20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

14. mál, stjórnarskráin

Björn Kristjánsson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer, að tala í þessu máli. Mín venja er sú, að tala ekki, er jeg veit færari krafta í flokknum til að halda uppi svörum, og hefi því aldrei talað í stjórnarskrármálinu, hvorki fyrr nje síðar. En hæstv. ráðherra hefir neytt mig til að standa upp. Enda þótt jeg hafi fylgt sjálfstæðisstefnunni og jafnvel fylgt þeim, sem lengst hafa gengið í því, að fá rjett vorn viðurkendan, þá hefir mjer verið það ljóst, að þroski þjóðarinnar og þingsins er ekki orðinn nægur til þess, að geta tekið upp nægilega staðfasta og aflmikla baráttu fyrir frelsi þjóðarinnar. Því veldur bæði fátækt og þolleysi fjöldans og »matrialismi« (efnishyggja) hins sterkara. Efnishyggjan hefir nú náð föstum tökum á Evrópu og kveikt þar hið geysilega ófriðarbál, og því miður hefir efnishyggjan einnig komið hingað til lands og jafnvel hjer inn í þingið og tekið sjer þar bólfestu. Þegar þannig er komið, er ekki til neins fyrir þjóðina að hefjast handa til sjálfstæðis fyrr en sú alda er yfirstaðin. »Materialisminn« kemur að baki þeirra, er það reyna, og einhverja hjálp vilja veita, og bregður þeim hælkrók. Vjer vitum líka, hvernig gengið hefir nú. Þeir menn sumir, sem hæst hrópuðu 1903 og 1911 um, að ná sjermálum vorum út úr ríkisráðinu, eru nú beint snúnir við og vilja nú umfram alt, að þau sjeu borin þar upp og að þau sjeu háð eftirliti og mati dönsku ráðherranna um aldur og æfi.

Það er vitanlegt, að nú ætluðum vjer að sigra þær skotgrafir, er vjer höfðum mist 1903, eða að minsta kosti eitthvað af þeim, en það varð nú eitthvað annað. Það fór svo, að vjer duttum í hrúgu í áhlaupinu, og því falli veldur efnishyggjan ein. Á því er enginn vafi. Jeg verð að segja það, því nóg er af yfirdrepsskapnum, þó einhverjir segi hlutina eins og þeir eru. Það er værugirni vor og eigingirni, sem veldur því, að vjer erum ekki menn til þess, að berjast fyrir sjálfstæði landsins. Vjer höfum ekki næga sjálfsafneitun til þess. En sjálfsafneitun útheimtist til þess, að geta barist fyrir sjálfstæði landsins.

Jeg sagði, að jeg hefði orðið að standa upp vegna orða, sem hæstv. ráðherra hafði í garð kjósenda minna í Hafnarfirði. Hann sagði svo, þegar hann var að lýsa því, hverjar undirtektir »stórpólitíkin« hefði fengið á þingmálafundinum þar, að Hafnfirðingar einir hefðu orðið til þess, að lýsa »vantrausti á sjálfum sjer«. Þetta eru ógeðfeld ummæli úr ráðherrastóli, því í ókunnugra augum gæti litið svo út, sem Hafnfirðingar hefðu komið þarna fram sem rolur. En ef athugaður er allur aðdragandi að því, sem þarna gjörðist, þá verður þetta alt saman einkar eðlilegt. Orsökin er sem sje sú, að á fundinum höfðum við, báðir þingmenn kjördæmisins, haldið klukkutíma ræður, til þess að skýra okkar afstöðu til staðfestingaskilmála stjórnarskrárinnar, og auk þess hafði hæstv. ráðherra talað þar oftar en einu sinni. Og að því loknu varð niðurstaðan sú, að kjósendur fjellust á skoðun þingmannanna, og annað felst ekki í yfirlýsingu fundarins. Þetta neyddist jeg til að taka fram, með því að hjer komu fram ávítur gagnvart fjarstöddum mönnum, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sjer.

