20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

14. mál, stjórnarskráin

Ráðherra:

Jeg heyrði ekki fyrra hluta ræðu háttv. flutningsm. (S. E.), því miður, en sagt er mjer, að hann hafi verið næsta ákafur og reiður. Jeg get fyrirgefið honum reiði hans og vanstillingu. Veit, að hann getur eigi að sjer gjört í þá átt. En það er gamalt mál, að ekki sje að marka reiðs manns mál. Því mun jeg ekki svara þeim orðum hans, er hann mælti í reiði.

Þegar jeg kom inn, sagði háttv. flutningsm. (S. E.), að jeg hefði kastað hnútum til sín; þvert á móti. Jeg hefi lítið annað gjört en að lofa hann, en ekki get jeg að því gjört, þótt hann skilji ekki mælt mál, og kalli það hnútur, sem er lof.

Háttv. flutningsm. (S. E.) játar það, að flokkur sá, er þá var með honum, hafi enga ákvörðun tekið í vetur um það, hvað taka skyldi til bragðs, ef stjórnarskráin yrði ekki staðfest. Ýmsir samflokksmenn hans intu þó eftir því, en fengu þau svör, að best væri að láta þingið ráða því. Rökrjettast svar hefði það verið, að láta til skarar skríða, neita um löglega stjórn. En það þorðu þeir ekki, enda varð tæplega talið heillavænlegt, eins og á stóð.

Háttv. flutningsm. ljetst hafa vonað það, að konungsvaldið mundi beygja sig, ef nógu fast væri haldið hóp. Jeg er sannfærður um það og veit það, að það, sem nú hefir fengist, er meira en margir sjálfstæðismenn bjuggust við í fyrra.

Háttv. flutnm. skildi svo orð mín, sem jeg hefði sagt, að hann hefði langað til að sitja lengur við völdin; þetta hefi jeg aldrei sagt, en vera má, að hjer upp á megi heimfæra franska málsháttinn: Sá, sem afsakar sig, ásakar sig.

Háttv. flutnm. (S. E.) mótmælti, að hann og fjelagar hans hafi viljað hafa mök við mig eftir staðfesting stjórnarskrárinnar. Þetta kemur illa heim við vitnisburði tveggja háttv. þingmanna, þm. N.-Þing. (B. S.) og 2. þm. N.-Múl. (J. J.), sem játað hafa það satt vera, að flokksbræður háttv. flutnm. (S. E.) hafi viljað fá mig til þess að ganga að þessari till. í því skyni, að þeir ljetu mig svo hlutlausan. Og er þetta alveg rjett.

Háttv. flutningsm. skrafaði því næst langt mál um það, að jeg væri allur á bandi Heimastjórnarmanna og gæti ekki hreyft mig án þeirra vilja. Mjer þykir vorkunn, þótt háttv. flutningsm. komi þetta í hug, því að þótt hann ætti að nafni til marga stuðningsmenn í fyrra, kom hann samt engu máli fram. Ekki barðist hann fyrir stjórnarskrármálinu; það hvíldi á öðrum; og eigi rjeð hann um, hvernig því var til lykta ráðið. Eitt var þó áhugamál hans, en það var gjörð fánans; en svo fór þar um, sem allir þekkja, að ekki kom hann því máli fram. Fjekk engu umráðið fánagjörðartillögu þingsins 1914. Og ekki virtist hann í haust eiga mikið undir sjálfum sjer, er hann leitaði ráða hjá öðrum, hvað gjöra skyldi. Sýnir þetta, að hann taldi sig ekki tryggan, er hann þurfti að leita ráða og jafnvel fyrirmæla hjá öðrum. (Sigurður Eggerz: Þetta eru heimastjórnarargument). Jafn rjett geta þau verið, þótt þaðan sjeu komin.

