11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

97. mál, slysfaramál

Framsögum. (Matthías Ólafsson):

Jeg skal vera stuttorður, en mig langar þó til að svara háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) nokkrum orðum. Sjerstaklega vil jeg athuga þann hugsanagang, sem kom fram hjá honum, þegar hann talaði um, hvert stjórnin ætti að fara til að leita sjer ráðuneytis. Fyrst áleit hann, að stjórnin ætti ekki að fara neitt, heldur ráða sjálf fram úr þessum málum, en svo hallaðist hann að þeirri skoðun, að hún ætti helst að snúa sjer til Fiskifjelagsins. Til er stór nefnd, sem heitir Alþingi. Myndi nú ekki samkvæmt þessu vera rjett, að vísa öllum þeim málum, sem það hefir til meðferðar, beint til aðgjörða stjórnarinnar, láta hana taka við allri málasúpunni. Hún gæti svo fengið háttv. 2. þm. N.- Múl. (J. J.) til að skeggræða við sig; hann myndi sjálfsagt verða fáanlegur til að leggja ráðin á fyrir litið. Svona kenningu vil jeg ekki heyra. Ef leita þarf ráðuneytis manna, þá er sjálfsagt að borga þeim, og það gæti farið svo, ef stjórnin þyrfti að leita ráðuneytis manna hingað og þangað, að það yrði dýrara en nefnd, en á hinn bóginn er enginn efi á því, að gagnið yrði langt um meira, ef nefnd yrði skipuð. Stjórnin hefir sjálf sagt það. En það má segja, að þá sje ullar leitað í geitarhúsi, ef farið er til Fiskifjelagsins til að fá það til að semja lög um slysatryggingu. Það er ekki þess »fag«, og jeg veit ekki til að það hafi neinum sjerfræðingi á að skipa í því efni. Til þess þyrfti að fá menn, sem hefðu lagt sig beint eftir þessu máli í lengri tíma, og slíkum mönnum væri sjálfsagt að borga vel.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) mintist nokkuð á, hvernig oft og tíðum væri ástatt fyrir sjómönnunum, og tók háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) það illa upp fyrir honum, og sagði, að menn á landi gætu ekki gjört að því. Hann talaði um, að setja löggjöf, sem ekki einungis beitti sektum, heldur gjörði það óhugsandi, að skip yrðu borguð, ef það sannaðist, að þau hefðu ekki haft lýsi. Það þarf að vera strangt alt, sem til öryggis á að vera. Í Noregi er mönnum bannað blátt áfram, að fara á sjóinn, ef eitthvað vantar, sem ákveðið er, að til öryggis skuli hafa. Svo lengi sem við gjörum það ekki hjer, hefir ekki verið gjört alt, sem hægt er að gjöra, til þess að koma í veg fyrir slys. Meðnefndarmenn mínir eru allir á sama máli og jeg um það, að rjett sje að taka tillöguna aftur, ef brtt verður samþykt.

Að lokum vil jeg þakka háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) fyrir framkomu hans í þessu máli. Í nefndinni sagði hann ekki eitt »kvæk« á móti milliþinganefnd, og það gengur næst því að vera ekki »fair«, þegar hann kemur svo fram hjer í deildinni á eftir og leggur eindregið á móti nefndarskipun.