11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

97. mál, slysfaramál

Ráðherra:

Jeg hefi reyndar ekki hlýtt á umræðurnar, en háttv. þingm. V.-Ísf. (M. Ó.) mun hafa beint til mín einhverri fyrirspurn, viðvíkjandi því, hvernig stjórnin liti á þetta mál. Jeg er því miður ekki neinn sjerfræðingur í þessu efni, og get því ekki talað um það af miklum kunnugleika. Ef brtt. á þgskj. 293 verður samþykt, þýðir það sama sem að fela stjórninni aðgjörðir í þessu máli. Þess er nú fyrst að geta, að stjórnarráðið hefir ekki í sinni þjónustu neinn þann mann, er hafi sjerþekkingu í þessu efni. Það, sem stjórnin mundi þá gjöra, yrði að leita til annara manna, og þá helst til stjórnar Fiskifjelagsins, því á öðrum mönnum á stjórnin ekki völ, eða hefir að minsta kosti ekki rjett til að snúa sjer til annara, í því skyni að njóta aðstoðar þeirra. En það má segja, að hún hafi rjett til að snúa sjer til Fiskifjelagsins, því það nýtur styrks af almannafje. Jeg get ekki sagt neitt um það, hve góðum kröftum Fiskifjelagið hefir á að skipa, nje að hve miklu leyti stjórn þess getur unnið að þessu máli. En jeg býst við, að það hafi háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) í sinni þjónustu, og ef til vill einhverja menn aðra, sem færir sjeu um að vinna þetta verk. Jeg veit ekki heldur, hversu mikið verk þetta er, en sje verkið mikið, þá er það nokkuð há krafa, sem kom fram hjá háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.), að menn ynnu það fyrir ekki neitt. Menn eru ekki vanir því nú á tímum, að vinna ókeypis; menn gjöra það ekki fyrir einstaka menn og ekki heldur fyrir landið.

Jeg get ekki gjört mjer miklar vonir um, að stjórnin ein geti átt mikið við þetta mál, þegar af þeirri ástæðu, að til þess brestur hana sjerþekkingu. Hvort eða að hve miklu leyti Fiskifjelagið er fært um að sinna því, get jeg ekki sagt neitt um, eins og jeg tók fram áðan, en það er einsætt, að tryggingin fyrir því, að verkið verði vel unnið, er miklu meiri, ef ákveðnir menn verða skipaðir til að vinna það. Ef stjórnin fær heimild til þess, verða hæfir menn væntanlega fáanlegir. Það er rjett, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) tók fram, að það dugar ekki að skora á stjórnina að gjöra hitt og þetta, sjerstaklega þegar um alveg sjerfræðileg mál er að ræða. Stjórnarráðið hefir nóg að gjöra, og jafnvel meira en það getur komist yfir. Það dugar ekki að vera að samþykkja eina þingsályktunartillöguna eftir aðra, og sumar um mikilsverð málefni, og halda, að stjórnin geti afkastað öllu saman milli þinga.

Háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) tók það fram, að hann vildi heimila stjórninni að verja einhverju fje til þessa máls, eða rjettara sagt, að hann vildi veita stjórninni uppgjöf saka eftir á, þótt hún verði einhverju fje til þess, án þess að tillagan um milliþinganefnd yrði samþykt. Mjer virðist það þá koma nokkuð í sama stað niður, hvort milliþinganefnd er skipuð eða ekki, ef stjórnin má hvort sem er verja fje til þessara rannsókna. En það mætti reyndar alt af segja eftir á, að það hafi verið ódugnaður af stjórninni, að fá aðra menn til að vinna starfið. Jeg endurtek það að lokum, að ef þingið vill fá tryggingu fyrir því, að verkið verði vel af hendi leyst, þá er skynsamlegast að samþykkja tillöguna á þgskj. 254 eins og hún liggur fyrir.