11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

97. mál, slysfaramál

Bjarni Jónsson:

Jeg skal játa það, að mjer finst þessi þingsályktunartillaga verða þýðingarlaus og út í loftið, ef nú á að fara að vísa þessu máli til aðgjörða stjórnarinnar. Jeg segi þetta ekki af því, að svo stendur á, að jeg er ekki stuðningsmaður núverandi stjórnar. Þvert á móti trúi jeg henni eins vel eins og hverjum öðrum til að leysa þetta starf af hendi. En jeg veit ekki til, að nokkur sá maður sje í stjórnarráðinu, sem beri skynbragð á þetta fram yfir aðra menn. Þar sem hjer er um almenn slysfaramál að ræða, er þörf á mönnum, sem kunnugir eru slíkum málum í öðrum löndum og kunna að reikna út alla máttuleika. Það verður að byrja á því að rannsaka, hvað mikið kemur fyrir af slysum, og reikna síðan út hættuna hjer í hlutfalli við áhættuna í öðrum löndum. Þá fyrst er grundvöllur fenginn til að byggja á. En svo er að fá mennina til að reikna þetta út, og teldi jeg sjálfsagt, að í slíka nefnd yrði skipaður maður eins og dr. Ólafur Daníelsson, sem er gagnkunnugur og þaulvanur öllum slíkum reikningi. Enn fremur yrði að skipa einhvern þann mann í nefndina, sem hefði sjerstaklega vit á því, hvað í einstöku tilfelli væri slysinu að kenna. Það er sjálfsagt, að setja sjerstaka nefnd í þetta mál, ef nokkuð á að sinna því á annað borð. Jeg skil ekki, hvers vegna menn heldur kjósa það form, að fela stjórninni eftir eigin geðþótta, hverjar leiðir hún fer til að afla sjer upplýsinga um þessi efni.