19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

14. mál, stjórnarskráin

Flutnm. (Sigurður Eggerz):

Eiginlega skyldi maður ætla, eftir þær umræður, er fram hafa farið, að flutningsmaður hefði mörgu að svara, en svo er ekki, því að mjer virðist alt óhrakið, er jeg hefi sagt. Hæstv. ráðherra sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum. Búist við stórskotahríð, að farið yrði grenjandi og bitið í skjaldarrendur. Jeg veit ekki, hví hann hefir haft þessar vonir. Jeg held, að samviskan hafi verið óróleg síðustu nótt, og hafi því framleitt þessar geigvænlegu myndir í huga hans. Hann veit, að jeg hefi ætíð talað stillilega, því fyrir mjer vakir einungis, að gjöra það, sem jeg tel rjett í málinu.

Þegar jeg tók við ráðherraembættinu, fylgdi það með, að jeg varð að flytja þetta mál fyrir konungi. Menn vita, hvernig það gekk. Það var kallað strand. En nú hefi jeg orðið að berjast við ýmsa menn hjer heima, ekki af persónulegum ástæðum, heldur af því, að þeir hafa farið hringsnúning í þessu máli. Ráðherra þarf ekki að ætla, að jeg gjöri þetta af persónulegum ástæðum. Jeg öfunda hann alls ekki af ráðherrastólnum, og síst af þeim stuðningi, er hann nú hefir — Heimastjórnarstuðningnum. Því jeg efa ekki, að Heimastjórnarflokkurinn muni búa honum veglega hvílu.

Jeg efast ekki um það, annað eins og hæstv. ráðh. hefir gjört fyrir Heimastjórnarflokkinn. Mjer dettur í hug út af því maður, sem hjet Prokrustes. Hann var ákaflega gestrisinn, svo, að hverjum þeim, er hann sótti heim, ljet hann til reiðu hvílu sína. Og þessu fylgdu engir ókostir, aðrir en þeir, að kubbað var neðan af fótum þeirra, sem voru lengri en rúmið, en hinir teygðir, sem styttri voru, uns þeir voru jafnlangir því. Jeg vildi að eins benda hæstv. ráðherra á það, vegna gamals kunningsskapar, að hann skuli vara sig á því, ef hann yrði einhvern tíma lagður í Heimastjórnarhvíluna. Þá gæti svo farið, ef berserksgangur kæmi á þá góðu menn, og ef þeim þætti hann of frekur, að þá kubbuðu þeir af honum hans pólitísku fætur. Og ef hann þætti of stuttur, ja, þá yrði hann teygður og teygður.

Það mun ekki eiga við, að koma með alt of margar líkingar hjer, en nú dettur mjer þó í hug önnur. Það var þegar hann Per Gynt átti kost á því, að verða tengdasonur Dofrakóngsins. Honum þótti að vísu upphefð í þessu, en það fylgdu því svo margir, ansi skrítnir skilmálar. Fyrst og fremst átti hann nú að ganga með rófu, og hann hafði reyndar ekki svo mikið á móti því, en þegar bölvaður karlinn vildi líka fara að stinga úr honum augun, þá þótti Pjetri nóg komið af svo góðu. Skökku augun fældu hann frá tengdunum. Jeg segi nú þetta ekki af því, að jeg telji Heimastjórnarflokkinn neinn tröllaflokk, heldur er það að eins til að benda hæstv. ráðherra á, að ýmsar skyldur kunna að fylgja hinum virðulegu tengdum við Heimastjórnarflokkinn.

Hæstv. ráðherra mintist á till. þá, er fyrir liggur, og taldi hana meira en öryggisráðstöfun; taldi, eins og hv. þm. Snæf. (S. G.), að í henni fælist títuprjónsstunga til sín (ráðh.). Þótt nú svo væri, sem ekki er, þá ætti það að vega meira hjá honum, sem til gagns og friðar horfir fyrir landið, ef tillagan yrði samþykt, en hitt, þótt hann yrði sjálfur fyrir einhverri lítilfjörlegri títuprjónsstungu. En auk þess hafði jeg þegar tekið það fram í framsögunni, að till. væri ekkert annað en öryggisráðstöfun, og það er undarlegt, að geta ekki skilið það, að nokkur þingm. geti komið fram með tillögu, er eingöngu miði til tryggingar fyrir landið. Það er eins og það væri sá eini leiðandi kraftur í okkar pólitík, að hefna sín á ráðherrum. Jeg játa það, að jeg hefði talið það öruggustu leiðina, að sanna umboðsleysi hæstv. ráðherra, en þar sem hitt lá um leið í augum uppi, að þingið er nú svo skipað, að ekkert viðlit hefði verið að koma slíku fram, þá er næstbesta leiðin valin af praktiskum ástæðum. Og jeg er í engum vafa um það, að ef Danir halda einhverju öðru fram en vjer um staðfestingarskilmálana, þá getur þingið ætíð hnekt því, með því að vísa til þessarar till., verði hún samþykt.

