20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

14. mál, stjórnarskráin

Jón Jónsson:

Jeg verð að segja nokkur orð, til að gjöra grein fyrir minni skoðun um ríkisráðsdeiluna, sem þegar er orðin nokkuð löng, og varla mun þó verða á enda kljáð fyrst um sinn.

Fyrst þegar stjórnarskrá vorri var breytt 1903, var ríkisráðsákvæðið tekið upp í hana, þegar vjer fengum sjerstakan ráðherra, búsettan hjer á Íslandi. Þá hófust þegar deilur um málið. Landvarnarmenn hjeldu því fram, að með þessu væri játað gildi grundvallarlaganna dönsku hjer á landi, og vjer þar með innlimaðir í danska ríkið. Þessi stefna hafði nú ekki fylgi á þingi, þar fylgdi henni ekki nema einn maður, og jeg man, að Ísafold kallaði hana þá »sjerkreddu«, og þjóðræðismenn, sem nú kalla sig sjálfstæðismenn, fjellust ekki á hana. — Jeg tel það nú að vísu rjett, að með þessu hafi ekki verið játað gildi grundvallarlaganna, en hins vegar hefði það verið æskilegt, að þetta ákvæði hefði aldrei verið tekið upp í stjórnarskrána, svo illan dilk sem það hefir dregið á eftir sjer. Þá þyrftum við ekki að vera að rífast um það núna.

1911 var aftur samþykt stjórnarskrárbreyting, þar sem þetta ákvæði var felt burt. Þá virtust allir vera orðnir einhuga um að breyta þessu, sem þingið 1903 hafði talið gott og gilt, en þá kom ekki til mála að stjórnarskrárfrv. fengist staðfest, ef svo væri að farið. Og hvernig fór nú svo? Málið lá í salti, þangað til á þingi 1913, þá kom miðlunin. Við vorum orðnir svo vanir því, að gjöra uppköst að samkomulagssamningum við Dani, og þetta var nú eina leiðin, sem mönnum hugkvæmdist þá. Jeg verð nú að kalla það axarskaft, að við fórum að reyna nokkurn milliveg, enda sjáum við nú afleiðingarnar. Við höfum síðan átt í miklum deilum út af málinu og haft tvisvar ráðherraskifti, og höfum ekkert upp úr öllu saman. Auðvitað áttum við annaðhvort ekkert að gjöra, eða þá að halda málinu til streitu þing eftir þing. Það hefði getað rekið að skilnaði á þann hátt, en það virðast menn ekki hafa tekið með í reikninginn alment, eða búið sig undir það. En það hefðum við einmitt endilega þurft að gjöra okkur ljóst.

Jeg lít nú svo á, að það hafi ekki verið ætlun þingsins 1913, að heimta, að Danir viðurkendu það, að uppburðurinn væri sjermál, heldur hafi þetta verið gjört í þeirri veru, að þægilegra yrði að fá breytingu á eftir. Ráðherra segði einhvern tíma við konung, að nú neituðum við að láta bera málin lengur upp í ríkisráðinu. En hjer ber alt að sama brunni. Konungur gat alveg eins neitað þá, og svo orðið þref, þangað til annarhvor ljeti undan. Jeg get ekki sjeð, hvaða munur er á því, þótt þetta sje lagt á vald konungs. Það er ekki rjett hjá hv. flutningsm. (S. E.), að það hafi vakað fyrir þinginu í fyrra, að fá þetta viðurkent sem sjermál, heldur verður að líta á það, að við höfðum heykst 1911, og þess vegna var farið að reyna þessa miðlun.

Þá er að líta á umræðurnar í ríkisráðinu eftir þingið 1913. Þær hafa valdið miklum deilum, og jeg er einn af þeim, sem álíta þær varhugaverðar. Hv. 2. þm. Rvk. (J. M.) sagði í gær, að hann og Heimastjórnarflokkurinn álíti, að slíkt væru firrur, og að við blönduðum þar saman tveim stjórnarráðstöfunum, íslenskri og danskri, opna brjefinu til okkar og auglýsingunni til Dana. Þetta álít jeg ekki rjett. Hann segir, að auglýsingin sje þýðingarlaus fyrir okkur, en það er hún ekki, því að þótt hún sje önnur ráðstöfun, þá er hún þó bygð á þeirri Íslensku, og þá hjeldum við því fram, að þarna væri að myndast samningsgrundvöllur. Og allir muna, hvernig ákvæði þess væntanlega samnings voru; að þar var ákveðið, að uppburðarstaðnum mætti ekki breyta, nema samþykt verði ný sambandslög af beggja hálfu. Þarna var komið ákveðið skilyrði, sem ætlast var til, að íslensk stjórnarvöld segðu að skyldi gilda. Það er nú athugavert, að við höfum engan, til að tala máli okkar í ríkisráðinu, nema ráðherra einn, og urðum því að hlíta því, sem þessi umboðsmaður gjörði þar fyrir okkar hönd. Jeg vil benda á það, að Danir hafa fyrri lagt áherslu á það, að við stæðum við orð okkar, eða rjettara sagt hans. Það var þegar Hannes Hafstein ráðherra hafði gefið þeim vilyrði um að vekja máls á því við þingið, að þeir skyldu fá hluta af botnvörpusektunum, en þingið svo vildi ekki heyra það. Þá risu þeir upp öndverðir og töldu þetta samningsrof. Þeir höfðu að vísu ekki rjett til þess, en þeir kölluðu svo samt, og ef þeir gjörðu það, þá höfðu þeir að minsta kosti miklu meiri ástæðu til að gjöra það um hitt, sem jeg nefndi áðan.

