19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

14. mál, stjórnarskráin

Sigurður Gunnarsson:

Jeg er ekki fær um, nú sem stendur, að fara mörgum orðum um tillögu þá, sem hjer liggur fyrir. Enda gjörist þess naumast þörf. Jeg hefi reynt að fylgjast með í því, sem talað hefir verið og ritað um ríkisráðsdeiluna, bæði áður en stjórnarskráin var staðfest 19. júní s. l. og síðan. Mjer hefir ekki dulist, að rökfærsla háttv. flytjenda og fylgismanna till., sem fyrir liggur, hefir stefnt öll að því, að reyna að sanna, að hæstv. ráðherra hafi ekki gætt þess, um leið og stjórnarskráin var staðfest, að fyrirvara Alþingis væri fullnægt, og að hann hafi þar með hreint og beint stefnt landsrjettindum vorum í voða. Hin eina rökrjetta niðurstaða af þessari rökfærslu hefði áreiðanlega verið sú, að hv. tillögumenn hefðu komið hjer á þinginu fram með beina vantraustsyfirlýsingu á ráðherrann, og staðið og fallið með henni. Jeg vil segja, að frá þeirra sjónarmiði hafi það verið bein skylda þeirra. En að koma með slíka tillögu, sem hjer liggur fyrir, tel jeg þeim tæplega samboðið, og í fullkomnu ósamræmi við alla rökfærslu þeirra, bæði nú og áður.

Jeg sagði áðan, að tillögumenn hefðu, að mínu áliti, rangt fyrir sjer. En setjum nú samt svo, að þeir hefðu rjett fyrir sjer; þá er mjer spurn: Á hvern hátt gæti tillaga þeirra bætt úr skák? Staðfesting stjórnarskrárinnar er þegar orðinn hlutur, og það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann. En mín skoðun er sú, eins og jeg hefi oftar en einu sinni tekið fram, að tillögumönnum skjátlist, enginn skaði sje skeður við staðfestinguna 19. júlí, landsrjettindum vorum sje ekki teflt í voða, og fyrirvara Alþingis fullnægt. Að fara að hafa yfir aftur öll þau skýru rök, sem fyrir þessu eru færð fyrr og nú, álít jeg óþarft. Get að miklu leyti látið mjer nægja að skírskota til þeirra. Jeg fæ ekki annað sjeð en konungsúrskurðurinn um uppburð málanna í ríkisráði, sje algjörlega íslensk stjórnarráðstöfun, eins og Alþingi ætlaðist til, og sem breyta má á sama hátt og hún er til orðin — með undirskrift Íslandsráðherra eins, ásamt konungi. Efni konungsúrskurðarins er stutt og ljóst, sem sje þetta, að íslensk lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skuli borið upp fyrir konungi í ríkisráði hans framvegis, eins og hingað til. Svo mörg eru þau orð og ekki fleiri.

Auglýsingin til Dana með undirskrift forsætisráðherrans danska, er fallin burtu. En hún var aðalþrætueplið eftir ríkisráðsfundinn 20. okt. 1913. Jeg fæ því ekki annað sjeð, en að tillaga háttv. flutningsmanna sje bæði þýðingarlaus og óþörf, nema ef hún á að vera dálítil títuprjónsstunga til hæstv. ráðherra, og þá jafnframt fylgismanna hans.

Þar sem því tillagan er bæði í ósamræmi við alla aðferð og rökfærslu tillögumanna, og óþörf frá mínu sjónarmiði, þá álít jeg rjettast að víkja henni hægt og rólega á bug, og skal jeg leyfa mjer að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá, sem jeg vænti að verði borin undir atkvæði að umræðum loknum:

Sökum þess, að neðri deild Alþingis telur staðfestingarskilmála stjórnarskrárinnar 19. júní 1915 í fullu samræmi við fyrirvara Alþingis 1914, lýsir deildin ánægju sinni yfir staðfestingu stjórnarskrárinnar og tekur fyrir næsta mál á dagskrá«.

Jeg vildi ekki draga það lengur, að koma fram með þessa tillögu, til þess að háttv. deild gæti áttað sig á því sem fyrst, hvort hún teldi ekki rjett, að taka þessari þingsályktunartillögu á þenna hátt, er jeg nú legg til.