En svo að jeg víki nú að málinu, sem fyrir liggur, þá álít jeg það nauðsynlegt, að það verði upplýst hjer sem mest, alveg út í æsar, því að nú hefir þjóðin verið tekin alveg eins og átti að taka hana 1908, komið að henni óviðbúinni. Og nú hefir það tekist, því að nú var umhugsunartími hennar nógu stuttur til þess, að hún fjekk ekki tækifæri til þess að átta sig. Ef hann hefði verið nógur, þá er jeg ekki í neinum vafa um það, að flestallir hefðu fallist á skoðun okkar sjálfstæðismanna. En þegar blöðin, aðalblöðin, hafa komið sjer saman um það, að draga fjöður yfir það sanna í þessu máli, þá erum við neyddir til þess, að segja meiningu okkar hjer, í þeirri von, að sannleikurinn nái þó þannig á endanum að komast út til þjóðarinnar. Jeg ætla því að leyfa mjer að fara stuttlega yfir tildrög þessa máls frá 1913.

Eins og menn muna, samþykti Alþingi þá, að sjermálin skyldu vera borin upp fyrir konungi, þar sem konungur ákvæði, eftir að konungsvaldið 1912 hafði þverneitað því, að taka sjermálin út úr ríkisráðinu, samkvæmt tillögum Alþingis 1911. Auðvitað vildi þingið þá ekki, og sá sjer ekki heldur fært, að girða fyrir það, að sjermálin yrðu borin upp í ríkisráðinu fyrst um sinn, því að það var ekkert aðalatriði í bili. En hitt var aðalatriðið fyrir þinginu, að sjermálin yrðu borin þar upp á ábyrgð Íslandsráðherra eins, án íhlutunar dansks löggjafarvalds eða danskra stjórnarvalda, og að konungur með Íslandsráðherra einum, gæti síðar ákveðið, ef þeim kæmi saman um, að sjermálin yrðu borin upp annarstaðar. Þessu til sönnunar má benda á svar hæstv. ráðh. 31. des. 1914 í Ísafold. Þar stendur svo, þar sem verið er að tala um konungsúrskurðinn:

»Með öðrum orðum, þingið vill algjörlega útiloka það, að aðrir en konungur og íslensk stjórnarvöld eða íslenskt löggjafarvald hafi nokkurn íhlutunarrjett um það málefni, eða að nokkurt skilyrði sje sett, er eigi sje íslenskum stjórnarvöldum eða íslensku löggjafarvaldi háð«.

Og enn fremur má sjá af sömu grein, að núverandi ráðherra áleit ekki, að fyrivarinn kæmi að haldi, nema að konungsvaldið beint viðurkendi fyrirvara nú. Orð hans um þetta efni hljóða svo:

»Það, sem við vildum fá skýrt fram, var það, hvort konungur skoðaði málið sjermál eða eigi. En þá yfirlýsingu höfum vjer alls eigi fengið«.

Þetta er nú sæmileg skýring á því, hvað sjálfstæðismenn, vildu og hvað þeir vildu ekki, og á þessum grundvelli átti ráðherra að bera málið fram, en frá honum var vikið í ríkisráði 20. okt. 1913, fyrir mótstöðu konungsvaldsins.

Svo gefur konungur út opna brjefið, sem dagsett er sama dag, og svo er kunnugt, að jeg þarf ekki að lesa það hjer. En það er auðsætt á orðum þess, að það ríður í beran bág við vilja þingsins. Þetta opna brjef er svo birt almenningi á Íslandi í Lögbirtingablaðinu og Stjórnartíðindunum, sem sárfáir menn lesa. Og af því að blöðin, sem ráða mestu um stefnuna í stórmálunum,

lögðust það undir höfuð, að skýra efni opna brjefsins 20. okt. 1913, og hvað í því falst, rjeðu þau til, á síðustu stundu, að samþykkja stjórnarskrána óbreytta á næsta þingi (1914), með einhverjum fyrirvara, sem enginn þá hafði gjört sjer grein fyrir, hvernig ætti að vera, nje heldur hvort hann kæmi að haldi til þess, sem honum var ætlað að gjöra, en það var að hnekkja opna brjefinu frá 20. okt. 1913. Svona var tvískinnungurinn mikill, og svo mátti kalla, að enginn væri alls kostar ódeigur.