Þá fór háttv. flutnm. (S. E.) mörgum orðum um yfirlýsing 24-mannanna. En eins og margoft hefir verið tekið fram táknaði sú yfirlýsing ekkert annað en það, að þessir menn vildu ekki þiggja staðfesting stjórnarskrárinnar með þeim skilmálum, sem þá voru í boði. Þá er það hlægilegt, að birta kröfu, eins og háttv. flutnm. (S. E.) gjörði í Ingólfi 19. júní, um það, að engi mætti gjörast svo djarfur, að taka við staðfestingu stjórnarskrárinnar. En svo óheppilega vildi til, að jeg gat ekki tekið þessa kröfu til greina, með því að hún kom ekki út fyrr en sama dag sem stjórnarskráin var staðfest.

Mjer er sagt, að háttv. flutnm. (S. E.) hafi ekki viljað taka afstöðu til birtingar tilboðsins í Ingólfi. Þetta skil jeg svo, sem hann vilji ekki lofa það verk. En jeg veit, að hann er þó svo mikill drengskaparmaður, að hann mun lýsa yfir því, hvort hann sje því atferli samþykkur, eða víta það ella; því að ekki er nema tvent til.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) og N.- Þing. (B. S.) röktu málið af nýju, og kom fátt fram, það er eigi hafði heyrst hjá háttv. flutnm. (S. E.) eða öðrum. Þó minnir mig, að háttv. 2. þingm. N.- Múl. (J. J.) játaði það, að fyrirvarinn hafi ekki verið ætlaður til þess, að fá beina viðurkenning fyrir skilningi vorum á ríkisráðsákvæðinu, heldur hafi hann verið að eins mótmælaskjal. Og verð jeg að fallast á þetta með honum.

En hann áleit sjerstaklega, að eitt atriði í umræðunum í ríkisráðinu 19. júní væri ekki fyrirvaranum samrýmanlegt; það er það, sem konungur sagði, að úrskurðinum yrði ekki breytt í sinni stjórnartíð. Heldur hann þá, að það gjörði nokkurn mun, þó að þessi þingsályktunartillaga yrði samþykt. Jeg get fullvissað hann um, að það gjörði úrskurðinn hvorki breytanlegri nje óbreytanlegri. Orð konungs koma ekki í bág við fyrirvarann. Hann segir hvergi, beint eða óbeint, að það þurfi atbeina danskra stjórnarvalda, til að breyta úrskurðinum. Konungurinn hefir absolut veto og getur boðað breytinguna fyrirfram, eða sagt fyrirfram, að hann vilji eigi breyta, Það er ekkert brot á »konstitutionellum« reglum eða venjum. Konungurinn gefur það í skyn, að Alþingi megi ekki vænta þess, að úrskurðinum verði breytt, en ef Alþingi skyldi einhvern tíma krefjast þess, að málin yrðu tekin út úr ríkisráðinu, þá er ekki hægt að segja, hvað þáverandi konungur mundi gjöra.

Mig furðar á einu atriði í ræðu háttv. 2. þingm. N.-Múl. (J. J.). Eins og hann mun sjálfsagt kannast við, fekk hann að sjá bráðabirgðaskilyrðin, því að við höfðum leyfi til, að láta þingmenn kynna sjer þau og gjörðum það. (Björn Kristjánsson: Suma). Háttv. 1. þingm. G.- K. (B. K.) þarf síst að kvarta. (Jón Jónsson: Jeg fjekk þau ekki). Víst fjekk þingmaðurinn að sjá þau, og hann símaði mjer þær breytingar, sem hann vildi, að á yrðu gjörðar. Jeg segi þetta ekki honum til ámælis, því brtt. hans voru að öllu verulegu teknar til greina og uppfyltar, og þar að auki aðrar breytingar gjörðar, sem enginn hefir dirfst að neita, að hafi verið til bóta. Annars virtist mjer á orðum háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) sem hann áliti, að hjer væri engin hætta skeð, enda er það svo um suma andstæðingana, að þeir álíta enga hætta á ferðum. Þeirra besti maður, háttv. 2. þingm. G.-K. (K. D.), hefir opinberlega játað það á þingmálafundi, að engu væri glatað af rjettindunum. Ef það er rjett, þá er síst ástæða til, að vera að gjöra mjög mikinn úlfaþyt út af því, sem fram er komið.

