26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Skúli Thoroddsen:

Jeg hefði — málefnisins vegna — getað búist við þeirri kurteisi af háttv. nefnd, að hún hefði látið málið óútrætt, látið það sofna, í stað þess, að taka svo í strenginn, sem hún gjörir.

En nú hefir nefndin kosið, að ráða háttv. deild til þess, að fella till. mína, um landhelgisvarnirnar, og get jeg þá — eftir atvikum — einnig felt mig mjög vel við þau afdrifin, — vel unt henni þess heiðursins, er af því hlýtst.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að vjer »leituðum á náðir Dana«, ef vjer samþyktum tillögu þessa, og svo smáa vill hann síst, að vjer, stórmennin(!) gjörum oss.

En til þessa er því að svara, að því fer þó mjög fjarri, að vjer snúum oss til Dana, sem krjúpandi beiningamenn, þar sem vjer höfum rjett til þess, að krefjast þess, að þeir inni vel af höndum verk, sem þeir eru skyldir til að sinna, — skyldir, að leysa vel af hendi, í endurgjaldsskyni fyrir það, er vjer látum þá njóta jafnrjettis við oss, að því er notkun landhelginnar hjer við land snertir.

En fyrst nefndin vill fella tillöguna, þá er nú alt á hennar ábyrgð, hvernig sem um strandvarnirnar fer. Jeg hefi bent á þann veginn, er eigi verður neitað, að að gagni gat komið, og fæ eigi meira að gjört.

Sami háttv. þingm. (M. Ó.) sagði enn fremur, að nefndin vildi, að vjer tækjum sjálfir strandvarnirnar í vorar eigin hendur. En á hvern hátt? Það sýna best umræðumar um Landhelgissjóðinn, sem jeg get því látið mjer nægja, að skírskota til. Þær sýna það, að nefndin vill láta alt dankast, sem verið hefir, og tímir jafnvel eigi, að leggja svo fram fje, til eflingar Landhelgissjóðnum, sem nauðsynin þó krefur, eigi tíminn, sem líður, uns hann er nokkurs verulegs megnugur, ekki að verða alt of langur.

En nefndin um það. Jeg þvæ þá mínar hendur.