það, sem hann þá skoðaði sem sker, heitir nú höfn. — Hringferðin er fullkomnuð.

En þegar vjer nú litum fljótlega yfir þetta mál, það sem hefir gjörst í því, þá verð jeg að taka fram þau atriði, sem jeg hefi margoft tekið fram, en ekki fyrr en nú á Alþingi.

Hverjar eru kröfur vor Íslendinga í þessu máli?

Vjer viljum ráða einir með konungi uppburði sjermála vorra.

Um þetta deilum vjer ekki.

En um þau goðasvör, sem konungsvaldið hefir gefið oss í hvert skifti, deilum vjer.

Eftir ríkisráði 20. október 1913 taldi H. H. sjermálarjetti vorum borgið.

Vjer Sjálfstæðismenn mótmæltum því allir.

Eftir ríkisráðsfundinn 30. nóv. töldu sambandsmenn sjermálarjetti vorum borgið með svörum konungsvaldsins.

Vjer mótmæltum að sjálfsögðu.

Og nú loks eftir síðasta ríkisráðsfundinn er sami ágreiningurinn um málið.

Með öðrum orðum, svör konungsvaldsins hafa jafnan orkað tvímælis. Um þau hefir verið deilt. Og engin furða er, þótt um þau hafi verið deilt. Svörin hafa verið og eru enn, vafin í svo miklar umbúðir, að menn hafa flækst í sjálfum umbúðunum. Svörin eru þannig vaxin, fela í sjer svo margar lögfræðilegar krókaleiðir, að alls ekki má búast við því, að menn alment geti verið vissir um, hvað felst í svörunum. Er þá rjett, að taka á móti svörunum þannig vöxnum, að þjóðin á erfitt með að skilja, hverju svarað er?

Er ekki með því verið að leggja seinasta úrskurðinn í þessu máli í hendur sjerfræðinganna, lögfræðinganna? Og er það holt fyrir heila þjóð, að eiga sjálfstæðið undir því, hvernig þeir einir líta á málið?

Er ekki sjálfsagðara að fara beinni leiðina, biðja um hrein og ótvíræð svör?

Og er þessu máli yfirleitt svo farið, að svörin gætu ekki verið skýr og ótvíræð?

Vissulega ekki. En sannleikurinn er sá, að óskýru svörin eru neitun rjettarins, því ef viðurkenna ætti rjettinn, þá væru engin útlát að gefa greinileg svör.

Í ríkisráði 30. nóv. lagði jeg málið skýrt fram, og vildi fá skýr svör, — á því fjell jeg sem ráðherra.

En hitt þykir mjer meira umhugsunarefni, ef skýru ótvíræðu leiðirnar hjer í þessu landi verða skoðaðar á sama veg og danska valdið skoðar þær.

Persónulega tek jeg mjer það ekki nærri, — en framtíðarpólitík okkar má ekki við því, að hreinni leiðirnar verði oft snúnar úr höndum vorum.

En er nú ekki síðasta smiðshöggið riðið á í þessu máli? Vissulega, að því leyti til, að stjórnarskráin er staðfest. En hins vegar hlýtur þó nú að ákveðast, eftir afstöðu þingsins til hinna nýju staðfestingarskilmála, að hverju leyti þeir binda landið. Jeg vil hreinskilnislega skýra frá því, að hreinasta, öruggasta, tvímælalausasta leiðin í þessu máli hefði verið sú, að mótmæla skilmálunum og sanna umboðsleysi ráðherrans. En þessa leið hefi jeg ekki farið, af því mjer var ljóst, að svo mikla karlmensku hefir þetta þing ekki, að til neins sje að fara þá leið, enda liggja til þess margar ástæður, sem jeg að svo stöddu mun ekki minnast á.

En í stað þess hefi jeg og meðflutningsmenn mínir komið með þá tillögu, sem hjer liggur fyrir. Tillagan er öryggisráðstöfun. Hún er þannig orðuð, að allir, af hvaða flokki sem eru, sem vilja fara varlega í málum vorum út á við, geta greitt atkvæði með henni.

Tillagan fer fram á það, að háttv. Nd. lýsi landið óbundið af öðrum skilmálum fyrir staðfestingu stjórnarskrárinnar en þeim, er felast í fyrirvara Alþingis.

Það er allra hluta sjálfsagðast, að vjer, sem lítum svo á, að Alþingisfyrirvaranum sje ekki fullnægt, leggjum mikið kapp á, að tillagan sje samþykt; það er allra hluta sjálfsagðast, að þeir, sem eru í vafa um, hvort skilyrðunum sje fullnægt, greiði atkvæði með þessari tillögu. En þá er loks að líta á, hvernig afstaða þeirra manna verður til tillögunnar, sem fullvissir eru um, að fyrirvaranum sje fullnægt. Jeg hefi reynt að setja mig í þeirra spor, og þá sjerstaklega í spor hæstv. ráðherra.

Einnig frá þessu sjónarmiði virðist mjer allra hluta sjálfsagðast, að tillagan sje samþykt, því að bæði er nú svo, að öllum getur skjátlast í skoðunum sínum, og svo er hitt, að það væri óneitanlega ákjósanlegt fyrir hverja stjórn sem er, og fyrir Alþingi alt, að þau yrðu málalokin, að engum stæði óbugur af þeim.

Svona horfir málið áreiðanlega við, þegar litið er á það með landsheill fyrir augum; en hvernig það lítur út, eftir flokksáhuganum, það get jeg ekki dæmt um.

En í svona málum eiga flokkadeilurnar að víkja fyrir landsheillinni; í svona málum ber hverjum ráðherra sjerstaklega að vera ráðherra alls landsins.

Enn þá á seinasta augnabliki treysti jeg því, að þessi háttv. deild samþykki þessa öryggisráðstöfun.

Sú von byggist aðallega á því, að jeg treysti því, að háttv. deild, þegar í alvöruna er komið, muni sjá, að skylda vor allra er, að láta ekki undir höfuð leggjast, að gjöra nokkra þá röðstöfun, sem gjöri aðstöðu vora öruggari.

Í sjálfstæðismálum vorum eigum vjer vanalega Dani á móti oss í einum hnapp.

Ef vjer bærum giftu til að standa allir saman um áhugamál vor gegn erlendu valdi, þá værum vjer lengra komnir en nú er raun orðin á.

Getur þessi tillaga ekki sameinað oss, þessi tillaga, sem er eingöngu öryggisráðstöfun, og borin fram með þeim einlæga huga, að styðja afstöðu vora út á við?

En hvernig sem málinu reiðir af hjer í háttv. deild, um eitt er jeg viss, ef þjóðin ætti að greiða atkvæði um till. þessa, þá er enginn vafi á því, hvernig atkvæðin fjellu.

Hjer stöndum vjer nú, fulltrúarnir, í nafni þjóðarinnar. Vjer höldum nú seinasta þættinum í þessu máli í höndum vorum.

Á þessi þáttur að verða að sterkum lið í sjálfstæðisbaráttu vorri, sem síðar megi vitna til — eða á hann að vagga oss inn í andvaraleysið og vefja oss fastar og fastar inn í umbúðirnar, sem erlent vald hefir vafið um sjálfstæðisóskir vorar?

Jeg treysti því, að þegar atkvæði falla í þessu máli, gleymum vjer öllu öðru en því, að landið á í hlut.

Svo endurtek jeg það — þessi tillaga er komin fram að eins sem öryggisráðstöfun, hefir ekkert annað mark.