Þá kem jeg að ræðu háttv. þingm. N.-Þing. (B. S.). Hann var að reyna að klóra í bakkann og hamra það fram, að við það, sem skeði í ríkisráðinu 19. júní hefðum við mist rjettindi, nema tillagan verði samþykt. Mjer dettur ekki í hug, að efast um, að það sje sannfæring hans, að hjer sje einhver skaði skeður. En hinu vík jeg ekki frá, að aðferð hans og þeirra fjelaga er mjög óheppileg. Þeir gátu ekki vitað það fyrir fram, að tillagan yrði samþykt, og fyrst þeir gátu ekki vitað það, áttu þeir ekki að taka munninn svo fullan opinberlega, því að útlendir og innlendir óvinir geta vitnað til umræðanna í blöðunum. Aðferðin, sem þeir hefðu átt að beita, er sú, að bera málið upp á flokksfundum og ræða það þar. Það hafa þeir að vísu gjört, að einhverju leyti, en svo áttu þeir að leita fyrir sjer, hvort tillagan mundi ná fram að ganga í þinginu, fá saman fund í sameinuðu þingi fyrir lokuðum dyrum, svo að ekki kæmi fram í Þingtíðindunum röksemdir fyrir þá, sem seinna kynnu að vilja halda fram, að rjettindi landsins væru rýrð með gjörðum mínum. En nú, eftir að þessar umræður hafa farið fram, standa Þingtíðindin full af staðhæfingum, eða svokölluðum »röksemdum« um svo og svo mikil rjettindi, sem landið hafi glatað. Jeg segi þetta ekki mín vegna, því að þótt Alþingi hefði samþykt á lokuðum fundi eitthvað líkt því, sem flutningsmenn fara fram á í tillögunni, þá þurfti ekkert að berast út af umræðunum, og þeir hefðu þá alveg eins vel á eftir getað steypt mjer af stóli, því að margt má finna sjer til, til þess að koma einum ráðherra frá völdum. Sami háttv. þingm. (B. S.) hneykslaðist á því, að háttv. 2. þingm. Rvk. (J. M.) sagði, að tillagan væri orðuð svo vægt til að veiða menn. Þetta þótti honum illmæli í garð deildarinnar. Svo sagði hann sjálfur á eftir í lok ræðu sinnar, að tillagan væri svona orðuð af því að

»lítilla sanda

lítilla sæva

lítil eru geð guma«

Mjer virðist það nú vera nokkuð svipað því, sem sagt hefði verið, að hún væri orðuð til að veiða veikar sálir.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fór um það mörgum orðum í gær af mikilli mælsku, að jeg og aðrir hefðu »agiterað«, og af því, að menn hefðu verið orðnir þreyttir, þá hefðu þeir dregist með. Jeg sje ekki betur en að orð þessara tveggja þingmanna bendi til þess, að tillagan hafi einmitt verið orðuð til að veiða. Hitt skal jeg ekki segja neitt um, hversu vel veiðin tekst. Jeg skil það vel, að háttv. þingm. N.- Þing. (B. S.) þyki tillagan of veik. Það hefði óneitanlega verið eitthvað meiri mannsbragur á henni, ef hún hefði verið eins og hann sagði, að hún hefði eftir sinni skoðun átt að vera, fyrst vantraustsyfirlýsing til stjórnarinnar og síðan landskæra. Aftur segja aðrir, að ekki felist neitt vantraust í tilögunni. En það er ekki samkvæmt forsendunum, því að hún á þó að byggjast á því, að jeg hafi gjört annað og verra en jeg mátti gjöra. Hitt er rjett, sem háttv. 2. þingm. Rvk. (J. M.) tók fram, að það er kynlegt, að þessir háttv. herrar, sem álíta rjettindum landsins stefnt í glötun, skuli ekki vilja teygja sig lengra, til að bjarga landinu en raun er á orðin. Því að þótt það sje mikilsvert frá þeirra sjónarmiði, að steypa stjórninni, þá ætti þeim að þykja miklu meira um vert, að vernda rjettindi landsins. (Sigurður Eggerz: Hæstv. ráðherra mundi þá fallast á tillöguna, ef hún lýsti jafnframt trausti á stjórninni). Nei, þetta er ekki rjett hjá háttv. flutnm. (S. E.). Ef eitthvað það er í gjörðum ráðherra, sem hv. flutnm. (S. E.) hefir ekki getað felt sig við, þá gat hann komið með þessa tillögu og jafnframt lýst yfir því, að hann vildi þó ekki stjórnarskifti að svo stöddu. Til sanninda vil jeg benda á, að til eru þeir menn hjer í þinginu, sem líta svo á, að það sje ekki allskostar gott, sem jeg hefi gjört, en álíta þó ekki rjett, að hafa stjórnarskifti á þessu þingi,