Þá sagði hv. 2. þm. Rvk. (J. M.) að það væri ekki víst, að ráðherrar þyrftu ætíð að bera ábyrgð á orðum konungs, og það er rjett, ef ekki er framkvæmd nein stjórnskipuleg athöfn. Þess þurfti t. d. ekki í ríkisráðinu 30. nóv. 1914, því að þá strandaði málið. En ef mál er afgreitt, þá verður einhver ráðherra að bera ábyrgð á því.

Svo vil jeg minnast á fyrirvarann. Jeg hefi aldrei skoðað hann annað en mótmælaskjal. Jeg verð að álíta, að þingið í fyrra hafi ekki fremur en þingið 1913 litið svo á, að viðurkenningar væri beinlínis að vænta frá Dönum, heldur að eins viljað halda fast við það, að við álitum málið sjermál. Þetta kemur fram í mínum fyrirvara, og fyrir mjer vakti ekki annað en það, að breytingar á uppburði sjermálanna yrðu engu skilyrði bundnar.

Svo kemur nú ríkisráðsfundurinn 30. nóv. 1914. Þá flutti Sigurður Eggerz ráðherra málið, og fórst það skörulega; um það vorum við allir sammála, flokksmenn hans, eins og sjálfsagt var. Þegar konungur og Danir vildu ekki í neinu víkja frá fyrri skoðunum, þá hlaut ráðherra að neita að bera upp stjórnarskrána til staðfestingar.

Þá er að líta á ríkisráðsfundinn 19. júní í ár. Þar hefir nú ýmislegt gjörst öðruvísi en áður, og um það erum við nú að rífast. Það lítur út fyrir, að sumir menn sjeu ekki enn ánægðir með það, hvernig málið gekk þar fram, og hefi jeg nú reynt að hugsa um það dálítið. Jeg lít nú að vísu svo á, að nú sje ekki að óttast dönsku auglýsinguna framar, og skilyrðunum því breytt að því leyti. En hins vegar dylst mjer það samt ekki, að hjer eru enn sem fyrr skilyrði sett fyrir breytingunum á uppburðarstaðnum, en stefna þingsins frá 1913 og 1914 var sú, að þar fyrir yrðu engin skilyrði sett. Og ekkert annað er komið í staðinn, engin viðurkenning, og sje jeg því ekki annað, en að jafn langt sje til breytinga sem áður. Jeg hefi reynt að líta á mál þetta hlutdrægnislaust, og hefi fylgt því með áhuga, og jeg get ekki sjeð, að það sje samkvæmt vilja þingsins, að konungur ákveði, að þessu verði ekki breytt í sinni stjórnartíð. Þetta er óaðgengilegt; þá getum við ekki hreyft okkur alla þá stund, sem konungur vill ekki leyfa það.

Hvað hinu liður, hvert gildi orð forsætisráðherrans og umræðurnar í ríkisráðinu yfirleitt hafa, er álítamál. Jeg fyrir mitt leyti tel það mjög vafasamt, að sú skoðun á málinu, er þar kom fram, sje bindandi fyrir oss Íslendinga. Annars er það merkilegt, hvað Danir líta einkennilega á þetta mál. Jeg fæ ekki sjeð annað en að það hefði verið útlátalaust, að staðfesta stjórnarskrána þegjandi og hljóðalaust. Hverju hefðu Danir slept? Ekki neinu. Málið hefði þá fengið hvíld um sinn. En ef við hefðum svo farið að fitja upp á því, að fá málin út úr ríkisráðinu, þá fyrst hefði verið kominn tími til þess fyrir Dani, að taka það til athugunar og gjöra sínar athugasemdir. En hjer var alls ekki um það að ræða, að taka málin út úr ríkisráðinu. Danir hafa sýnt hjer, eins og svo oft áður í ýmsum öðrum málum, óþarfa stífni og vakið óþarfa þjark um málið. Og þeir munu sanna, að þeir vinna ekki hug okkar og hjörtu með þannig lagaðri framkomu gagnvart Íslendingum.

