11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

97. mál, slysfaramál

Stefán Stefánsson:

Því miður gat jeg ekki verið viðstaddur, þegar tillaga þessi kom fram og var rædd í sjávarútvegsnefndinni, sökum þess, að jeg hafði löngu áður boðað til nefndarfundar í landbúnaðarnefndinni, og var því þar við bundinn á sama tíma. En hvað tillöguna snertir, þá er jeg því mótfallinn, að milliþinganefnd sje sett í þetta mál, eins og jeg hefi stundum áður verið á móti milliþinganefndum, þegar jeg hefi ekki getað sjeð, að beina nauðsyn bæri til, og álitið stjórnina ekki síður geta gefið þinginu upplýsingar og bendingar um þau mál, er einstökum þingmönnum hefir þá verið falið, með sjerstakri nefndarsetningu. Og í þessu tilfelli er jeg enn þá ekki sannfærður um, að milliþinganefnd muni geta gjört meira gagn en stjórnin, fái hún aðstoð kunnugra manna, sem hún auðvitað alt af getur leitað til. En þessi tilhögun álit jeg að verði að mun kostnaðarminni fyrir landssjóð, heldur en að hafa hjer fasta menn mánuðum saman, má ske suma miður vel starfinu vaxna. Það er því einungis af þessari ástæðu, að jeg er milliþinganefnd mótfallinn, en alls ekki af því, að jeg vilji ekki, að málið upplýsist sem best, og ráðstafanir verði gjörðar til þess, að draga úr hættunni, ef það sýndist mögulegt. En þó menn viti, af hverju slysin hljótast, þá er jeg þó mjög hræddur um, að mönnum muni veita erfitt að fyrirbyggja þau. (Guðmundur Hannesson: Alveg rjett).

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) talaði mikið um, hve ilt og sorglegt væri, að sjá sjómenn leggja út að vetrarlagi og berjast við vond veður, án þess að geta hjálpað þeim eða verndað líf þeirra. Þetta er að vísu alveg rjett, en geti ekki þessir menn, sem best þekkja sjóinn, og hver fyrirhyggja er nauðsynleg fyrir sjómanninn og þann atvinnuveg, sem hann stundar, hjálpað sjer, þegar í vandann er komið, hvað myndu þeir þá geta, sem í landi sitja? Við vitum líka, að til eru ýms hjálparmeðul, til þess að varna slysum, en mjög fá þeirra eru notuð. T. d. bárufleygurinn, sem er svo handhægur og talinn nauðsynlegt öryggisáhald, mun þó vera notaður af sárafáum, að því er jeg best þekki til. En þegar jafnauðveld og handhæg tæki eru sáralítið notuð, þá má ætla, að fyrirskipanir um önnur torveldari og dýrari öryggisráð verði forsómuð. En sje hægt að hjálpa þessu við, þá er síður en svo, að jeg vilji leggja nokkurn stein í götuna fyrir það. Það, sem mjer finst, að maður ætti að gjöra í þessu máli, er að fela stjórninni það til undirbúnings fyrir næsta þing; því sje milliþinganefnd ekki bráðnauðsynleg, þá vil jeg ekki, að kastað sje út fje til slíkra starfa að óþörfu. Sjái landsstjórnin hins vegar, er hún hefir leitað álits fróðra manna um þessa hluti, að tiltök sjeu að ráða þó nokkra bót á þessari yfirvofandi hættu, þá mundi jeg alls ekki hafa á móti því, þótt þóknun yrði greidd til þess manns eða þeirra manna, er stjórnin kveddi sjer til aðstoðar.

Jeg mun því fylgja brtt. á þgskj. 293, og fái hún samþykki deildarinnar, þá aðaltillögunni á þgskj. 254, en falli brtt., þá sje jeg ekki, að jeg geti fylgt tillögunni á þgskj. 254. Jeg vildi geta þessa af því, að tillagan er komin frá sjávarútvegsnefndinni, án þess, að á henni sjáist annað en að nefndin hafi verið einhuga um hana.