En þrátt fyrir skýringarleysi blaðanna, sýndi þó stór meiri hluti þjóðarinnar það með kosningunum 1914, að hún var á móti efni opna brjefsins, og fjelst víða á fyrirvaraleiðina, sem haldið hafði verið að henni. Alþingi kom svo saman með 23 þjóðkj. þingm. meiri hluta, auk eins konungkj. þingm., sem hjeldu hóp og tóku að sjer málið og ábyrgðina á því.

Opna brjefið, sem birt var hjer og í Danmörku, má nú skoða sem víxil, er konungsvaldið gaf út á Alþingi, þess efnis, að Alþingi samþykki að konungur ákveði með úrskurði í eitt skifti fyrir öll, að sjermál vor verði borin upp í ríkisráðinu á sama grundvelli og áður, og að á þeim grundvelli verði engin breyting gjörð, nema með samþykki Ríkisþingsins og Alþingis. Þenna víxil ætluðust Danir til að Alþingi samþykti, en það vildi hið nýkosna Alþingi ekki gjöra; leiðirnar voru þrjár, sem það gat farið, til þess að ónýta verkanir opna brjefsins:

1. að fella stjórnarskrána,

2. að breyta henni, og

3. fyrirvaraleiðin.

Fyrsta leiðin var alveg örugg, og sú eina, sem var áreiðanlega fær. Önnur leiðin var varasöm, því að ef breytt var til, og t. d. ríkisráðsákvæðið látið standa eins og það hafði áður verið, þá var eins og endurnýjuð væri samþykt á því, að alt skyldi vera á sama grundvelli og áður var. En þriðja leiðin, fyrirvaraleiðin, var stórhættuleg, því að hvort hún gat komið að haldi, fór alveg eftir því, hvaða maður hjelt á fyrirvaranum.

Meiri hluti Sjálfstæðisflokksins ákvað nú samt sem áður að fara fyrirvarleiðina. Treysti því, að Sigurður Eggerz ráðh. myndi fara samviskusamlega með fyrirvarann, eins og hann líka gjörði, að allra flokksmanna dómi. Þeir hafa allir lýst yfir því, og utanstefndu flokksmennirnir með, að framkoma hans í ríkisráðinu hafi verið í fullu samræmi við það, sem í fyrirvaranum falst, og engin af þeim yfirlýsingum var neinum skilyrðum bundin, þótt nú sje ef til vill verið að reyna að teygja þær og finna á þeim smugur til að læðast í gegnum. Stjórnarskráin var svo samþykt á þingi í fullu trausti þess, að fyrirvarinn yrði samþyktur af konungsvaldinu með þögn eða samþykki, og að stjórnarskráin yrði ekki borin fram að öðrum kosti. Reyndar gjörðu nú ekki allir fulltrúar sjer vonir um, að málið gengi fram á þenna hátt, því að ýmsir hjeldu, að staðfesting fengist ekki, ef fyrirvaranum væri haldið fast fram. En sjálfstæðismenn litu svo á, að það hefði þó þýðingu, að senda ráðherrann þessa »forsendingu«, sem sumir kölluðu, því að ef fyrirvarinn væri rækilega fram borinn, og það yrði stjórnarskránni að falli, svo að ráðherra yrði að leggja niður embætti sitt, þá væri þar með fengin full sönnun fyrir því, að konungsvaldið bæri oss ofurliði í þessu máli. Þá væri engin hætta að una við gamla fyrirkomulagið enn um sinn, úr því sem komið væri, breyta svo stjórnarskránni samkvæmt því á þessu þingi, sem samþykkja hefði svo mátt til fullnustu á næsta ári, og una svo rólegir við málalokin, með því að þau væru þá eigi okkur að kenna, heldur hefðum vjer orðið að þola um sinn ofurefli konungsvaldsins. Með þessu móti var engum rjetti spilt, þá vjer hefðum orðið að láta ríkisráðsákvæðið gamla standa í stjórnarskránni. Svona hlaut hver hreinskilinn sjálfstæðismaður að álykta.

