11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

97. mál, slysfaramál

Björn Hallsson:

Jeg vil ekki lengja umræðurnar mikið, en fyrst hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) ljet svo lítið, að víkja nokkrum vinsamlegum orðum að háttv. samþingismanni mínum og mjer í ræðu sinni, þá verð jeg að svara honum með örstuttri athugasemd. Hann brá okkur um vanþekkingu í þessu máli. Það er nú ekki neitt nýtt, að heyra slíkt frá þeim háttv. þingmanni, enda þótt ræðurnar, sem frá honum koma, sjeu að jafnaði þær grunnskreiðustu og leiðinlegustu, sem fluttar eru í þessari deild. Eigi að síður hljóma þessi vanþekkingarbrigsl oft frá honum, en maður verður að virða honum það til vorkunnar, þótt hann hafi svo mikið traust á sjer, að hann áliti, að hann geti kent öðrum. En gallinn er, að kennarahæfileikana vantar með öllu, og þekkinguna líklega einnig. Hann sagði, að við vissum tæplega, hvað bátur væri og myndum ekki einu sinni kunna áralagið, en jeg get fullvissað hann um það, að við þorum að mæta honum í róðri hve nær sem þingmanninum svo sýnist. En þetta er nú aukaatriði, og skal jeg ekki dvelja við það lengur.

Jeg hefi ekki getað sjeð það á ræðum manna, að þeir hafi á rökum bygt mótmæli sín gegn brtt. þeirri, sem við höfum flutt hjer, og get jeg fyllilega tekið undir það með háttv. samþingsm. mínum (J. J.), að það er ekki af háttv. flutningsmönnum, að taka tillöguna aftur, þótt brtt. verði samþykt, og því síður, að við flytjum hana til þess að drepa málið, eins og framsm. komst að orði. Stjórnin getur talsvert gjört í þessu máli. Hæstv. ráðherra benti á, að stjórnarráðið hefði mjög mikið að gjöra, svo að vafasamt væri, hvort það gæti bætt þessu við sig, en hann benti líka á það, að stjórnarráðið gæti snúið sjer til manna, sem hefðu vit á málinu, þar á meðal til stjórnar Fiskifjelagsins. Það er einmitt það, sem jeg hafði búist við, að stjórnin mundi gjöra. Jeg leit svo á, að henni mundi vera innan handar, að útvega sjer slíkt ráðuneyti, og jeg get ekki ímyndað mjer annað en að stjórn Fiskifjelagsins yrði fús til að láta í tje allar nauðsynlegar upplýsingar, og einnig mundi stjórnin mega vænta stuðnings frá háttv. framsögumanni í þessu efni. Enda þótt hæstv. ráðherra þyrfti að verja einhverju fje til að afla slíkra upplýsinga, mundi það verða langtum minna heldur en milliþinganefnd kostaði.

Jeg vil ekki kannast við það, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) sagði, að það væri orðin regla hjer á þinginu, að bændur væru ætíð á móti öllu því, er kæmi frá sjávarsíðunni. Það er sleggjudómur, eins og von var á úr þeim stað, sem ekki hefir við nein rök að styðjast. Við erum fullkomlega samþykkir því, sem kemur frá sjávarsíðunni, ef við álítum það nauðsynlegt, og engu síður heldur en því, sem kemur frá landsveitunum. Einungis viljum við fara þá leiðina, að vísa þessu til stjórnarinnar, vegna þess, að við teljum það fjársparnað, en sama tilgangi náð með því.

Jeg held það sje svo ekki fleira, sem jeg þarf að svara, enda vil jeg ekki lengja umræðurnar meira.