Þá vjek hv. þm. N.-Þing. (B. S.) að birtingu hans og þeirra fjelaga í tilboðunum. Jeg get ekki sjeð annað en að það, sem hann sagði í þessu efni, sje mjög hágborið, því að ef einhverju hefði þurft að bjarga frá voða, þá kom birtingin of seint til að geta orðið að gagni. Svo fór hann að hnífla mig og sagði, að það sæti síst á mjer, að vera að vita birtinguna, því að jeg hefði gengið best fram í að birta leynimakk bræðingsmanna 1912. Þetta snertir mig ekki, því að jeg var aldrei trúnaðarmaður þeirra, en hitt er alkunna, að hann sat á fundum með þessum mönnum, og þeir vissu lengi vel ekki betur en að hann væri þeim sammála. Jeg vil ekki þar með segja, að hann hafi birt neitt í það skifti, enda hefir hann líklega ekki verið bundinn trúnaði; en þótt jeg hefði birt fundarályktanir þessara manna, þá hefði jeg þar með ekki rofið neitt þagnarheit, því að mjer var aldrei trúað fyrir neinu. En þetta nýja birtingarmál er í rauninni miklu alvarlegra en þeir herrar, sem að því standa, gjöra sjer í hugarlund, því að ef samskonar kæmi fyrir framvegis, myndi afleiðingin verða sú, að Íslendingum yrði hvorki trúað til orðs nje eiðs. Jeg tala ekki um það, þótt það kæmi fyrir að einhver óþektur maður lofaði að halda einhverju í þagnargildi og birti það síðan, en þegar merkir menn og málsmetandi þingmenn verða til þess, þá horfir málið öðru vísi við. Hv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) sagði, að þingið væri spegill þjóðarinnar, og er það dálagleg mynd af þjóðinni, sem sá spegill sýnir, þegar jafnvel drengskaparheit manna, sem hátt eru settir hjá þjóðinni, eru að engu höfð. Ef slíkt kæmi fyrir aftur, er ósköp hætt við, að það álit kæmist á, að Íslendingum væri í engu treystandi, og skal jeg ekki reyna að lýsa því, hvílík álitsspjöll það yrðu fyrir landið. Jeg sný ekki aftur með það, að birtingin hefir hvarvetna mælst illa fyrir, og jeg hefi engan heyrt mæla henni bót. Það gleður mig að heyra, að hv. flutningsm. (S. E.) hefir ekki einu sinni treyst sjer til að mæla henni bót. (Sigurður Eggerz: Jeg hefi ekki úttalað mig um það). (Bjarni Jónsson: Jeg hefi með höndum fundarbók sjálfstæðisflokksins og get sýnt hvað í henni stendur). Það skiftir minstu, hvað í þeirri fundarbók stendur, en hitt er rjett, sem jeg sagði, að þeir heitrofarnir lofuðu, að birta eigi trúnaðarmálin og að það hefir enginn orðið til að mæla birtingunni bót, nema þeir sem að henni stóðu.