Á fyrirvaranum einum og þessum skilyrðum bygðust atkvæði meiri hlutans með stjórnarskránni, á síðasta þingi, og á því bygðist samþykt hennar.

Nú er að gjöra sjer grein fyrir því, hvað fyrirvarinn var, og hefi jeg að nokkru leyti gjört það þegar, og hvernig hægt var að beita honum. Fyrirvarann má skoða sem umboð frá Alþingi, sem ráðherra á að fylgja, er hann ber fram stjórnarskrána. Af því að fyrirvarinn er ekki lög, eða t. d. inni í sjálfri stjórnarskránni, þá verður hann alveg þýðingarlaus bókstafur, nema konungs valdið beint viðurkenni gildi hans með þögn að minsta kosti, og helst með samþykki, alveg eins og hæstv. ráðherra hafði sjálfur haldið fram í Ísafold. Og fyrrverandi ráðherra (S. E.) skildi það líka svo, að hann gæti ekki borið stjórnarskrána fram, ef því var mótmælt, sem í fyrirvaranum falst. Að taka við staðfestingu stjórnarskrárinnar á þeim grundvelli, var sama sem að falla frá fyrirvaranum, fara út fyrir umboðið. Þetta er líka í samræmi við skoðanir fleiri helstu lögmanna. Það er sýnt og sannað, að hæstv. núverandi ráðh. var þá á þeirri skoðun, að beint þyrfti að vera lýst yfir því, að fyrirvarinn væri viðurkendur. Þetta verða menn að festa sjer vel í minni, hvað þá var sagt. Þingið velur ákveðinn ráðherra, sem það treystir, til þess að fara með umboðið. Og hann má ekki bera stjórnarskrána fram til staðfestingar — ekki afhenda Dönum samþyktan víxilinn, nema þeir samþykki skilmálana, sem Alþingi setti fyrir því, að stjórnarskráin mætti verða að lögum, skilmálana í umboðinu. Umboðið mótmælir opna brjefinu frá 20. okt. 1913, eða því, að uppburður sjermála Íslands skuli verða lagður undir valdsvið dansks löggjafarvalds eða danskra stjórnarvalda, með því, að Alþingi áskilur að konungsúrskurður sá, sem boðaður var í opna brjefinu, verði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður, enda geti konungur breytt honum á ábyrgð Íslandsráðherra eins, og án nokkurrar íhlutunar af hálfu dansks löggjafarvalds eða danskra stjórnarvalda o. s. frv.

Nú ber hinn þingvaldi ráðherra, Sig. Eggerz, stjórnarskrána fram 30. nóv. 1914, og eru þá þegar hafin mótmæli gegn fyrirvaranum, þótt ekki væru þau nærri eins ákveðin og þá er hæstv. núv. ráðherra átti í samningunum í vetur. Þá hættir hann við að bera stjórnarskrána fram og segir af sjer embætti. Hann skilur nákvæmlega rjett umboð sitt og fylgir því með óvenjulega mikilli dygð og ráðvendni. Hann velur þá einu leið, sem fær var, ef fyrirvarinn átti að ná nokkru gildi. Þetta vona jeg að allir flokksmenn átti sig á, því að það hefir verið viðurkent af öllum, alt fram til þeirrar stundar, er þrímenningarnir fóru á konungsfund. Um það hefir oft verið talað, og enginn sá þá aðra leið, þegar það var athugað, hve sviðið var þröngt, sem hægt var að nota fyrirvarann á. Þá skildu með öðrum orðum allir umboð þingsins, eins og jeg skil það nú.