Það kom dálítið flatt upp á mig, að hv. 2. þm. Rvk. (J. M.) skyldi fara að læða því fram hjer í deildinni, að þessi tillaga væri veiðibrella; væri ætluð til þess að veiða menn. Væntanlega hefir átt að liggja í því, að hún væri eitthvað hættuleg, en við skulum þá athuga það, hverjum hún gæti gjört mein, þótt hún yrði samþykt.

Það er nú óhugsandi, að nokkur maður geti orðið særður af þessari tillögu, nema að eins einn, sem sje hæstv. ráðherra, og ætti hann þó jafnvel ekki að verða það, þegar hann sjer, að hún er í fullri einlægni fram komin frá nokkrum þingmönnum, sem líta svo á, að staðfestingarskilmálarnir fullnægi eigi fyrirvara þingsins í fyrra. Hann ætti að hugsa málið betur, því að honum hlýtur þó að vera það áhugamál, að sem best sje frá því gengið, svo að allir geti orðið ánægðir. Og það er alveg voði, ef þingið fellir nú þessa tillögu af hræðslu við það, að hæstv. ráðh. kunni að finnast hann þar fá einhverja örlitla títuprjónsstungu. Það get jeg fyrir mitt leyti ekki kallað annað en samviskuleysi, því að jeg veit, að hjer eru þó nokkrir menn í deildinni, sem ekki geta sagt um það með vissu, hvort fyrirvaranum sje fullnægt eða ekki. Þetta er ekki sagt til að móðga þá að neinu leyti, en hjer er um svo flókna lögfræðilega möguleika að ræða, að það er óhugsandi fyrir aðra en sjerfræðinga, að ráða úr þeim til hlítar. Og þegar þeir rífast nú jafnvel um þá innbyrðis, hvernig eiga þá hinir að vera fullvissir? Þeirra fullvissa hlýtur að vera trú og ekkert annað, og þegar svo er, þá er það óverjandi, að sýna ekki þá varkárni, að samþ. þessa tillögu.

Um það, sem hæstv. ráðherra sagði um ríkisráðsákvæðið frá 1903, þarf jeg ekki margt að tala. Ef hann vildi byggja á því, þá hefðu sömu ástæðurnar gilt um það, sem gjörðist í ríkisráði 20. okt. 1913, og þá engin ástæða verið til þess að finna að því. En jeg kannast yfirleitt ekki við það, fremur en hann hefir gjört, að vjer sjeum innlimaðir með ríkisráðsákvæðinu í stjórnskipunarl. 3. okt. 1903.

Hann sagði, að það stæði hvergi skrifað, að uppburður sjermálanna í ríkisráði hefði eingöngu átt að vera til bráðabirgða. Að vísu er ekki hægt að sanna þetta bókstaflega, en í þessu efni nægir að vitna í öll gögn málsins yfirleitt, sem sýna, hvað vakað hefir fyrir þinginu.

Jeg vil enn víkja að því, sem hæstv. ráðh. hefir enn eigi gefið neitt fullnægjandi svar við. Jeg endurtek það, og legg áherslu á það, að hann hafði engan rjett til þess að segja, að það, sem vjer höfðum á móti uppburði sjermálanna, væri að eins »formelt teoritiskt«, svo framarlega sem það er rjett, sem jeg hefi sagt, að það hafi vakað fyrir þinginu, að taka málin undan dönsku eftirliti. Hæstv. ráðh. getur aldrei komist fram hjá því, að svo framarlega sem uppburður sjermálanna í ríkisráðinu er andstæður rjetti, sem Íslendingar telja sinn, þá er hann annað og meira en »formelt teoretiskt spursmál«.

