21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Guðmundur Hannesson:

Jeg býst við, að háttv. þm. telji það auðveldara, að vjer tökum að oss strandvarnirnar sjálfir en það í raun og veru er. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um kostnaðinn við úthald eins gætslubáts á stærð við vænan botnvörpung, og komist að raun um, að hann er því nær helmingi meiri en jeg gjörði ráð fyrir 1906, og gjört er ráð fyrir í tillögu þessari; í stað 50 þús. kr. á ári verði ekki komist af með minni upphæð en 90 þús. kr. Kolin ein mundu t. d. kosta ca. 50 þús. kr. á ári. Fyrir þessu hefi jeg orð manns, sem vel er kunnugur botnvörpuútgjörð. Jafnvel þótt hægt væri að nota skipið jafnframt sem æfingaskip fyrir sjómannaskólanemendur, sem þó mundu verða talsverðir erfiðleikar á, þá verður samt ekki hjá því komist, að borga mörgum föstum mönnum kaup, og þetta eykur kostnaðinn að mun. Ef árleg útgjöld verða 90,000 kr. við eitt strandvarnarskip, þá er það auðsætt, að strandgætslusjóðurinn muni ekki vaxa hratt, eftir að vjer tækjum að gæta landhelginnar, þó honum væru lagðar 30,000 kr. á ári. Þessi upphæð segði lítið til útgjörðar á einu gætsluskipi.

Að sumu leyti getum við verið Dönum þakklátir fyrir strandvarnirnar. Þær hafa gjört talsvert gagn, eins og sjest af sektum þeim, sem árlega greiðast landssjóði fyrir landhelgisbrot.

Vjer verðum að gjöra oss það ljóst, þegar vjer erum að tala um að taka að oss strandvarnir, þá tjáir ekki að byggja á öðru en áreiðanlegum tölum. Jeg hygg, að fjárhagur vor sje svo þröngur, því miður, að oss veitist þetta fullerfitt enn sem komið er, þó ókleift sje það engan veginn. En það gleddi mig, ef við gætum framkvæmt þessa hugmynd, og hefðum sjálfir bolmagn til þess að halda uppi vörnunum.

Tillaga sú, er hjer liggur fyrir, er að mínu áliti óheppileg; Danir mundu taka henni illa, og hún er í ósamræmi við það, að vjer stefnum að því, að taka að oss strandferðirnar sjálfir.