En svo tekur nýr ráðherra við embætti. Jeg sleppi alveg að lýsa öllum aðdraganda að því máli. Það má gjöra á öðrum stað og tíma. Hann tekur ekki við sem venjulegur »Forretnings«-ráðherra. Nei, hann tekur að sjer umboðslaust af Íslendinga hálfu að afgreiða stjórnarskrána á alt öðrum grundvelli en þessum, sem þingið ætlaðist til, sem sje á danska grundvellinum. Öðruvísi gat það sem sje ekki orðið. Hæstv. ráðherra gat sagt sjer það sjálfur, að konungsvaldið ætlaði ekki að veita staðfestinguna upp á aðra skilmála en þá, sem í boði voru 1913, og þess vegna var engin von um staðfestingu á öðrum grundvelli en þeim danska.

Áður en jeg minnist á, hvað fram fór í síðara skiftið í ríkisráðinu, vil jeg taka það fram, að þær ræður, sem þar eru fluttar, eru samdar fyrirfram, og skriflegar og samþyktar af viðkomandi ráðherrum, áður en á ríkisráðsfund er komið, og þannig hefir þá það, sem þar fór fram í þetta sinn, verið undirbúið í samráði við Íslandsráðherra og með samþykki hans. Þetta má og ráða af því, sem Knud Berlin skrifar í blaðið »Köbenhavn«, daginn áður en ríkisráðsfundurinn var. Hann lætur þar vel yfir því, sem þar muni gjörast, en segir um leið löndum sínum, að þeir skuli ekki vera alt of glaðir, því að enn eigi Íslandsráðherra eftir að komast yfir margar »gaddavírsgirðingar« heima á Íslandi, og enn muni vera þar sjálfstæðismenn í skotgröfunum. Hvað á hann við með þessu? Hann veit, að hæstv. ráðherra var búinn að gefa eftir, og að Danir áttu að fá öllu framgengt, sem þeir vildu í ríkisráðinu í Kaupmannahöfn. En hann veit líka, að með þessu hafði hann farið út fyrir umboð, er hann hafði frá Alþingi, og að gjörningar hans voru ekki gildir, nema honum gæti tekist að fá Alþingi til að fallast á þá, enda þótt þeir væru ekki samkvæmir umboðinu. Þetta voru gaddavírsgirðingarnar, sem hann átti eftir að komast yfir, og Knud Berlin hefir líklega haldið, að þær væru sterkari, en þær ætla nú að reynast.

Eitt af því fyrsta, sem jeg rak mig á, þegar jeg las umræðurnar á ríkisráðsfundinum, var það, að farið er með stjórnarskrármálið eins og það væri sameiginlegt mál, en það gjörir ráðherrann ekki samkvæmt umboði Alþingis. Það er einnig mjög sjaldgæft, að hafðar sjeu langar umræður um málin á ríkisráðsfundum, tilbúnar fyrir fram, og sem svo eiga að birtast. (Ráðherra: Það er ekki sjaldgæft, því að það eru umræður á hverjum einasta ríkisráðsfundi). Það er sjaldgæft, að umræðurnar sjeu svo langar og fyrir fram skrifaðar; menn grípa ef til vill fram í um einstöku mál, en hitt er áreiðanlega sjaldgæft, að málin sjeu rædd svo ítarlega, sem þetta mál var rætt. En til þess liggja sjerstakar ástæður. Hjer þurfti að semja og birta Dönum þann samning, sem gjörður yrði, svo að þeir vissu hvað verið væri að gjöra.

Jeg skal — til þess að lengja ekki umræðurnar úr hófi — hlaupa yfir mest af því, sem gjörðist á ríkisráðsfundinum. Þó get jeg ekki stilt mig um að minnast á það, sem forsætisráðherrann segir. Fyrst er hann látinn segja:

»Eftir ummælum þeim, sem ráðherra Íslands hefir haft, er enginn ágreiningur um það, að íslensk lög og mikilvægar stjórnarathafnir verði áfram eins og hingað til bornar upp fyrir Yðar hátign í ríkisráðinu«.