Mjer skildist svo á hæstv. ráðherra, sem hann vildi gjöra lítið úr skýrleik fyrirvarans. Jeg veit að deilt hefir verið um það, hvað í honum felist, en það er óþarfi, því að hann er ótvíræður. Þau orðin, sem máli skifta, eru svo ljós, að á þeim verður ekki vilst. Það er ómögulegt að villast á því, að hann heimtar það, að breyta megi hinum væntanlega konungsúrskurði eins og hverjum öðrum konungsúrskurði, og að hann í öðru lagi ætlast til, að málið haldi áfram að vera íslenskt sjermál. Ekki er heldur hægt að villast á því, hvern skilning háttv. meiri hl. þingsins, sem á sínum tíma studdi mig svo drengilega, hafi lagt í fyrirvarann. Þegar gengið er inn á það, að framkoma mín í ríkisráðinu hafi verið rjett, þá hlýtur það að vera viðurkent, að jeg hafi að minsta kosti haft rjett fyrir mjer í kjarnaatriðum málsins, en þau voru þessi, að gjöra sig ekki ánægðan með minna en þegjandi samþykki konungs, með því að í því felist viðurkenning á fyrirvaranum. En þegar hann í þess stað tekur fram dönsku skilmálana, þá varð að krefjast þess af ráðherra, að hann ljeti það koma skýrt fram, að það var ekki samrímanlegt við kröfur vorar.

Það getur verið, að einhverjir iðrist þess nú, að hafa stutt mig þá, en með traustsyfirlýsingunni var þessu nú einu sinni slegið föstu, og yfirlýsingin getur skoðast sem »autentisk« skýring á fyrirvaranum.

Um eftirlitið þarf jeg ekki að segja fleira en jeg hefi sagt. Það verður að gjöra mun á »formellu« eftirliti, sem vjer getum aldrei viðurkent, og »faktisku« eftirliti. Jeg veit það, að hvar sem sjermálin yrðu borin upp fyrir konungi, þá yrði ef til vill aldrei girt fyrir það, að Danir hefðu »faktiskt« eftirlit með þeim. Við það getur enginn ráðið, hvort hans hátign, konungurinn, vill spyrja einhvern í hljóði, hvað honum lítist um það og það mál. En »formelt« eftirlit megum vjer ekki viðurkenna, og þess vegna hefir hæstv. ráðherra ekki leyfi til að segja, að ríkisráðsspursmálið sje eingöngu »formelt teoretiskt«.

Um opna brjefið skal jeg að eins segja það, að hæstv. ráðh. hefir ekki heldur getað sannfært mig í því efni. Til þess að opna brjefið fjelli úr gildi, þurfti það annaðhvort að vera upp hafið beinlínis, eða þá eitthvað annað að vera tekið fram, sem útilokaði gildi þess. Nú vita allir, að það hefir eigi verið beinlínis upp hafið, og því fer svo fjarri, að nokkuð gjörðist á ríkisráðsfundinum í vor, sem útilokaði gildi þess, að bæði forsætisráðherra og konungur segja, að konungsúrskurðinum verði eigi breytt, nema önnur jafntryggileg skipun verði á gjörð, og það stendur hvergi, hver eigi að gjöra þá skipun, ef til kæmi; það gæti einmitt staðið í opna brjefinu. Það kann að vera, að það hafi ekki verið ætlun þingmeirihlutans, að heimta opna brjefið kallað aftur, en ef gengið var inn á fyrirvarann, þá var það óbeinlínis afturkallað.

Um þingmálafundina, sem hæstv. ráðherra var vitna í, er það að segja, að jeg efast um, að málstað hans sje jafnmikill stuðningur að þeim, og hann heldur. Sannleikurinn var sá, að málið var mjög lítið undirbúið undir þá fundi. Við vorum t. d. á einum fundi uppi á Akranesi, hæstv. ráðherra og jeg, og þar fjekk hann eitthvað um 20 atkv. sjer til stuðnings, eftir að við vorum búnir að berjast svo, að við höfðum með löngum ræðum ýtt burt af fundinum um 80 manns af kjósendum.

Svo var hæstv. ráðherra eitthvað að tala um vantsstígvjel, en jeg verð að biðja hann fyrirgefningar á því, að jeg man ekkert í hvaða sambandi það var. (Ráðherra: Það gjörir ekkert til).

Jeg man svo ekki fleira, sem jeg þurfi að svara hæstv. ráðherra, en vil að eins taka það fram, að mjer er það full alvara að óska þess, að það væri hann, sem hefði rjett fyrir sjer í þessu máli, en jeg rangt. Það væri best fyrir landið. En því er nú verr og miður, að það er öfugt.