Þá mintist hv. þm. N.-Þing. (B. S.) á, að dönsk blöð hefðu hlakkað yfir úrslitum þeim, sem orðin eru. Jeg get ekki synjað fyrir það, því að danskar blaðagreinar um það efni hefi jeg ekki sjeð, en jeg get vel trúað því, að dönsk blöð fari ekki að geta neina játningu um það, að þeir hafi slakað til eða breytt hafi verið til hins verra, Dönum í óhag.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) sagði, að það væri ekki svo að skilja sem hann fagnaði yfir fregninni, sem hann tók upp í blað sitt úr »Gula Tidend«. Jeg get ekki skilið fregnina, eins og hún atendur í blaði þingm., Ingólfi, öðruvísi en sem fögnuð. Sje ekki svo, þá er það til að veiða fólk, svo að það haldi, að hann fari með rjett mál, því að það er eins og hann hyllist til að láta sem mest á fregninni bera, þar sem hann setur feitar og stórar fyrirsagnir fyrir lítið mál. Hann játaði það rjett vera, sem stendur í »Forestillingunni« með stjórnarskránni, að það myndi ekki verða ágreiningur um það á Alþingi, að málin yrðu framvegis borin upp í ríkisráðinu. En svo vítir hann mig fyrir það, þótt hann kannist við, að jeg hafi skýrt rjett frá í umræðunum. Hjer finst mjer það eiga vel við sem hann talaði um, að horfast í augu við sannleikann. Hitt var meiningin einu sinni, að koma málunum út úr ríkisráðinu. Það var á þeim árum, er Benedikt heitinn Sveinsson sýslumaður fjekst við þingmál. En svo bregður svo undarlega við á þingunum 1902 og 1903, að t. d. hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), sem þá sátu á þingi, skrifa undir nefndarálit og ganga inn á, að það sje hagfelt fyrirkomulag, að málin sje borin upp í ríkisráðinu. Úr því að talað er um að horfast í augu við sannleikann, þá er rjett að horfast í augu við þennan sannleika líka.

Mig minnir að sami hv. þm. (B. S.) hafi átalið það, að jeg hafi sagt, að spursmálið væri fornfræðilegs efnis. Jeg læt mjer nægja að vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt um það. Svo er nú gamla sagan um það, að jeg hefði átt að mótmæla því, að forsætisráðherrann lýsti skoðun sinni frá dönsku sjónarmiði eða blandaði henni í málið. Því kom þetta ekki strax fram eftir 30. nóv. 1914? Hæstv. flutningsm. (S. E.) mótmælti því aldrei 1914, að forsætisráðherrann lýsti skoðun sinni eða blandaði sjer í umræðurnar. Hinu mótmælti hann, að forsætisráðherra tæki að sjer ábyrgð íslensks sjermáls. En þau mótmæli voru auðvitað bygð á skilningsskorti hjá hv. flutningsm. (S. E.), því að forsætisráðh. hefir auðvitað aldrei komið til hugar að taka á sig ábyrgð í þessu máli.

Svo talaði sami hv. þm. (B. S.) um svokallað »kontrol«. Það er vitanlega rjett, að Íslandsráðherrann er ekki æfinlega í Kaupmannahöfn og getur því ekki alt af sótt ríkisráðsfundi. En hann hefir lagalega möguleika til að sitja í ríkisráðinu, og það hefir áður komið til mála, að ráðherrar yrðu tveir, og hefði annar þeirra þá búsetu í Kaupmannahöfn. Þá gæti hann setið fundi í ríkisráðinu og tekið þátt í umræðunum um okkar málefni. En annars get jeg ekki sjeð, að þetta hefði neina praktista þýðingu, því að það er auðvitað ómögulegt fyrir okkur að meina konunginum að tala við hvern sem hann vill. Mjer skildist á háttv. flutningsm. (S. E.) í gær, að hann áliti þetta líka hollara. Það getur verið álitamál, og eins og margsinnis hefir verið tekið fram, er það álit margra mikilsmetinna manna, að hitt sje hollara. Jeg skal ekkert um það fullyrða. Hv. þm. N.-Þing. (B. S.) lagði ekki mikið upp úr því, er konungur sagði, að Alþingi mætti ekki vænta þess, að úrskurðinum yrði breytt í sinni stjórnartíð. Hann sagði, að það væri sjálfsagður hlutur, en gætti þess ekki, að konungur getur bundið, út fyrir sína stjórnartíð. Ef konungurinn hefði að eins sagt, að úrskurðinum yrði ekki breytt, þá leiddi af því, að hann hefði gilt einnig fyrir framtíðina. En með þessu er ekkert um breytileik eða óbreytileik úrskurðarins sagt eftir stjórnartíð núverandi konungs. Þá er þessi ákvörðun að engu orðin.