En einmitt hefir vilji Alþingis verið það, að fá málin út úr ríkisráðinu, þó ráðherra haldi því gagnstæða fram. Þá segist hann geta fallist á þá skoðun, »að spurningin um breytingu á ríkisráðsákvæðinu sje formfræðilegs eðlis«, hafi þannig enga praktiska hlið, en því fer fjarri, að svo sje. Þá tekur hann það og fram, að danska skoðunin á þessu formfræðilega atriði fari í þá átt, »að því verði eigi breytt, nema ný skipun verði á gjörð, er feli í sjer líka tryggingu, sem þá, er nú er«. Og hver á svo að ákveða þessa tryggingu? Enginn getur ákveðið hana nema Danir sjálfir. Og liggur þá ekki næst að halda, að tryggingin eigi að vera fólgin í því, sem ákveðið er í opna brjefinu 20. okt. 1913, eða með öðrum orðum í nýjum sambandssamningi? Svo talar forsætisráðherrann um eftirlitsstaðinn með íslenskum sjermálum, og um birtingu þess, sem gjörist í ríkisráðinu í þessu máli. Í öllu þessu felast ótvíræð mótmæli gegn fyrirvara Alþingis, og þessi mótmæli eru svo staðfest af konungi. Ráðherra Íslands svarar að vísu forsætisráðherranum og mótmælir hans skoðun á málinu, en þau mótmæli eru alveg þýðingarlaus, þegar hann mótmælir ekki einnig því, sem konungur hafði sagt, því að ummæli konungs sýna, að hann lítur á málið sömu augum og forsætisráðherrann, en afneitar skoðun Íslandsráðherra. Konungur tekur það fram, að það sje staðfest frá öllum hliðum, að samkomulag sje um það, að sjermálin verði borin upp fyrir sjer í ríkisráði, og hann skipar fyrir, að svo sje gjört framvegis, sem hingað til. Hann vísar til fyrri ummæla sinna í ríkisráði um þetta mál (einnig ummælanna 20. okt. 1913) þessu til styrkingar. Þau eru grundvöllurinn, sem staðfestingin byggist á.

Konungurinn staðfestir orð forsætisráðherrans, »að engin breyting verði á þessu gjörð, nema önnur skipun jafntrygg þeirri, sem nú er, verði gjörð«. Þar með mótmælir hann orðum Íslandsráðherra og fyrirvara Alþingis.

Þrátt fyrir alt þetta ber ráðherrann stjórnarskrána fram til staðfestingar, og fellur þar með frá fyrirvaranum, því að hann tekur að sjer ábyrgðina á orðum konungsins og samþykkir þau.

Eins og hjer er nú frá skýrt, getur engum blandast hugur um, að stjórnarskráin er staðfest upp á efni opna brjefsins 20. okt. 1913. Því að hver ákveður, hver þessi önnur skipun sje, sem á verði að gjöra til þess að breyting geti orðið á ríkisráðsákvæðinu? Danir! Þeir hafa það alveg í hendi sinni að ákveða það samkvæmt opna brjefinu 1913, ef þeir vilja.

Mótmæli ráðherrans við ræðu forsætisráðherrans hafa enga þýðingu, úr því að hann leggur stjórnarskrána fram undir staðfestingu og undirskrifar hana með konungi, því að þá tekur hann að sjer ábyrgð á ummælum konungs, sem eru alveg sams konar og þau ummæli, sem hann mótmælti hjá forsætisráðherranum. Dæmið er glögt; hvernig sem það er flækt og vafið, þá verður útkoman sú sama og 1913, og ekki verður nú annað sjeð en að hæstv. ráðherra hafi nú fallið frá öllu, sem hann hafði áður sagt um þetta mál.