Þá kem jeg að háttv. þm. Snæf. (S. G.), sem hjer hefir borið fram rökstudda dagskrá. Hann var hissa á því, að till. frá okkur var svona væg. Jeg er sannfærður um það, að jafn sanngjarn maður, og þessi háttv. þm. er, hlýtur að skilja það, að margir menn hljóta að leggja aðaláhersluna á það, sem þeir hyggja, að bjargað geti landinu, en ekki hitt, sem hann kallar títuprjónastungur. Hann talaði um, að þetta væri að byrgja brunninn of seint, en jeg er hræddur um, að hann hafi sjálfur dottið í ráðherrabrunninn. Sannleikurinn er sá, að það er enn ekki of seint áð byrgja brunninn. Ef svo væri, þá hefði jeg aldrei komið fram með þessa tillögu. En einmitt af því, að enn er hægt að gjöra þessa öryggisráðstöfun, þá taldi jeg mjer skylt að koma fram með hana.

Jeg skal játa það, að mig furðar á þessari rökstuddu dagskrá, því að ef slíkt yrði samþykt hjer, sem jeg þó vona enn að ekki verði, þá þýddi það ekkert annað en það, að slá öllum þeim skilmálum föstum, sem hæstv. ráðherra fjekk stjórnarskrána staðfesta með.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) gekk inn á þessa gömlu deilu, sem staðið hefir milli Heimastjórnar- og Sjálfstæðisflokksins um skilmálana, alla tíð síðan jeg kom frá Kaupmannahöfn. Jeg ætti nú líklega að biðja hæstv. ráðh. að svara þessu fyrir mig, því að hann barðist svo vel á móti skoðunum andstæðinga okkar í því máli. En af því að jeg veit ekki, hvort sambandi hans er nú svo varið við Heimastjórnarflokkinn, að hann vilji gjöra það, þá býst jeg við, að jeg verði að gjöra það, en lítið þó, því að málið hefir verið svo mikið rætt í blöðunum. Kjarnaatriðið er þetta, að ef jeg hefði gengið að skilyrðum konungs fyrir staðfestingunni, með því að undirskrifa stjórnarskrána þá, þá var enginn vafi á því, að þingskilyrðin hefðu þar með verið útilokuð. Þingið heimtaði að konungsúrskurðinum mætti breyta á venjulegan hátt, en konungsskilmálarnir voru þeir, að honum yrði ekki breytt, nema önnur skipun yrði gjörð á sambandinu. Það er eiginlega óþarfi að segja nokkuð meira en þetta, því að í þessu felst alt saman. En jeg get þó ekki stilt mig um að taka það fram í sambandi við þetta, að jeg held, að eftir þennan ríkisráðsfund hafi Sambandsflokkurinn tekið aðra stefnu en æskilegt hefði verið. Því að þegar svo er komið málum, að búið er að synja um staðfestingu laga, er þingræðisráðherra hefir borið fram, þá virðist það eðlilegast, að öll þjóðin komi sjer saman um það, án flokksgreinarálits, að knýja fram staðfestinguna. Og vjer þurfum aldrei að hugsa til þess, að fá málum vorum framgengt í Danmörku, án þess að vjer sjeum allir samhuga. Meðan vjer erum svo deildir, að danska valdið veit það, að það getur snúið sjer til eins flokks hjer til liðveislu við sig gegn öðrum, þá er engin von á því, að vjer getum það. Og jeg er nú kominn á þá skoðun, að vjer eigum sem minst að hætta oss út í ágreiningsmál við Dani, því að vjer höfum, enn sem komið er, ekki nóg þol til að halda þeim fram eins og þörf væri á.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) mintist á það, að jeg hefði reynt að koma of nálægt tilfinningum manna hjer. En jafnvel þótt jeg hefði eitthvað komið við þær, þá álít jeg það ekki skaða, því að þær tilfinningar manna eru vanalega hreinastar, sem þeir ala í brjósti sjer fyrir landi sínu og velferð þess, og því rjettara að taka tillit til þeirra, en tilfinninga gagnvart flokki eða ráðherra.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að tala meira að svo stöddu; jeg gjöri ráð fyrir, að jeg fái oftar tækifæri til þess. En jeg endurtek það, að jeg vona það enn á seinustu stundu, að menn verði einhuga um þessa öryggisráðstöfun gegn erlenda valdinu. Eftir því þurfa þeir aldrei að iðrast.