19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

25. mál, rafmagnsveitur

Framsögumaður (Guðm. Björnson) :

Herra forseti! — Jeg mun ekki þurfa að gjöra grein fyrir, hvernig frumvarp þetta er til komið. 1913 var efnt til rafveitu á Seyðisfirði, og bar þá þm. Seyðf. upp frv. um rafveitur í hv. Nd., og var það frumvarp samþykt þar. En er það kom hingað í deildina, varð mönnum þegar ljóst við nánari rannsókn, að svo margir gallar voru á því, að það var með öllu ófullnægjandi. En þá var komið að þinglausnum, svo að ekki var tími til þess að breyta frumvarpinu svo, sem þurft hefði, og var því það ráð tekið, að frumvarpið var samþykt, en ákveðið, að það skyldi ekki gilda lengur en til 1. jan. 1916. Jafnframt var skorað á stjórnina, að búa málið vel og vandlega til þessa þings. Það verður því ekki annað sagt, en að stjórnin hafi haft nægan tíma, til þess að leysa þetta starf vel af hendi, en henni hafa verið mjög svo mislagðar hendur, og er allur frágangur á frumvarpinu frámunalega ljelegur, bæði að efni og orðfæri. Um orðfærið má geta þess til dæmis, að svo mikið ósamræmi er í því, að sömu orð tákna ekki alt af sömu hugtök. Þannig er orðunum „sveitarfjelagsstjórn“ og „sveitarstjórn“ ruglað saman alveg af handa hófi. Annars vil jeg ekki þreyta hv. deild á því, að fjölyrða um orðabreytingar þær, sem nefndin leggur til að gjörðar verði; þær mæla væntanlega allar fram með sjer sjálfar.

Ýmsar efnisbreytingar hefir stjórnin gjört á hinu fyrra frumvarpi, en hitt hefir henni dáðst, að gjöra grein fyrir, hvernig á sumum þeim breytingum stendur, og er slíkt óhæfilegt. Þetta er raunar ekki ný bóla, því að þessi ósiður stjórnarinnar ágjörist þing frá þingi, og sje jeg ekki betur en að alþingi verði að fara að grípa alvarlega í taumana, til þess að afstýra þessu háttalagi; ef stjórnin sjer ekki að sjer. Um efnisbreytingar, sem nefndin leggur til að gjörðar verði, skal jeg vera fáorður, og get jeg að flestu leyti vísað til nefndarálitsins. Það er að eins ein brtt., sem jeg vil fara nokkrum orðum um. Í 6. gr. frumvarpsins, er sveitarstjórnum heimilað, að selja öðrum til umráða einkarjett sinn um 30 ára skeið. Þetta telur nefndin athugsvert, tímatakmarkið oflangt, því að það er vafalaust, að best er að hver sveit eigi sjálf síns rafmagnsveitu, og væri því illa farið, ef sveitir tækju upp á því að selja öðrum rjettinn í hendur til mjög langs tíma. Hjer í Reykjavik höfðu menn það ráð, er gasveitan komst á laggirnar, að bæjarstjórnin áskildi sjer rjett til þess að taka að sjer öll umráð yfir henni eftir 5 ár. Nefndin vill því leggja til, að tímalengdin verði færð niður í 15 ár.

Það getur vel verið, að frumvarpið þurfi enn þá fleiri breytinga við, og má þá taka það til greina við 3. umr. Stjórnin hafði svo frá frumv. gengið, að í rauninni hefði verið rjettast, að vísa því heim til hennar aftur, ef ekki hefði bráða nauðsyn borið til, að það næði fram að ganga á þessu þingi. En hitt má þingið ekki lengur láta undir höfuð leggjast, að heimta betri vinnubrögð af stjórninni.