Mótmælatilraun hæstv. ráðherra er að mínu áliti alveg sama eðlis eins og ef einhver krefði annan um skuld, og færi fram á, að skuldarinn samþykti víxil fyrir henni, en skuldarinn mótmælti skuldinni, kæmi með bakreikninga o. s. frv. Hvað mundu nú slík mótmæli þýða, ef skuldarinn samt sem áður undirskrifaði og samþykti víxilinn? Nákvæmlega eins er hjer að farið.

En eru nú nokkur ráð til þess að afneita þessum staðfestingarskilmálum, sem gjörðir eru þvert ofan í fyrirvara Alþingis?

Já, þau liggja í augum uppi.

Við höfum fengið stjórnarskrána, og hún verður ekki aftur tekin, en staðfestingarskilmálunum getum við mótmælt. Og við getum gjört meira, án þess að snerta eitt hár á höfði ráðherrans. Þetta hefir honum verið boðið, en þann getur ekki gengið að því. Danir hafa sennilega verið svo forsjálir, að stemma þann ós; þeir vilja auðvitað fá sinn hluta óskertan.

Að við getum mótmælt staðfestingarskilyrðunum, liggur mjög í augum uppi, ef gætt er að því, að þessi hæstv. ráðherra, sem nú situr að völdum og undirskrifaði stjórnarskrána með konungi, er ekki valinn af þinginu. Alþingi getur því ekki borið neina ábyrgð á staðfestingarskilmálunum, alt til þessarar stundar. En nú er stundin komin, er skera á úr, hvort menn meta meira, landsrjettindi Íslands, eða einskis verða velþóknun eins ráðherra. Það er eðlilegt, að hæstv. ráðherra, sem sýnilega hefir gengið út fyrir umboð sitt, vilji fá samþykki þingsins eftir á fyrir því, sem hann hefir gjört, en hann getur ekki búist við því af okkur, að við stöndum aðgjörðalausir og horfum á leikinn, úr því að við erum á öðru máli en hann. Við hvorki getum nje viljum loka augunum fyrir því, að verið er hjer að sauma að rjettindum landsins.

Tillagan, sem borin er fram, er svo vægt orðuð, sem frekast var unt. Hún var orðuð þannig, til þess að gjöra það, sem mögulegt var, til að reyna að halda Sjálfstæðisflokknum saman utan um rjettindi Íslands, og mig furðar á því, að sumir þingmenn skuli hafa orðið til að gjöra gys að því, sem einungis er gjört í því skyni, að samkomulag fáist milli hinna svokölluðu sjálfstæðismanna, um að vernda rjettindi og sjálfstæði landsins.

Jeg er viss um það, að þjóðin sjer það á sínum tíma, þótt hún ef til vill sjái það ekki nú, að hjer er um þýðingarmikið atriði að tefla.

Þótt þessi tillaga yrði samþykt, þá gæti það ekki haft neina praktiska þýðingu fyrir hæstv. ráðherra. En sigur stefnunnar er undir því kominn, hvort hæstv. ráðherra vill styðja að því með fylgismönnum sínum, að samþykkja hana. (Ráðherra: Er bankastjórinn einn af þeim). Nei. Jeg er ekki einn af þeim, en einhverja hefir hann með sjer, og vilji hann ráða þeim til að samþykkja tillöguna, þá er sjálfstæðismáli voru borgið. Sjálfur þarf hann ekki einu sinnu að greiða henni atkvæði. Menn hafa nú sjeð, að enn er hægt að bjarga málinu, þó full björgun sje ekki fengin, nema með falli ráðherrans á þessu máli. En til þess þurfum við að lyfta huganum hátt eitt augnablik. Hærra en við erum vanir að gjöra. Ekki til þess að ná í völd og fje, því að það kemur af sjálfu sjer, ef hugurinn stefnir nógu hátt í umhyggjuseminni fyrir öðru — fyrir föðurlandinu. Hugsunin verður að stefna svo hátt, að smámunirnir verði að reyk. Við megum jafnvel ekki horfa í það, þótt vinaböndin bresti í bili; þau eru hvort sem er ekki alt af sem traustust hjer á landi; þau eru venjulegast hnýtt einhverjum hagsmunahnútum, því miður.

