11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

97. mál, slysfaramál

Guðmundur Hannesson:

Jeg vona, að háttv. framsögum. (M. Ó.) taki það ekki illa upp fyrir mjer, þótt jeg geti ekki orðið honum sammála um þetta mál. En jeg hygg, að þessi milliþinganefnd, sem hann vill láta skipa, gjöri ekki sjerlega mikið gagn, þótt hún komist á.

Það er sjáanlegt hverjum manni, að ekki minka slysin, þótt milliþinganefnd sje skipuð. Orsakir slysfaranna þekkjast allvel, og til þess að finna þær, þarf tæpast að skipa nefnd. Ekki heldur nægir lagasmið ein, til þess að draga úr hættunni, sem yfir sjómönnunum vofir.

Nefndin gæti bent á, að slysfarir væru oft að kenna ofdirfsku og óaðgætni, en getur hún þá bætt úr þessu?

Jeg vil benda háttv. framsögum. (M. Ó.) á, að mikil líkindi eru til, að slysfarirnar minki með bættum útvegi, t. d. munu slysin ekki vera nærri því eins tíð á botnvörpungunum og stærri mótorbátum, eins og á minni og lakari bátum og seglskútum, sem við höfum siglt á hingað til. En útvegurinn breytist smátt og smátt, og milliþinganefnd gæti ekki haft nein áhrif á það, hvort það verður langt eða skamt þangað til, að allur fiskiútvegur verður rekinn á vönduðum og hæfilega stórum skipum.

Jeg vona, að með tímanum komi hjer við land upp góðar hafnir, og þá er ekki vafasamt, að slysin fara fækkandi.

Mjer er ekki skiljanlegt, að milliþinganefnd geti gjört neitt verulegt, sem gæti orðið þessu máli til góðs, og því vil jeg fremur vísa málinu til stjórnarinnar, en helst að háttv. framsögum. (M. Ó.) tæki till. aftur.