Jeg sagði, að það gæti verið vafa undir orpið, hvernig litið yrði á ríkisráðsumræðurnar, og hver skoðun yrði í þær lögð. Danir vilja vitanlega láta líta svo út, sem við höfum slakað til, og gengið inn á þá skoðun, að þeir ættu að eiga hlutdeild í því, hvar mál vor væru borin upp fyrir konungi. Ef Danir breiða þessa skoðun út um heiminn, þá finst mjer ekki mega minna vera, en að vjer sláum varnaglann, og lýsum yfir því, að þetta hafi ekki verið meiningin. Og það er einmitt tillagan, sem hjer liggur fyrir, sem á að fyrirbyggja það, að Danir breiði út þessa skoðun. Jeg er ekki að segja, að þeir gjöri það, en það er hugsanlegt, og allur er varinn bestur.

Jeg ætla ekki að tala mikið um skipun þingsins núna, í sambandi við þetta mál. Að eins skal jeg geta þess, að jeg tel það ekki skifta miklu máli, þó að meiri hlutinn hafi klofnað um málið. Það út af fyrir sig er ekki stórmál í raun og veru. Hitt skiftir meiru, hver stefna þjóðarinnar er í stórpólitíkinni. Á vilja þjóðarinnar byggist skipun þingsins í framtíðinni. Og jeg lít svo á, að nú sje þjóðin meir og meir að falla frá sambandsstefnunni, en hallast aftur á móti að skilnaði. Og jeg hygg, að þess verði ekki langt að bíða, að sú stefna fái byr undir báða vængi. En það tel jeg vel farið. Finst mjer ekki vonlaust um, að jafnvel heimastjórnarmenn snúist einnig smátt og smátt á þá sveif. Ef skynsamlega og ofstækislaust er að farið, er engin fjarstæða að hugsa sjer, að allir flokkar geti tekið höndum saman í þessu efni. Þó að Heimastjórnarmenn brosi nú, þá get jeg hugsað mjer, að bros þeirra breytist í alvöru, þegar sambandsstefnan hefir ekki lengur neinn byr meðal þjóðarinnar. Jeg fullyrði, að sambandsstefnan er alt af að tapa fylgi í landinu, og þess vegna vil jeg gefa heimastjórnarmönnum það heilræði, að byggja ekki um of á svo völtum grundvelli, sem hún er.

Jeg þykist vita, að Danir þykist hafa komið ár sinni vel fyrir borð í þessu máli. En það er meira táp í þjóðinni en þeir hafa nokkra hugmynd um. Það er jafnvel meira táp í henni en menn halda hjer á þinginu.

Það er oft sagt hjer, að þjóðin hafi ekki vit á þessu og hinu. Það er vitanlega oft satt, — því er miður. En áhugi manna getur breytst og breytist, og undir eins og áhuginn vex, þá mun sannast, að fjöldi manna hefir jafngott vit á velferðarmálum þjóðarinnar og við, sem hjer sitjum.

Samkvæmt því, sem jeg hefi áður sagt, get jeg ekki annað en greitt atkvæði með till., sem fyrir liggur. Hún á að girða fyrir þá kenningu Dana, að uppburður sjermála vorra fyrir konungi sje sameiginlegt mál. Tillagan, eins og hún er orðuð, getur að minsta kosti ekki sakað. Mig furðar satt að segja á því, að hæstvirtur ráðherra skuli rísa öndverður gegn till., svo meinlaus sem hún er, einkum þar sem við höfum áður sagt við hann í einlægni, að við mundum á engan hátt vinna á móti honum, ef hann gengi að henni.

Aftur á móti get jeg ekki felt mig við þá rökstuddu dagskrá, sem fram hefir komið, aðallega fyrir það, að hún telur fyrirvaranum vera fullnægt. Jeg hefi heldur alls enga löngun til að lýsa fögnuði mínum yfir málalokunum, þar sem jeg tel, að hæstv. ráðherra hafi alls ekki gjört það, sem við ætluðum honum að gjöra. Enn fremur man jeg ekki betur en að það stæði í blaði hans, Ísafold, að hann ætlaði sjer ekki að binda enda á þetta mál, fyrr en því hefði verið skotið undir álit þings eða þjóðar. Á því urðu engar efndir, sem kunnugt er. Og brigðmælgi vil jeg ekki vegsama, hvort sem hún kemur fram hjá ráðh. eða öðrum. Jeg og ýmsir fleiri bjuggumst við, að kallaður yrði saman aukafundur fyrir þing, og þetta mál rætt þar. Það hefði hvorki þurft að kosta mikinn tíma nje mikla fyrirhöfn.

En hvað sem þessu líður, get jeg látið hæstv. ráðherra vita, að jeg ætla mjer ekki að snúast í móti honum, ef hann vinnur ekki á móti þeirri stefnu, sem jeg vil að verði framtíðarstefna í þessu landi. Jeg vil láta þetta sífelda þjark um smámuni falla úr sögunni. Það voru smámunir, þetta, sem nú hefir mest verið deilt um undanfarið. Það hefir ekki verið farið fram á neitt, sem nokkur slægur hefir verið í. Jeg vil, að við förum nú að snúa okkur að einhverju verulegu, að einhverju því, sem getur gjört okkur að meiri mönnum og eflt sjálfstæði landsins svo, að það geti því nafni kallast.

Ef einhver ráðherra tekur þá stefnu, mun jeg styðja hann, hver sem hann er.