Berum nú saman umhyggju okkar fyrir föðurlandinu og frelsi þess, og umhyggjusemi annara þjóða fyrir föðurlandi þeirra. Dæmin höfum við fyrir okkur, og þau alveg ný. Alþingi Íslendinga er í vandræðum út af því, að samþykkja tillögu til þess, að reyna að tryggja landinu sjálfstæði sitt í sjermálum þess, og hefir opinn leik á borði til þess. Þessi vandræði stafa af því, að sumir þingmenn halda, að einum ráðherra geðjist ekki að því, að tillagan sje samþykt. En aðrar þjóðir senda á sama tíma miljónir manna, sinna bestu sona, út á vígvöllinn, þar sem þeim er slátrað á kvalafullan hátt. Þær fórna miljónum af mannslífum og efnum sínum til þess, að vernda sjálfstæði þjóðar sinnar. Jeg spyr: Er Íslendingum að fara aftur andlega og siðmennilega ?

Líti menn til tíma Jóns Sigurðssonar. Menn hafa gott af því nú á tímum, að líta við og við aftur til hans, og þess tíma, þegar hann starfaði. Á tímum Jóns Sigurðssonar hnöppuðust bændur og prestar landsins saman um sjálfstæði landsins undir forustu hans, en embættismannastjettin í Reykjavík með þeim konungkjörnu stóð þá hinum megin móti sjálfstæði landsins. Hvað margir bændur og prestar fylgdu þá embættismannastjettinni í Reykjavík? Auðvitað stendur nokkuð öðru vísi á nú, heldur en þá. Þá var efnishyggjan (»Materialisminn«) ekki búinn að hertaka Alþingi. (Ráðherra: Hvað meinar þingmaðurinn með »Materialisma«?) Hæstvirtur ráðherra skilur vel, við hvað jeg á. (Ráðherra: Það þurfa fleiri að skilja það). Það skilja það víst allir, sem vilja skilja það, og þarf því engrar skýringar við.

Er það af ótta, að menn halda nú ekki sjálfstæðismálunum fram eins og áður?

Jeg var fyrir nokkru síðan staddur á fundi, og hitti þar gamlan kunningja minn. Hann skaut því fram, að það gæti verið hættulegt fyrir okkur, að vera með svona tillögu, eins og þá, er nú á að koma undir atkvæði, og sagði, að sumir mundu iðrast þess síðar. Jeg tók það svo, að einhver ætlaði að hefnast á mjer eða öðrum í hópnum fyrir það. Og hægast var að hefnast á mjer í þeim hóp, eins og á stóð. Af þessu getur skapast ótti hjá mörgum manni, því að menn vita, að andi mannsins er ekki enn orðinn svo göfugur, að hann geti metið rjettilega skoðanamun, þótt bygður sje á sannfæringu. En jeg hygg, að óttinn sje í raun og veru ekkert annað en ambátt siðleysisefnishyggju og yfir höfuð andlegrar lítilmensku. Og jeg hygg enn fremur, að sá, sem gengur að þingstarfinu, sem á að vera heilagt, með hreinum hug og hjarta og með það eitt fyrir augum, að nota krafta sína eingöngu til hagsmuna fyrir þjóðfjelagið, hann þurfi ekkert að óttast. Enginn mannlegur kraftur megnar að vinna slíkum manni mein. Þess vegna skulum vjer ódeigir hafna dagskránni, sem fram hefir verið borin, en samþykkja tillöguna. Og þó að einhverjir, ef til vill, verði látnir gjalda þess efnalega, þá getur þó enginn skaðað andann.

Jeg skal svo ekki ræða lengur um þetta mál; jeg þurfti að segja meira, en sleppi því, til þess að lengja ekki umræðurnar langt úr hófi.