11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

97. mál, slysfaramál

Jón Jónsson:

Það er ekki rjett hjá háttv. framsögum. (M. Ó.), að till. á þgskj. 254 sje gagnslaus, ef tillagan á þgskj. 293 verður samþykt. Þótt stjórnin sjálf geti ef til vill ekki undirbúið málið, þá getur hún samt sem áður fengið aðstoð annara til þess. T. d. getur hún fengið upplýsingar hjá ráðunaut Fiskifjelagsins, sem jeg veit að er mjög fróður um alt, sem lýtur að sjávarútveginum, og myndi eflaust ekki telja eftir sjer að láta allar upplýsingar, sem hann gæti, í tje. Eins mundi stjórn Fiskifjelagsins fús til að gefa stjórninni upplýsingar og fiskifjelög út um land. Jeg mótmæli þeirri aðdróttun háttv. framsögumanns (M. Ó.), að við þm. N.- Múl. höfum komið fram með þessa brtt. til að bekkjast til við sjávarútveginn. Tillagan er fram komin af sparnaðarástæðu. Og jeg vil benda háttv. framsögum. (M. O.) á, að einmitt tveir landbændur hafa flutt mikilsvert frumv., er lýtur að sjávarútvegi, frumv. um breytingu á landhelgissjóðslögum. Það er sleggjudómur að segja, að landbændur hafi ekki vit á málum, er lúta að sjávarútvegi. Þeir eru skyldir til að kynna sjer þau og gjöra það líka eftir föngum.

Jeg játa það, að það væri æskilegast fyrir stjórnina, að skipuð yrði milliþinganefnd. En geti stjórnin, með aðstoð góðra manna undirbúið málið nægilega, þá væri öllu borgið og tilgangi háttv. sjávarútvegsnefndar náð. En landinu væru sparaðar margar þúsundir króna.

Jeg get því ekki skilið, að sjávarútvegsnefndin vilji taka tillöguna aftur, þótt brtt. yrði samþykt.