Þá sagði sami háttv. þingmaður, að konungur skírskotaði til ummæla sinna áður. Það er villandi að orða þetta svona. Konungur segir að eins:

»Eins og jeg hefi áður sagt í ríkisráði, er það konunglegur vilji minn, að íslensk lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir verði framvegis, sem hingað til, bornar upp fyrir mjer í ríkisráði mínu«.

Konungur tekur að eins upp, að þetta sje vilji sinn, en um hitt hvorttveggja, auglýsinguna til Dana og að breytingin sje bundin við staðfestingu nýrra sambandslaga, drepur hann ekki á, og útilokar síðan hvorttveggja með orðum sínum.

Sami háttv. þingm. (B. S.) ásakar mig fyrir, að jeg hafi fallið frá fyrirvaranum, með því að mótmæla ekki konungi. Til þess var engin ástæða, því í ummælum konungs felst ekkert það, er sje ósamrímanlegt skoðun Íslendinga, eins og jeg hefi margoft tekið fram.

Þá mintist háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) á makk, er jeg hefði átt við forsætisráðherrann og aðra danska stjórnmálamenn, og vítti það mjög. Samtal við stjórn Dana tel jeg enga dauðasynd. Stendur og svo á, að forsætisráðherrann átti hlut að málum bæði 20. okt. 1913 og 30. nóv. 1914. Og kunnugt er mjer um það, að Sigurður Eggerz átti í ráðherratíð sinni tal við danska stjórnmálamenn um þetta mál. Við það hefi jeg ekkert að athuga, tel það alveg rjett. Miklu fremur áliti jeg það skyldu mína, að eiga tal við slíka stjórnmálamenn um málin, ef auðveldara væri þá að koma málunum fram, heldur en áður var. Getur verið, að þm. N.-Þ. (B. S.) ámæli mjer fyrir þetta. En slíkar umræður hafa að sjálfsögðu enga stjórnskipulega þýðingu. Annars hefir háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) sjerstöðu í þessu máli, og er afstaða hans til málsins í fullu samræmi við skoðun hans á Alþingi 1914. Hann taldi þá fyrirvarann ónógan og því rangt að staðfesta stjórnarskrána á grundvelli hans. Þessa afstöðu hans skil jeg vel.

Háttv. þingm. N.-Þing. (B. S.) blandar saman beinni og óbeinni viðurkenningu af hálfu konungsvaldsins. Jeg hefi margtekið fram, að af Alþingi 1914 hafi ekki verið gjörð sú krafa, að konungur gæfi beina yfirlýsingu; nóg að konungsvaldið segði ekki og gjörði ekki neitt, er bryti í bág við fyrirvarann. Þetta hafa og andstæðingar mínir hreinskilnislega játað. Og eftir skoðun sumra gjörði ekkert til fyrir rjettindi vor, þótt farið væri skemra en í fyrirvaranum feldist. Þannig fórust háttv. þm. Dal. (B. J.) orð 1914, og er ef til vill rjett. (Bjarni Jónsson: Í öðru sambandi). Nei, einmitt í þessu sambandi, í sambandi við stjórnarskrána. En nú hefi jeg sagt, og held því algjörlega fram, að konungsvaldið hafi fallist á það, er fyrirvarinn fer fram á. Það hefir aldrei verið neitt tekið fram um það, að þessi viðurkenning mætti vera gefin með beinni yfirlýsingu, en þögn væri líka nóg. Enda virðist flutningsmanni (S. E.) nú, að þögnin sje góð og gild, og fellur þá líka alt í ljúfa löð. Það verður því ekki hægt að króa mig á þessum grundvelli.

Jeg hefi nú tekið fram það helsta, er svara þurfti í ræðum þeirra, er andmælt hafa, enda eru umræður nú orðnar langar.