20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

14. mál, stjórnarskráin

Flutnm. (Sigurður Eggerz):

Það er að eins örstutt athugasemd við ræðu háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.). Hann stóð upp með miklum móði, af því að jeg hefði sagt, að Danir ættu flokk á þinginu. Jeg viðhafði ekki þau orð, en hitt sagði jeg, að meðan flokkur væri í landinu, sem væri sammála Dönum, er ágreiningsmál kæmu upp, þá væri ekki hægt að koma neinu fram. Enn fremur taldi jeg og tel illa farið, að sambandsmenn hölluðust á sömu sveif og konungsvaldið, eftir staðfestingarsynjunina 30. nóv. 1914, því um það ættum vjer allir að vera sammála, að staðfestingarsynjanir á lögum í þingræðislandi eru mjög óheppilegar. Þó þeir væru mjer ekki að öllu leyti sammála, þá var samt eðlilegast og rjettast, að allir hefðu staðið saman. Því ef allir hefðu lagst á eitt og ekki gefið eftir, þá hefðum vjer hrundið málunum áleiðis, en meðan sundrungin ríkir, þá er ekki neinna framkvæmda að vænta. Við slíku er ekki að búast, fyrr en þjóðin skilur, að vjer verðum að standa allir eins sameinaðir og Danir, er um okkar málstað er að ræða. Ógæfan er, að vjer skiljum ekki þessa sjálfsögðu reglu. En flokkspólitíkin er svo rík, að hún er orðin landsheillinni hálfgjörður ofjarl.

Jeg skildi háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) svo, að hann furðaði sig á því, að ekki hefði komið fram vantraustsyfirlýsing til ráðherra, en jeg hefi margtekið fram, að jeg teldi öruggustu leiðina í þessu máli, að samþykkja slíka vantraustsyfirlýsingu, en það er vitanlegt, að ekki er hægt að koma henni fram, og því var sú leiðin farin, að bera þessa öryggistillögu fram.

Jeg endurtek það, að jeg vonast fyllilega til þess, að háttv. deild samþykki þessa tillögu, og sjerstaklega ætti háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) að telja sjer skylt, að greiða henni atkvæði, þar sem hann rökstyður fyrirvarann 1914 þannig, að hann sje nauðsynlegur, til þess að óvandaðir menn gætu ekki vitnað í umræður þær, er þá hefðu farið fram um málið, Dönum í vil. Því þá ekki frá hans sjónarmiði að samþykkja þessa tillögu af sömu ástæðu nú? En því meiri er ástæðan til að samþykkja tillöguna, þar sem það ætti nú að vera orðið ljóst af umræðunum hjer í háttv. deild, að staðfestingarskilmálar þeir, sem settir eru af konungsvaldinu 19. júní, eru aðrir en skilmálar þeir, sem Alþingi 1914 setti fyrir staðfestingunni.

Um gömlu deiluna á milli heimastjórnarmanna og sjálfstæðismanna um ríkisráðsfundinn 30. nóv., sje jeg ekki ástæðu til, að fara að tala hjer, en því verð jeg þó að halda mjög fast fram, að það er rangt hjá háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.), að jeg hafi brotið vilja þingsins 1914. Það sýndi sig, að jeg var í fullu samræmi við skilning þingsins, þar sem jeg fjekk yfirlýsingu 24 þingmanna um það. Mjer virðist því harla djarft, eftir að sú yfirlýsing liggur fyrir, að bregða mjer um, að jeg hafi ekki verið í samræmi við þingviljann, og verð jeg að mótmæla þeirri staðhæfingu kröftuglega.

Hæstv. ráðherra er ekki miklu að svara. En í grein í Ísafold með hans nafni undir, stendur skýlaust, að beinnar viðurkenningar konungs þurfi á fyrirvaranum. (Ráðherra: Hefi skrifað það í flaustri). Hæstv. ráðherra segir, að hann hafi skrifað það í flaustri. Ja, jeg á erfitt með að sjá af blaðagrein, hvað er sagt í flaustri eða ekki. En jeg verð að líta svo á, að þau orð hafi ekki verið í flaustri skrifuð, þar sem þau eru í samræmi við yfirlýsingu þá, er hann, einn af 24, gaf mjer í vetur. Hæstv. ráðherra varð viðkvæmur og talaði um, að það væri undarlegt að minnast á blað, þar sem ritstjórinn væri ekki við. En jeg tel ekkert eðlilegra en drepið sje á, hvað stjórnarblaðið segir, þar sem slík blöð eru vanalega innblásin af stjórninni sjálfri, og hún er við. Auk þess er jeg reiðubúinn að endurtaka þessi orð, hve nær sem óskað er, utan þinghelginnar, í votta viðurvist.

Mjer skildist hæstv. ráðherra halda því fram, að opna brjefið væri að sjálfsögðu upp hafið, þar sem í hinum nýju skilmálum væri ekki minst á, hverjir gjörðu hina þar um ræddu, jafntryggu skipun, en í opna brjefinu var það skýrt tekið fram. En mjer virðist einmitt ástæða til að ætla, að þetta sje ekki tekið fram í hinum nýju skilmálum, af því mælisnúran fyrir því, hvernig breyta skuli, sje í opna brjefinu, sem í gildi er. Ef staðfestingarskilmálarnir hefðu verið svo, að þeir í sjálfu sjer útilokuðu opna brjefið, þá væri það annað mál; þá væri það dautt, en nú er ekkert í þeim, sem útiloki það.

Jeg sje svo ekki fleira í umræðunum, sem jeg þurfi að svara frá minni hlið, og jeg endurtek það, að jeg treysti því enn á síðasta augnabliki, að háttv. deild samþykki þessa tillögu, sem eingöngu miðar til þess, að tryggja rjettindi landsins.